Guðrún Björk Guðsteinsdóttir

Útflutningur Íslendinga til Vesturheims á 19. öld: landvinningar víkinga eða landflótti fórnarlamba íslenskrar náttúru eða ... ?

 

Það fer ýmsum sögum af aðdraganda og ástæðum þjóðflutninga Íslendinga til Vesturheims, allt eftir því hver segir frá og í hvaða samhengi. Í þessu erindi mun ég athuga alveg sérstaklega þá sjálfsmyndarsköpun sem kemur fram þegar útflutningssagan er rakin fyrir enska lesendur því greinilegur munur getur verið á því hvort aðstæður eru túlkaðar frá sjónarhóli Vesturfara eða Íslendinga. Ætlunin með þessum samanburði er ekki að kollvarpa fyrri hugmyndum heldur fremur að draga fram mismunandi drætti í sjálfsmyndinni og fá fyllri mynd. Efnið verður skoðað í ljósi grunnhugmynda um sjálfsvald sem sprottið hafa upp úr greiningu eftirlendufræða á menningarpólitík.

Ævisagan sem aðferð

Ævisaga er flókið fagsvið rannsókna, túlkunar og framsetningar, aðferð sem beitt er til þess að segja sögu fólks og fortíðar. Á erlendum vettvangi hafa fræðimenn í vaxandi mæli leitast við að skilgreina hina ævisögulegu rannsókn og þannig ljá henni yfirbragð (og lögmætingu) akademískrar sagnfræði jafnframt því að skilgreina þær mismunandi leiðir sem ævisagnaritarar hafa valið sér við rannsóknir sínar.

Í málstofunni verður fléttað saman kenningarlegri og aðferðafræðilegri umræðu af sviði ævisögulegra rannsókna og reynsluheimi fræðimanna sem fengist hafa við ævisögurannsóknir. Spurt er hvernig hægt sé að rannsaka og skrifa líf sem var lifað, hvernig það verði sett í samhengi við sína eigin samtíð, hvernig tekist er á við mótsagnakenndar sjálfsmyndir og brotakenndar heimildir. Rætt verður um þá kröfu sem gerð er til þess að ævisögur vísi út fyrir einstaklinginn, þ.e. að þær hafi samfélagslega skírskotun, að söguhetjan verði eins konar spegill á samtíma sinn. Og í því samhengi hverjir séu þessi verðugir að um þá sé skrifað - hvað þarf einstaklingur að hafa gert/skilið eftir sig til þess að verða verðugt viðfangsefni.

Jafnframt verður tekist á við tengsl ævisagnaritarans og söguhetjunnar og hættuna á því að tengjast viðfangsefninu of nánum böndum. Að gleyma því að „fortíðin sé framandi land þar sem hlutirnir voru gerðir á annan hátt."[1]

Grundvallarspurningin snýst þó um ævisöguna sem rannsóknaraðferð og sem aðferð til þess að miðla sögu.

[1] Hér er vísað til þekktra og margnotaðra upphafsorða L. P. Hartley í skálsögunni The Go-Between (1953) þar sem segir: „The past is a foreign country - they do things differently there."

Kristján Mímisson

Hinn hlutgerði maður - um samband ævisögunnar og hlut-verunnar.

Fyrir rúmum 30 árum héldu sál- og félagsfræðingarnir Csikszentmihalyi og Rochberg-Halton (1981) því fram að maðurinn væri ekki aðeins sapiens, viti borinn, eða leikrænn, ludens, heldur ekki síður faber, þ.e. skapari hluta. Þetta var svo sem ekkert byltingarkennd fullyrðing. Það sem skilgreindi okkar mennsku eiginleika um fram allt annað og aðgreindi okkur frá dýrum var jú handlagni mannsins, habilis. Frakkarnir Serres og Latour (1995) undirstrikuðu þetta nokkru síðar síðar þegar þeir sögðu "humanity begins with things: animals don't have things." Það var hins vegar áherslan á gagnvirkni manna og hluta og áhrif hluta á mennska persónusköpun og ævisögulegt ferli sem gerði hugmyndir Csikszentmihalyi og Rochberg-Halton á sínum tíma sérstaklega áhugaverðar.

Í erindi mínu mun ég vinna út frá þessari hugmynd um persónuna sem síbreytilegan bræðing mennskra og ómennskra þátta og þannig skoða mannlegt atferli og mennskt eðli í ljósi efnislegs atbeinis. Ævisögurannsóknir sem ganga út frá þess konar hugmyndafræði einblína ekki á sjálfið sem eitthverjar óræðar innri kenndir, sem birtast okkur fyrst og fremst í orðum og hugsunum. Þær líta þvert á móti á sjálfið sem ávallt hlutbundið og þver-stundlegt (e. multi-temporal) fyrirbæri. Slíkar eru ævisögur hlut-vera.

Rósa Magnúsdóttir

Þóra, Kristinn og íslenskir kommúnistar: Ævisagan og hið samfélagslega samhengi.

