Bragi Þorgrímur Ólafsson

Safnað, skráð og miðlað. Handritaskrár í menningarsögulegu ljósi.

 

Í lok desember 1918 var hafist handa við að gefa út skrá yfir hið mikla handritasafn Landsbókasafns Íslands. Skráin kom út í heftum allt fram til ársins 1937 en síðar voru gefin út fjögur viðbótarbindi. Þessi skrá hefur verið fræðimönnum ómissandi hjálpartæki við rannsóknir á menningarsögu síðari alda, enda nær hún yfir rúmlega 13.000 handrit og veitir því aðgengi að handritaarfi átjándu og nítjándu aldar. Skráin er þó mörkuð af ákveðnu menningarlegu sjónarhorni eins og önnur mannanna verk. Í erindinu verða tilgreind nokkur dæmi sem bera því vitni og þau skoðuð í menningarsögulegu samhengi.

Skrifað, safnað, lesið, hlustað. Félags- og menningarsaga handritaðs efnis á átjándu og nítjándu öld

Framleiðsla, dreifing og neysla á handrituðu efni á átjándu og nítjándu öld hefur notið vaxandi athygli fræðimanna á sviði sagnfræði, bókmenntasögu, handritafræða og skyldra greina, jafnt innan lands sem utan. Rannsóknir á þessu sviði snúa jafnt að skrifurum og handritum þeirra, efnislegu innihaldi sem ytri gerð, og glíma við ólíkar textagerðir frá einkabréfum og dagbókum til fornsagnauppskrifta og útgefinna þýðinga á fræðiritum. Í þessari málstofu verður sjónum beint að félags- og menningarlegt samhengi handritaðrar miðlunar með áherslu á virka gerendur; hverjir nýttu sér vaxandi ritfærni á tímabilinu og hvernig, hvað var skrifað, fyrir hvern og við hvaða aðstæður.

Menningarsaga stjórnmálanna

Það má færa rök fyrir því að fræðileg umræða um íslensk stjórnmál á 20. öld hafi aðallega fengist við spurningar sem fyrst höfðu komið upp í pólitískri umræðu hverju sinni. Áherslan hefur verið á framboðshreyfingar, þ.á m. framboðshreyfingar kvenna, tilurð þeirra og starf, ríkisstjórnir og tiltekna einstaklinga sem leiddu flokka eða ríkisstjórnir, oftast karla. En hvað er fengið með því að skoða þess í stað hugmyndaþróun þvert á flokka og félagasamtök? Skrifa jafnvel stjórnmálasögu sem sneiðir algerlega hjá stjórnmálahreyfingum? Og hvað er fengið með því að leita í smiðju til annarra kima, kynjasögu til dæmis, eða menningarsagnfræði og skrifa þá það sem kallað hefur verið menningarsaga stjórnmálanna (e. cultural history of politics). Hvers konar viðfangsefni og spurningar skjóta þá upp kollinum?

Ólafur Rastrick

Stjórnmál lasta og dyggða.


Samkvæmt hefðbundum skilningi á stjórnmálum snúast þau um ákvarðanir sem ætlað er að hafa áhrif á samfélagið og einstaklingana sem það skapa. Mikilvægur þáttur í stjórnmálum lýtur þannig að því að hafa áhrif á hvernig einstaklingar hegða sér og hugsa. Til þess er ýmist beitt boðum og bönnum eða reynt með óbeinum hætti að skapa umhverfi og koma á framfæri þekkingu sem hvetur einstaklinginn til að temja sér tiltekna hegðun eða afstöðu. Í erindinu verður fjallað um samband áfengisbanns og opinberrar stefnumörkunar í menningarmálum á þriðja áratug tuttugustu aldar og velt upp hvernig hagnýta megi menningarsögulega nálgun til að varpa ljósi á ágreining, markmið og útfærslu pólitískra afskipta af þessum málaflokkum.

Ragnheiður Kristjánsdóttir

Hugmyndir um lýðræði við stofnun lýðveldis.

Árið 1944 virtust Íslendingar sammála um að þeir væru að endurreisa íslenskt lýðveldi, það stjórnarfyrirkomulag þjóðveldistímans sem hafði allt frá tímum Arngríms lærða verið nefnt res publica og iðulega þýtt sem lýðveldi. Að sama skapi ríkti sátt um að þar með hefðu þeir náð lokatakmarki sjálfstæðisbaráttunnar. En hvers konar lýðræðishugmyndir lágu til grundvallar hinu nýja lýðveldi? Í erindinu verður fjallað um þær hugmyndir um útfærslu fulltrúalýðræðis sem greina má í opinberri umræðu í aðdraganda lýðveldisstofnunar. Jafnframt verða færð rök fyrir því að íslenskir stjórnmálamenn hafi verið mun uppteknari af sjálfstæði en lýðræði. Þá verður stungið upp á því að hugmyndir um lýðræðislega stjórnarhætti hafi einna helst komið fram sem óljós hugsjón sem fyrst og fremst þjónaði þeim tilgangi að klekkja á pólitískum andstæðingum.

 

Týnda vinstrið. Um hefðbundna stjórnmálasögu og önnur sjónarhorn.

 

Sé horft á íslenska vinstri hreyfingu frá hefðbundnu sjónarhorni blasa við tvær álíka stórar stjórnmálahreyfingar. Annars vegar sósíaldemókratísk hreyfing, fremur lítil í alþjóðlegum samanburði og undir forystu karla sem sóttu innblástur og stuðning til Skandinavíu. Hins vegar sést óvenju stór kommúnistahreyfing undir forystu karla sem sóttu styrk og innblástur til Sovétríkjanna. Ekki þarf að rýna lengi til að sjá að það var stirt á milli leiðtoga fylkinganna; þeir unnu helst ekki saman, hvorki á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar né landsmálanna. Mitt á milli sjást svo áhrifamiklir sósíaldemókratískir verkalýðsleiðtogar (líka karlar) sem héldu (ranglega) að hægt væri að stofna stóran sameinaðan vinstri flokk. Og spurningarnar sem óhjákvæmilega vakna varða stærð flokkanna, karlana sem leiddu þá eða þá tengsl við systurflokka í Skandinavíu og Moskvu. Í erindinu verður bent á viðfangsefni sem ekki sjást frá ofangreindum sjónarhóli, þar á meðal áhrifamikla orðræðuþræði sem greina má þvert á flokkana tvo og þverpólitískt og jafnvel þverþjóðlegt samstarf róttækra kvenna. Í því sambandi verður litið þess hvaða gagn má hafa af rannsóknarnálgun sem nefnd hefur verið menningarsaga stjórnmálanna (e. cultural history of politics).

FaLang translation system by Faboba