Nýjar rannsóknir í heilbrigðissögu kvenna

Í málstofunni "Nýjar rannsóknir í heilbrigðissögu kvenna" verður fjallað um efni sem lítið hefur verið rannsakað hér á landi. Önnur rannsóknin er um mæðradauða á Íslandi á tímabilinu frá 1760 til 1859. Skoðuð eru landssvæði á Íslandi sem töldust til Sunnlendingafjórðungs og Vestfirðingafjórðungs. Upplýsingar um þær konur sem létust á meðgöngu, í fæðingu eða mánuði eftir hana er að finna í prestsþjónustubókum og ársskýrslum lækna. Til rannsóknar voru konur á aldrinum 15 til 49 ára en það er sá aldurshópur sem mannfjöldafræðingar miðað við þegar talað er um konur á barneignaaldri.
Hin rannsóknin fjallar um fjölda geðveikra eftir kyni eftir því sem manntölin á Íslandi fyrir árin 1845-1910 sýna. Margar konur í ársskýrslum héraðslækna töldust vera með hysteriu á 19. öld en það er sá sjúkdómur sem sérstaklega þótti hrjá konur. Hefur hluti kvenna með hysteriu verið talinn geðveikur í manntölum. Eftir að hugmyndir um neurasthenia komu fram um aldamótin 1900 jafnaðist munurinn á milli kynjanna í íslenskum manntölum. Sjúkdómurinn var talinn hrjá bæði kynin og á þessum tíma voru karlmenn líka greindir með hysteriu.

Úlfar Bragason

„Syng, frjálsa land, þinn frelsissöng".

Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (1881-1946), Hulda, fékk verðlaun fyrir kvæðið „Söngvar helgaðir þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944". Það var frumflutt á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944. Kvæðið er þjóðernislegt og þar er lögð áhersla á frelsi og frelsisbaráttu þjóðarinnar: „Svo aldrei framar Íslands byggð/ sé öðrum þjóðum háð." Hinn 18. júní hélt Íslendingafélagið Vísir í Chicago samkomu þar sem Paul Halldorson iðnrekandi (1883-1964) hélt ræðuna „Iceland's Unique Destiny" til að minnast lýðveldisstofnunarinnar. Í ræðu sinni rakti Paul sögu Íslendinga og velti fyrir sér framtíð lýðveldisins frá bandarískum sjónarhóli. Jón Halldórsson, faðir Pauls, var einn af þeim Íslendingum sem fyrst fluttu til Bandaríkjanna. Hann fór 1872 og settist að í Nebraska 1874. Hann var vinur Benedikts Jónssonar á Auðnum, föður Unnar, og skrifuðust þeir á um langt skeið. Í erindinu verða borin saman viðhorfin sem koma fram í hátíðarkvæði Huldu og ræðu Pauls - skoðanir heima og heiman.

Ólafur Arnar Sveinsson

Sjálfsmyndir og sendibréf íslenskra vesturfara.

Í eldri sagnaritun um fyrstu ár íslenskra vesturfara í Norður-Ameríku hefur umfjöllunin einkum verið um ástæður vesturferðanna, svokallað sjálfstæði Nýja-Íslands og trúardeilur á meðal vesturfaranna. Í erindinu verður leitast við að horfa til annarra þátta í sögu vesturfaranna á tímabilinu. Í því sambandi verða athugaðar sjálfsmyndir þeirra en líkt og aðrir innflytjendur í Norður-Ameríku urðu íslenskir vesturfarar að skapa sér sjálfsmynd í Nýja heiminum og skilgreina sig á nýjan hátt. Fjallað verður um sendibréfið sem heimildir til að endurskoða sögu vesturfaranna, farið yfir sendibréf nokkurra íslenskra vesturfara frá 8. áratug 19. aldar og efni þeirra sett í samhengi við eldri sagnarit um sögu þeirra.

Móeiður Júníusdóttir

Brúin milli tveggja heima: Um hlutverk trúar og kirkju meðal Vestur-Íslendinga.

 

Íslensku landnemarnir vestan hafs leituðust býsna fljótt við að koma á skipulagðri kirkju og safnaðarstarfsemi íslenskrar kristni í nýja heiminum. Rík viðleitni var til að viðhalda íslenskri menningu um leið og verkefni þeirra - pólitískt sem félagslegt - var að laga sig að aðstæðum í nýja landinu. Í fjölmenningar- og fjölhyggjusamfélagi Vesturheims þurftu landnemarnir að glíma við hina tilvistarlegu spurningu: „Hver er ég" á glænýjan hátt og trúar- og kirkjulíf þeirra, sem varð bæði blómlegt og gróskumikið, varð mikilvægur farvegur sjálfsskilgreiningar einstaklingsins og hópsins. Í erindinu er spurt: hvers vegna skipti trúin og kirkjan Vestur-Íslendinga svo miklu máli? Leitað er svara í amerísku samhengi og stungið upp á skýringarmódeli sem byggt er á klassískum kenningum bandarísku fræðimannanna Oscar Handlin og Will Herberg. Borið er kennsl á kirkju Vestur-Íslendinga sem „þjóðlega innflytjendakirkju" (e. ethnic immigrant church) en samkvæmt fyrrgreindu módeli þjóna slíkar kirkjur kjarnlægu  hlutverki í aðlögunarferli innflytjenda að amerísku samfélagi.

Jón Hjaltason

Af hverju eru Íslendingar ekki Brasilíumenn?

Ljóst er að í kringum 1870 fýsti Íslendinga mjög til Brasilíu. Hundruðir manna skrifuðu sig fyrir búferlaflutningum þangað, flestir að norðan en einnig stór hópur úr Vestmannaeyjum. Á endanum fóru þó aðeins fáeinir tugir. Af hverju? Einfalda svarið er: Ekki fékkst skip til að flytja fólkið. En er það endilega rétt? Voru það kannski aðrir áhrifavaldar er eyðilögðu drauminn um Brasilíu. Kannski rógur um þá er stóðu að Brasilíuferðum og um fyrirheitna landið sjálft? Má vera að trúarbrögð hafi spilað inn í,  skipti máli að Norður-Ameríka komst skyndilega á kort útflytjenda, laust þessum tveimur fylkingum ef til vill saman, það er Brasilíudreymendum annars vegar og Norður-Ameríkusinnum hins vegar, eða var ef til vill ódugnaði foringjanna um að kenna? Hvað um viðbrögð stjórnvalda í Brasilíu og hér heima? Hvernig brugðust fjölmiðlar við? Spilaði ættjarðarást einhverja rullu í þessum áformum um búferlaflutninga til Brasilíu?

FaLang translation system by Faboba