Bragi Guðmundsson

Sagan og heimabyggðin.

Uppsprettur sögunnar eru margar og saga verður til þar sem fólk kemur saman. Í söguhluta Aðalnámskrár grunnskóla frá 2007 er lögð áhersla á að auk sameiginlegrar stjórnmálasögu sé fjallað um aðra þætti mannlífsins, svo sem menningu, siði og trú, hugarfar og hugmyndastefnur, efnahag og umhverfismál, fjölskyldu-, kynja- og barnasögu. Einnig er bent á að segja megi sögu landshluta og heimabyggðar. Erindið verður tvískipt: Í fyrri hlutanum verður landshlutagleraugum brugðið upp til að kanna hvort Íslandssaga kennslubókanna sé raunveruleg „Íslandssaga" allra Íslendinga. Í seinni hlutanum verður athygli beint að fjölbreyttri útgáfu sögulegs efnis um allt land og spurt hvernig betur megi virkja sögulegan áhuga heimamanna í skólum landsins.

Eiríkur G. Guðmundsson

Bólufaraldrar á Íslandi 1670-1709 (Koppeepidemierne i Island 1670 - 1709).

 

Í þessu erindi verður fjallað um tvo bólusóttarfaraldra, litlubólu 1670-72 og stórubólu 1707-09. Mjög lítið er vitað um fyrri faraldurinn. Það er t.d. ekki vitað hve margir dóu í landinu og ekki heldur í einstökum landshlutum. Umfjöllun um litlubólu er því afar stutt en bent á samband á milli faraldranna. Um stórubólu eru því til meiri heimildir en aðra bólusóttarfaraldra fyrri alda og því snýst erindið fyrst og fremst um stórubólu. En mannfallið þá var um 26%.

Í upphafi 18. aldar fór fram viðamikil skráning á íslensku samfélagi, manntal var tekið 1703 og jarðabók skráð 1702-1714. Þetta eru lykilheimildir til rannsókna á bólunni og áhrifum hennar. Samtímaskjöl embættismanna eru auk þess varðveitt og varpa nýju ljósi á viðbrögð stjórnvalda. Yfirvöld skráðu t.d. mannfallið með því að láta taka saman skýrslur um látna í sóknum eða hreppum flokkað eftir kynjum. Auk þess að skrá mannfallið voru efnahagsleg áhrif bólunnar á afkomu kirkjunnar metin.


 

Miðlunarstarf Þjóðskjalasafns - bylting í aðgengi.

Í erindinu verður greint frá miðlunarstarfi Þjóðskjalasafns. Frá upphafi þessarar aldar hefur safnið unnið markvisst að því að miðla völdum, eftirsóttum heimildum í fórum þess með stafrænum hætti um alnetið. Manntöl og kirkjubækur eru þar fremst í flokki.

Árið 2001 var fyrsti vísir að stafrænu heimildasafni að veruleika með birtingu manntalsins 1703 í leitarbærum gagnagrunni á heimasíðu safnsins. Um var að ræða textabirtingu á upplýsingum manntalsins. Stórátak í skráningu manntala var gert árin 2008-2010 en þá voru tíu manntöl skráð og í kjölfarið birt á nýjum manntalsvef Þjóðskjalasafns (www.manntal.is). Skráningin fór fram úti á landi sem atvinnuátaksverkefni. Þá hefur verið hafist handa við að skrá með líkum hætti upplýsingar úr sóknarmannatölum í leitarbæran gagnagrunn til birtingar á netinu. Eitt að fyrstu verkum Þjóðskjalasafns til miðlunar á menningararfinum var skólavefur safnsins sem hleypt af stokkunum 2002. Þá hafa svokölluð túnakort verið skönnuð til vefbirtingar. Nýlega var opnaður Jarðavefur safnsins og þar hafa verið gerðar aðgengilegar heimildir sem starfsmenn safnsins hafa rannsakað fyrir Óbyggðanefnd vegna Þjóðlendumála. Vefbirting heimildanna er bylting í aðgengi almennings að heimildum í safninu.

