Ljósmynd í ljósi texta. Um samspil ljósmynda og texta í ævisögulegum rannsóknum.

 

Í fyrirlestrinum verður fjallað um ljósmyndir sem sögulegar heimildir og hvernig þær geta dregið fram og varpað öðru ljósi á veruleikann en texti. Í þessu samhengi verður skoðað hvernig ljósmyndir hafa verið notaðar í nokkrum íslenskum ævisögum og þeirri spurningu velt upp hvort ljósmyndir hafi fremur verið notaðar sem skraut (sbr. hugtakið myndskreyting) fremur en sem margslungin heimild sem megi nota á markvissan hátt til að nálgast veruleika fortíðarinnar. Með því að nálgast ljósmyndir út frá tengslum þeirra við þann veruleika sem hún er sprottin úr, og beita aðferðafræði orðræðugreiningar til að skilja þá merkingu sem lögð hefur verið í hana á ólíkum tímum, er hægt að draga fram ákveðið sjónarhorn og ákveðinn skilning á veruleika fortíðarinnar og túlkun okkar á honum. Ein einstök ljósmynd getur bæði staðfest, afhjúpað og varpað nýju ljósi á þá orðræðu sem mótað hefur skilning fólks á þeim veruleika sem hún miðlar. Í ljósi þessa verður fjallað um það hvernig ljósmyndir eiga þátt í að móta og varðveita minningar einstaklinga og kunna þannig að hafa óbein áhrif á aðrar heimildir, ekki síst persónulegar heimildir, s.s. dagbækur, bréf og sjálfsævisögur, sem oft liggja fræðilegum ævisögum til grundvallar.

FaLang translation system by Faboba