Texti og orðræða á íslenskum miðöldum

Málstofan fjallar um tilgang, eðli og einkenni íslenskra miðaldatexta með því að beina sjónum að fjórum afmörkuðum rannsóknarefnum: (1) Margaret Cormack leggur mat á Íslendingabók Ara fróða, með skírskotun til Sæmundar fróða, á grundvelli þess sem textinn birtir fremur en þess sem á vantar eða vansagt þykir. (2) Viðar Pálsson fjallar um orðræðu um frelsi í íslenskum miðaldaritum, annars vegar í samhengi við áleitna umræðu um lög og réttlæti í Evrópu á hámiðöldum og hins vegar í samhengi við hugmyndir um vald og pólitískt frelsi. (3) Auður Ingvarsdóttir fjallar um tilgang og þróun landnámaritunar, einkum í samhengi við misjafnar kenningar um sagnafróðleik hennar og hagnýtingu, (4) og Guðrún Harðardóttir greinir orðræðu trúarinnar eins og hún birtist í helgihaldslýsingum Sturlunga sögu, ekki síst í samanburði einstakra sagna.

Hrafnkell Lárusson

Orð vekja ótta - af ritskoðun á 19. öld.

Á 19. öld tóku stjórnvöld víða í Evrópu að slaka á hömlum á opinberri tjáningu. Þessi þróun var tilkomin vegna krafna um aukin lýðræðisleg réttindi handa almenningi og leiddi hún m.a. til meiri þátttöku borgara í stjórnmálum og menningarlífi. Á sama tíma jókst þéttbýlismyndun í álfunni og innan borganna óx ekki aðeins borgarastéttin heldur urðu til stórir lágstéttarhópar sem yfirvöldum stóð stuggur af og lögð var mikil áhersla á að hafa stjórn á, t.d. með takmörkun á aðgengi að upplýsingum og afskiptum af listum.

Í erindinu verður fjallað um megindrætti í opinberri tjáningu á Íslandi frá lokum 18. aldar og fram á 19. öld í samhengi við stöðu mála annarsstaðar í Evrópu á þeim tíma. Einnig verður komið inn á aðferðir við ritskoðun á (rit)menningu og listum á þessum tíma.

Ágústa Kristófersdóttir

Frá gripum til texta.

 

Samhengi gripa og texta í sýningum verður til umfjöllunar með sérstakri áherslu á hvernig kyn og staða einstaklinga endurspeglast í gripum annarsvegar og textum og annari miðlun hinsvegar. Dæmi verða tekin úr fyrsta söguhólfi 800-1.000 í grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands og úr Landnámssýningunni í Aðalstræti, en á báðum stöðum er nær eingöngu um jarðfundna gripi að ræða. Kannað verður hvort og hvernig þessir gripir eru tengdir kyni og stöðu upphafslegs eiganda.

Guðbrandur Benediktsson

Söfn sem fræðsluvettvangur.

 

Menntunarhlutverk safna hefur lögum verið viðurkennt og má leita róta þess í árdaga safnastarfs varðandi fræðslu almúgans. Hin síðari ár hefur rík áhersla verið lögð á tengsl safna við skóla og menntun ungs fólk. Hugmyndir og aðferðir á sviði kennslufræða hafa mótað safnfræðslu og menn gera sér æ betur grein fyrir þeim möguleikum sem söfn bjóða upp varðandi menntun, eða fræðslu. Í erindinu verður rætt um það hvers lags vettvangur söfn geta verðir, varðandi menntun og fræðslu og fjallað um ýmis dæmi í því sambandi, innlend sem erlend.

Eggert Þór Bernharðsson

Sögusýn(ingar).

 

Íslandssögunni er í auknum mæli miðlað til almennings á sérstökum sögusýningum, hvort heldur er í söfnum eða á setrum. Auk þess eru slíkar stofnanir orðnar mikilvægur starfsvettvangur sagnfræðinga og annarra fræðimanna og ríkar kröfur eru gerðar um fagleg og fræðileg vinnubrögð. Gestum á sögusýningum hefur snarfjölgað á skömmum tíma eða úr en um 260 þúsund árið 1995 í nærri 820 þúsund árið 2009 og því er spáð að enn eigi gestum eftir að fjölga. Í erindinu verður velt vöngum yfir þeirri söguskoðun sem birtist á sögusýningum og notuð valin dæmi til að varpa ljósi á hana.

FaLang translation system by Faboba