Einar Hreinsson

Íslenska vorið 1851 og afleiðingar þess.

Með auknum tilslökunum stjórnvalda víða í Evrópu á 19.öld opnuðust leiðir til  tjáningar fyrir fleiri í samfélaginu. Um leið fór að örla á þróun í átt frá miðstýringu í ákvarðanatöku, aukinni þátttöku í opinberri umræðu og aukinni lýðræðisvæðingu innan stjórnsýslunnar. Innan danska einveldisins hafði átt sér stað ákveðin þróun í þessa átt á fyrri hluta 19. aldar og með afnámi einveldis var opnaði fyrir aukna þátttöku í skoðanaskiptum og ákvarðanatöku innan hins opinbera. Í ríkishlutanum Íslandi var þróunin svipuð og annars staðar í konungsdæminu. Embættimenn konungs voru í lykilhlutverki í miðlun upplýsinga og tjáningu hér á landi en með þeirri atburðarás sem náði hámarki með þjóðfundi 1851 varð ákveðið rof sem leiddi ríkishlutan Ísland að hluta til inn á aðrar brautir en þær sem ætlaðar voru af miðstjórnarvaldinu og sem gilti fyrir aðra ríkishluta.
Í erindinu verður litið á þróun tjáningarfrelsis embættismanna á 19. öld í breiðu samhengi og þá sérstaklega  örlög þeirra sem tjáðu sig opinberlega í kringum þjóðfund, afstöðu embættismannakerfisins eftir þjóðfund og þá í samaburði við umræður um sveitastjórnarmál og lýðræðisþátttöku á alþingi á áratugunum eftir miðbik aldarinnar.

Njörður Sigurðsson

Einkaskjalasöfn á Íslandi. Varðveisla, aðgengi og aðfangastefna.

 

Mikilvægur heimildaflokkur um sögu lands og þjóðar eru einkaskjalasöfn, þ.e. skjalasöfn einstaklinga, félaga og einkafyrirtækja. Einkaskjalasöfn eru einstakar heimildir um líf og störf einstaklinga, rekstur fyrirtækja og félagsstarfsemi, og þau geta einnig veitt aðra sýn á söguna en aðrar heimildir gera. Varðveisla einkaskjalasafna er þó með ýmsu móti og aðgengi að þeim afar misjafnt. Á vormánuðum 2012 gerði Þjóðskjalasafn Íslands könnun á hvernig varðveislu einkaskjalasafna á Íslandi er háttað en slík könnun hefur ekki áður verið gerð hér á landi. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar og lagt út af niðurstöðum hennar um varðveislu einkaskjalasafna á Íslandi og hugað að aðfangastefna fyrir einkaskjalasöfn á Íslandi og hvernig aðgengi að þessum mikilvæga heimildaflokki er.

Miðlun menningararfsins á nýrri öld

Greiður aðgangur að heimildum er grundvöllur sagnfræðirannasókna og er mikið hagsmunamál fyrir sagnfræðinga og aðra sem rannsaka sögu liðins tíma. Á undanförnum árum hefur aðgangur að heimildum og miðlun þeirra aukist til muna. Stærstu heimildasöfn landsins hafa mörg gert stórátak í þeim málum, s.s. með miðlun gagnaskráa og heimilda yfir vefinn, heimildaútgáfu á prenti og með ítarskráningu gagnasafna. Þetta er aðkallandi álitaefni og mikilvægt er að fram fari ýtin en vönduð umræða um miðlun menningararfsins á nýrri öld og hvernig verði best staðið að henni með tilliti til gamalla hefða annars vegar og mikilla tækninýjunga hins vegar. Notendur vilja aðgang að gögnum og eitt af hlutverkum safna er að bregðast við þeirri kröfu hvort sem þau gera það ein á báti eða í samvinnu við aðra.

 

Í þessari málstofu munu fulltrúar frá stærstu heimildasöfnunum fjalla um miðlun menningararfsins á liðinni öld. Leitað verður svara við spurningum á við hvort prentaðar heimildaútgáfur séu úrelt fyrirbæri? Er framtíðin algerlega stafræn? Eða geta prentaðar útgáfur og stafræn birting heimilda þrifist samhliða? Hvernig er varðveislu og aðgengi frumheimilda háttað? Hvernig er hægt að bæta aðgengi að heimildum? Hvaða verkefni eru framundan og hvað á að leggja áherslu á?

Viðar Hreinsson

Rísóm í torfkofum í 6000 ár.

 

Í torfbæjum fyrri alda mynduðu grasrætur net eða flækju, rísóm sem hélt húsunum saman rétt eins og grassverðinum. Sumt af því fólki sem bjó í torfbæjunum skrifaði bækur: afritaði  sögur og kvæði, þýddi erlend rit eða frumsamdi ný.

Davíð Ólafsson bendir á í doktorsritgerð sinni að fræg rísómlíking Deleuze and Guatarri eigi vel við framleiðslu og dreifingu íslenskra handrita á síðari öldum, að hvert handtak í gerð og dreifingu texta í handritum tengist öðrum í óendanlegum vef. Sum þessi tengsl má rekja, önnur eru órekjanleg.  

Handritastarfsemin hélt menningunni saman eins og rótakerfi rísómsins, hvort sem um var að ræða handrit sem efnisleg fyrirbæri eða inntak þeirra, samsettan vef sagna, kvæða og merkingar. Merkasti fulltrúi þessarar handritamenningar var Gísli Konráðsson, sjálfmenntaður bóndi, skáld og sagnaritari. Afköst hans voru tröllaukin, tugir þúsunda síðna með hendi hans, afrit, þýðingar og frumsamin verk. Hið fyrsta sem prentað var eftir hann var Stjórnaróður, 603 erindi sem segja 6000 ára mannkynssögu. Með fulltingi rísómsins verður gerð  frumkönnun á æviverki hans - 6000 ára lífrænum tengslum afkasta, þekkingar og inntaks.

Guðrún Ingólfsdóttir

Með veröldina í vasakveri. Bækur í lífi kvenna og karla á 18. öld.

 

Hvaða hlutverki gegndi bókin í lífi karla og kvenna á 18. öld þegar hinn óreiðukenndi nútími gekk í garð og veröldin fylltist af bókum og bækur gleyptu veröld alþýðu manna? Skapaði maðurinn bókina eða skóp bókin einnig manninn? Reyndist ritmál á allra færi kúgunartæki eða jók það víðsýni? Hver urðu einkum áhrifin á líf kvenna?

FaLang translation system by Faboba