Guðmundur Jónsson

Sér á báti? Átakahefð Íslendinga og norræn samráðsstjórnmál.

Norðurlöndin eru talin búa við ríka samráðshefð í stjórnmálum sem einkennist af samningum og málamiðlunum ólíkra pólitískra afla við úrlausn erfiðra verkefna. Ísland er gjarnan talið með í þessum hópi. Í erindinu er dregið í efa að telja beri Íslendinga til þeirra þjóða sem aðhyllast samráðsstjórnmál (e. consensual model of democracy) heldur eigi þeir meira sameiginlegt með  þeim þjóðum sem búa við átakahefð (e. adversarial model of democracy). Rætt verður um þessar tvær stjórnmálahefðir og hvernig íslensk stjórnmál falla að þeim. Einkum verður litið til aðstæðna á vinnumarkaði s.s. tíðra verkfalla og takmarkaðs samráðs verkalýðshreyfingar, ríkisvalds og atvinnurekenda, en einnig fjallað um þá viðteknu skoðun í stjórnmálum að stjórnarmeirihlutinn eigi að stjórna og minnihlutinn eigi að vera í andstöðu.

Átök og samráð í íslenskri lýðræðishefð

Í stjórnarskrá Íslands er ekki talað berum orðum um lýðræði en engu að síður byggist stjórnarfarið á Íslandi á lýðræðislegum meginreglum og hefðum.  Í málstofunni er íslensk lýðræðishefð tekin til skoðunar og kannað hvaða sögulegu þættir hafa mótað hana. Viðfangsefnið kallast á við þá gagnrýni sem komið hefur fram á íslenska stjórnmálamenningu á síðari árum, ekki síst eftir hrun bankakerfisins 2008. Rætt verður um þær grunnhugmyndir um lýðræði sem alþingismenn lögðu upp með við stofnun lýðveldis 1944. Fjallað er um átakahefðina í íslenskum stjórnmálum og spurt hvort hún marki Íslendingum sérstöðu gagnvart öðrum Norðurlandaþjóðum sem taldar eru búa við ríka samráðshefð. Spurt er hvaða samfélagsþættir ýta undir átök og hverjir undir samstöðu og samráð? Hafa minnihlutastjórnir vikið frá átakahefðinni sem ríkir þegar meirihlutastjórnir eru við völd? Leiðir saga kvennahreyfingarinnar og umræðan á síðustu árum í ljós mun á hugmyndum karla og kvenna um lýðræði  um stjórnmálamenningu?  Hvaða misbresti í lýðræðiskerfinu leiddi bankahrunið í ljós og hvaða lærdóma má draga af því um íslenskt lýðræðissamfélag? Fræðimenn úr ólíkum greinum hugvísinda munu leita svara við þessum spurningum.

Súsanna Margrét Gestsdóttir

Sagan og (kennslu)augnablikið.

Að margra mati er sagan kennslugreina best til þess fallin að kljást við lykilþætti aðalnámskrár: Læsi; lýðræði og mannréttindi;  jafnrétti; heilbrigði og velferð; sköpun. Meðal sögulegra viðfangsefna úir og grúir af tækifærum til þess, ekki síst í ljósi þeirrar auknu áherslu sem nú er lögð á færni nemenda til að beita því sem þeir læra, fremur en að safna upp þekkingu. Þetta gefur kennurum tækifæri til að sækja í gnægtabrunn heimssögunnar, sem og að nýta atburði líðandi stundar til að stuðla að lifandi og raunhæfu sögunámi. Margir verða þó ráðvilltir þegar smám saman fjarar undan þeirri yfirlitssögu og sjálfstæðisuppeldi sem við þekkjum best og „brotakennd kunnátta" hefur verið gagnrýnd víða um lönd. Getur nemendum vegnað vel án nokkurs ramma eða samhengis? Dæmi úr íslenskum skólastofum verða skoðuð til að leita svara við þessum spurningum.

FaLang translation system by Faboba