Í Öndvegiskaffi RA næstkomandi fimmtudag mun dr. Haukur Arnþórsson kynna niðurstöður rannsóknar á kjörum aldraða á árunum 2007-2016 og hvaða breytingar voru gerðar 2017. Fram kemur hvar staðan er góð og hvar hún er erfið. Kynnt eru meðaltöl, bæði fyrir aldraða í heild og fyrir ákveðna tekjuhópa og eignahópa og meðal annars fjallað um ólíkan tekjuuppruna. Áhersla er lögð á að skoða eftirlaun (e. pension), sem eru greiðslur almannatrygginga og lífeyrissjóða. Þá verður farið yfir hvað raunhæft er að gera ef stjórnmálalegur vilji er fyrir aðgerðum í þágu aldraðra.
Rannsóknin var unnin að beiðni Félags eldri borgara í Reykjavík.
Samkvæmt venju verður fundurinn haldinn í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar í Þórunnartúni 2, 4. hæð (þar sem Bókasafn Dagsbrúnar er til húsa).
Allir velkomnir. Léttar veitingar á boðstólum.
ReykjavíkurAkademían og Reykjavíkurborg blása til ráðstefnu föstudaginn 17. nóvember næstkomandi um óleyfisbúsetu í atvinnuhúsnæði.
Skortur á leiguhúsnæði og hátt leiguverð veldur því að óhefðbundið búsetuform er vaxandi vandamál hérlendis. Talið er að hópur efnalítilla Íslendinga og erlent verkafólk búi við slíkar aðstæður.
Ráðstefnan er mikilvægur áfangi í umfangsmikilli úttekt RA á þessu vaxandi samfélagslega vandamáli. Helstu samstarfsaðilar RA og Reykjavíkurborgar í verkefninu eru Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Hagstofa Íslands, Þjóðskrá Íslands, Vinnumálastofnun, ASÍ, Starfsgreinasamband Íslands, Retor fræðsla ehf., ásamt mörgum fleiri.
Aðalfyrirlesari á ráðstefnunni er Gillian Young frá Newhaven Research í Skotlandi. Gillian er öflugur fræðimaður á sviði húsnæðismála og búsetu í óleyfilegu húsnæði, þá sérstaklega þegar kemur að búsetuskilyrðum erlends verkafólks.
Ráðstefnan verður haldin í sal Norræna hússins. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.
Sjá dagskrá