 

Erindið byggir á rannsókn minni á ævi hjónanna Þóru Vigfúsdóttur og Kristins E. Andréssonar.  Saga Þóru og Kristins er sérstaklega áhugaverð því hún dregur fram tvo máttarstólpa í íslensku menningar- og menntalífi á fyrri hluta tuttugustu aldar.  Hjónin Þóra og Kristinn deildu ekki bara borði og sæng, heldur líka skoðunum og vinahópi.  Saga þeirra endurspeglar íslenska menningarsögu á tuttugustu öld og nú - þökk sé ötulum dagbókarskrifum Þóru - fæst áhugaverð mynd af hlutverki og upplifunum kvenna í þessari áhugaverðu sögu.  

Í erindinu mun ég velta því fyrir mér hversu miklu máli hið samfélagslega samhengi skipti í ævisöguskrifum.  Ég mun einnig skoða hvað mismunandi nálgun á viðfangsefnið færir okkur, sérstaklega með tilliti til þess hvað persónulegar heimildir Þóru eru ólíkar flestum heimildum sem Kristinn skildi eftir sig.  Eru dagbækur Þóru góð heimild um aðra en hana sjálfa?  Hversu miklu máli skiptir Kristinn og líf hans?  Og hversu miklu máli skipta jafningjarnir, keppinautarnir og samfélagið allt?

 

 

Geirska ævintýrið: Íslensk menning, opinberar heimsóknir og tengslin við Sovétríkin. 

 

Árið 1977 fór Geir Hallgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, í opinbera heimsókn til Sovétríkjanna.  Heimsókn Geirs verður notuð til að kasta nýju ljósi á íslenska stjórnmálasögu og sambandið við Sovétríkin.  Í erindinu verður rýnt í ritúal og seremóníu í kringum opinberar heimsóknir sem og gildi þeirra í utanríkisstefnu Íslands í kalda stríðinu.  Færð verða rök fyrir því að opinberar heimsóknir kalda stríðsins, sem við fyrstu sýn snérust að mestu leyti um hefðir og siðareglur hafi haft töluverð áhrif á útbreiðslu menningar, viðhorfa og ímyndar lands.  Að auki voru opinberar heimsóknir oft notaðar til að ræða mikilvæga viðskiptasamninga og miklir efnahagslegir hagsmunir oft í húfi.  Opinberar heimsóknir gefa þannig tækifæri til að skoða „mjúka" birtingarmynd íslenskrar utanríkisstefnu og samband menningar, stjórnmála og efnahagsmála almennt.

Erla Hulda Halldórsdóttir

Táknmynd eða einstaklingur? Kynjað sjónarhorn sögunnar og ævi Sigríðar Pálsdóttur.

Í fyrirlestrinum verða færð fyrir því rök að höfundar fræðilegra ævisagna séu enn bundnir af gömlum karllægum viðmiðum sagnfræðinnar og ævisagnaritunar um verðugt viðfangsefni. Þetta lýsir sér m.a. í því að þrátt fyrir að því sé haldið á lofti innan femínískrar ævisagnaritunar að skrifa eigi um ævi ‘venjulegra' kvenna verða þær sjaldan viðfangsefni ævisöguritara sem sjálfstæðir einstaklingar heldur sem hluti af stærri heild. Líf konu virðist því varla hægt að skoða nema líf hennar skírskoti til stærra samhengis eða að hún verði táknmynd tiltekins hóps kvenna - eða allra kvenna ef því er að skipta - enda hafa sameiginlegar (kollektífar) ævisögur kvenna verið sérlega vinsælar meðal femínískra fræðimanna. Í þessu samhengi verður rætt um vandann við það að skrifa líf Sigríðar Pálsdóttur (1809-1871) sem skildi eftir sig um 250 bréf til bróður síns en fékkst annars ekki við neitt af því sem hingað til hefur gert konu verðuga þess að um hana sé skrifuð ævisaga.

 

„gleymdu ekki þinni einlægt elskandi systir": Skriftarkunnátta sem félagslegt og menningarlegt auðmagn.

 

Því hefur verið haldið fram að missir og aðskilnaður leiki lykilhlutverk í persónulegum bréfaskiptum fortíðar, að fjarvera ástvina eða ættingja sé meginorsök þess að bréfaskipti hefjist. Á þann hátt verði sendibréf holdgervingur þess sem er fjarverandi. Þetta má glöggt sjá í bréfum Sigríðar Pálsdóttur (1809-1871) og fjölskyldu hennar á fyrstu áratugum 19. aldar. En orsök þess að tekin eru upp bréfaskipti, og þeim viðhaldið, á sér flóknari rætur. Í  fyrirlestrinum verða færð fyrir því rök að gagnlegt sé að skoða skriftarkunnáttu sem félagslegt og menningarlegt auðmagn. Skriftina mátti nota til þess að hefja, viðhalda eða treysta tengsl við fjölskyldu og vini og þannig verja eða jafnvel stuðla að betri samfélagslegri stöðu, hvort sem það var eigin staða eða afkomenda. Fyrir konur, sem höfðu ekki aðgang að formlegri menntun eða embættum, var sá auður sem fólst í skriftarkunnáttu sérlega mikilvægur.

FaLang translation system by Faboba