(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Útgáfa: Álfar Hjörleifs Hjartarsonar og Ránar Flygering

Útgáfa: Álfar Hjörleifs Hjartarsonar og Ránar Flygering

by | 1. des, 2023 | Fréttir

Nýlega kom bókin Álfar út hjá bókaútgáfunni Angústúru þar sem höfundarnir tveir, demóninn Hjörleifur Hjartarson  og Rán Flygenring varpa á fræðandi og skemmtilegu nýju ljósi á íslenska álfinn og átakasambúð huldufólks og mannfólks frá upphafi byggðar í landinu.

Íslenskir álfar eru einstakir meðal álfaþjóða og eiga í djúpu og dularfullu sambandi við Íslendinga í raunheimum. Í ritinu er skyggnst á bak við tjöldin í huliðsheimum og við sögu koma undirheimaviðskipti, blóðug jólaboð, róttækar aðgerðir í umhverfismálum, rómantískar og forboðnar ástir í handanheimum, álfablek sem aðeins er á færi fárra að sjá og æsilegar hetjudáðir sauðamanna og mjaltakvenna.

Í kynningu á baksíðu segir m.a.:
Hefur nágranni þinn efnast skyndilega með óútskýrðum hætti? Lætur barnið þitt allt í einu eins og bestía? Er heimilið í rúst eftir jólin? Eru tækin alltaf að bila? Eru fæðingarblettir í formi galdrarúna í ættinni? Áttu ósýnilegan vin? 

Hjörleifur og Rán hafa unnið saman um árabil og krufið ýmis fyrirbæri íslenskrar náttúru og menningar til mergjar. Álfar er þriðja bók þeirra en áður hafa þau farið með himinskautum í Fuglum og sprett hressilega úr spori með Hestum.

ReykjavíkurAkademían óskar höfundunum tveimur sem og öðrum aðstandendum Álfa innilega til hamingju með Álfa.