Bólufaraldrar á Íslandi og Kaupmannahöfn á 17. og 18 öld

Á undanförnum árum hefur áhugi á rannsóknum á faröldrum fyrri alda verið mikill á Norðurlöndum. Íslenskir sagnfræðingar hafa látið sig málið varða, komið fram á málþingum og skrifað um efnið. Svipaða sögu má segja annars staðar. Bæði í Svíþjóð og Danmörku hafa nýlegar rannsóknir litið dagsins ljós. Það er þessum nýju rannsóknum sammerkt að þær byggja á rannsóknum á samtíma heimildum og varpa nýju ljósi á feril og afleiðingar skæðra sjúkdóma eins og bólusóttar og plágu. Þá hefur einnig verið aukinn áhugi á faröldrum liðinna alda hjá sérfræðingum sem vinna að sóttvörnum og veldur þar hættan á heimsfaröldrum sem yfirvofir.

Á málstofunni munu leiða saman hesta sína tveir sagnfræðingar og einn læknir. Efni málstofunnar er að greina frá niðurstöðum á rannsóknum á bólusótt á Íslandi 1670-1709, einkum stórubólu 1707-1709, og rannsóknum á bólusótt í Kaupmannahöfn á 18. öld með samanburði við plágu sem þar gekk jafnaðarlega til 1654 og svo síðast árið 1711. Greint verður frá einstökum faröldrum, hvernig þeir breiddust út, mannfalli birtingu þess og afleiðingum. Þá verður fjallað um sjúkdómseinkenni, smit og dánartíðni.

Karl-Erik Frandsen, candmag. í sögu og landafræði, dr. phil. er lektor í sögu, við Hafnarháskóla og gaf nýlega út niðurstöður margra ára rannsókna á plágunni á Eystarsaltssvæðinu 1709-1713. The last Plague in the Baltic Region (2009). Plágan kom einnig til Sjálands og olli miklum skaða í Kaupmannahöfn. Frandsen stundar nú rannsóknir á faröldrum í Kaupmannahöfn og Sjálandi á 18. öld.

Eiríkur G. Guðmundsson, candmag. í sögu, deildarstjóri í Þjóðskjalasafni, hefur rannsakað stórubólu 1707-1709 undanfarin ár og hefur einkum leitað fanga frumheimildum á Þjóðskalasafni Íslands. Sú rannsókn hefur skilað nýrri vitneskju sem á erindi til fræðimanna og almennings.

Magnús Gottfreðsson læknir, dr. med., er sérfræðingur í smitsjúkdómum við Landspítala - háskólasjúkrahús og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Hann hefur áhuga á sjúkdómasögu og hefur m.a. rannsakað Spönsku veikina hér á landi 1918. Magnús fjallar um sjúkdómseinkenni, dánartíðni og smitleiðir bólusóttar og plágu (svarta dauða).

Erindin eru flutt á dönsku og ensku. Spurningar má setja fram á íslensku, dönsku og ensku.

Söfn og sýningar

Á málstofunni verður fjallað um miðlun sögu á minjasöfnum frá ýmsum hliðum. Hugað verður að því hvernig kyn og staða einstaklinga endurspeglast annars vegar í gripum og hins vegar textum og annari miðlun. Jafnframt verður vöngum velt yfir þeirri söguskoðun sem birtist á sögusýningum og notuð valin dæmi til að varpa ljósi á hana. Þá verður safnið sem fræðsluvettvangur til umfjöllunar og loks verður rætt almennt um grundvallarhumyndavinnu fyrir sýningar, með áherslu á nýlega sýningu Safnahússins á Húsavík.

Sigrún Kristjánsdóttir

Hugmyndavinna sýninga.

Fjallað verður um mikilvægi ítarlegarar hugmyndavinnu fyrir sýningar með hópi fólks með ólíkan bakgrunn og áhuga, þar sem tekið er tillit til ólíkra hópa gesta, sýningargripa, grunnhugmyndar, fjármagns og rýmis.  Dæmi verður tekið af vinnu fyrir sýninguna Mannlíf og náttúra100 ár í Þingeyjarsýslum, sem var opnuð í Safnahúsinu á Húsavík 2010. Þar var tekin ákvörðun um að brjóta upp hefðbundið flokkunarkerfi safna og sýna menningarminjar með náttúrminjum. Aðkoma hugmyndahóps skipti sköpum fyrir sýninguna.

Guðrún Harðardóttir

„Orðræðan sungin".

Í viðbót við hina pólitísku átakafrásögn af lokum þjóðveldistíma er Sturlunga saga ómetanleg heimild um fjölmarga þætti mannlífsins á þessum tíma. Einn af þeim, sem lítið hefur verið fjallað um, er helgihald í ýmsum myndum. Í því birtist hin kirkjulega vídd mannlífsins í daglegu lífi bæði veraldlegra höfðingja og kirkjunnar manna. Spyrja má: Hvers konar helgihald birtist í Sturlunga sögu? Og er merkjanlegur munur milli einstakra sagna í þessu tilliti?

Viðar Pálsson

„Orðræða um frelsi í íslenskum miðaldaheimildum".

Í fyrirlestrinum er snert á orðræðu íslenskra miðaldaheimilda um frelsi, annars vegar í samhengi við áleitna umræðu um lög og réttlæti í Evrópu á hámiðöldum (lex, ius, libertas) og hins vegar í samhengi við hugmyndir um vald og pólitískt frelsi. Á grundvelli þessa verða dregnar ályktanir um hliðstæður eða ólíkindi við síðari alda hugmyndir um og skilgreiningar á frelsi.

FaLang translation system by Faboba