dr. Sigurður
Gylfi
Magnússon

Menningaratburðir


Dagur dagbókarinnar

Á bak við tjöldin:
Störf framkvæmdanefndar og starfsmanns

Sigurður Gylfi Magnússon tók samanForsagan

Það var í samræðum okkar Hallgerðar Gísladóttur forstöðumanns þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns Íslands á háskólalóðinni á vormánuðum 1998 sem sú hugmynd kviknaði að efna til Dags dagbókarinnar. Hallgerður hafði þá í fórum sínum bók sem gefin var út í Danmörku í kjölfar þess að danska þjóðin hafði verið beðin um að halda dagbók í einn tiltekinn dag. Áður höfðum við Kári Bjarnason starfsmaður í handritadeild Landsbókasafns Íslands rætt okkar á milli um að nauðsynlegt væri að gera tilraun til að ná inn gömlum handritum með skipulögðum hætti, handritum sem við vissum að fjölmargir Íslendingar lægju með á heimilum sínum, oft án þess að skilja mikilvægi þeirra. Í því sambandi lagði Kári fram tillögur fyrir Landsbókavörð um að standa að slíku átaki í tilefni af 150 ára afmæli handritadeildarinnar, sem var árið 1996. Það var þó ekki fyrr en Hallgerður Gísladóttir kom með bókina um dagbókarátak í Danmörku að við ákváðum að sameina hugmyndirnar tvær, það er að fá þjóðina til að halda dagbók einn tiltekinn dag og safna um leið gömlum dagbókum og öðrum persónulegum heimildum frá liðnum öldum. Átakið í Danmörku tókst með miklum ágætum og sendi um 1% þjóðarinnar inn dagbók dagsins. Þessi góða svörun varð okkur mikil hvatning og settum við okkur það markmið að gera betur en Danir og fá 2% Íslendinga til að skrifa. Það var ákveðið fljótlega eftir þennan fund okkar Hallgerðar að bíða ekki boðanna og ráðast í framkvæmdina strax þá um haustið. Við komum okkur saman um að nefndin yrði ásamt okkur þremur skipuð þeim Sigurborgu Hilmardóttur safnkennara á Þjóðminjasafni og Gunnari Hersveini blaðamanni á Morgunblaðinu.

Hallgerður kynnti þessa tilhögun fyrir yfirstjórn Þjóðminjasafnsins og féllst hún umsvifalaust á allar tillögur okkar. Því næst gengum við Kári á fund Landsbókavarðar og féllst hann á að safnið skyldi ljá átakinu nafn sitt án þess að nokkur skuldbinding fælist í því. Þetta var samþykkt af okkar hálfu enda höfðum við í huga að átakið yrði rekið af hagsýni og án þess að söfnin þyrftu að leggja í kostnað. Við sem stóðum fyrir utan söfnin unnum því okkar starf í sjálfboðavinnu. Er fundinum með Einari Sigurðssyni lauk gengum við Kári á fund Ögumundar Helgasonar forstöðumanns handritadeildar og kynntum fyrir honum hugmyndir nefndarinnar og lýsti hann yfir áhuga á söfnuninni. Þegar búið var að ganga frá þessum formsatriðum hófumst við handa við skipulagningu og mótun hugmyndavinnunnar.


Fyrstu sporin - Hugmyndavinnan

Nefndin hittist fyrst á fundi í Þjóðarbókhlöðu hinn 1. júlí. Fram til fyrsta september voru haldnir níu formlegir fundir auk ótal óformlegra funda, símhringinga og bréfaskrifta til þeirra sem við töldum að málið varðaði. Á þessu tímabili var gerð tilraun til að móta hugmyndir og ræða nánar úrfærsluatriði. Eftir fyrsta formlega fund nefndarinnar tók ég saman nokkra punkta sem ég taldi mikilvæga. Fyrirsögnin í þessu vinnuskjali nefndarinnar er Hugmyndafræði og fara hér á eftir glefsur úr því (málfar og stíll eru óendurskoðuð):

  Á síðustu árum hefur áhugi fræðimanna vaxið mjög á notkun persónulegra heimilda, en þar er einkum átt við dagbækur, bréf, sjálfsævisögur og fræðilega spurningalista. Þessi áhugi hefur tengst breyttum áherslum innan fræðigreina á borð við sagnfræði, þjóðfræði, mannfræði, bókmennta og íslenskra fræða, þar sem leitast hefur verið við að nálgast viðfangsefnin út frá persónulegri reynslu einstaklinga á hverjum tíma. Þessi nálgun hefur blásið nýju lífi í fræðin og beint sjónum fræðimanna að fræðilegum spurningum sem áður höfðu litla athygli hlotið. Í brennidepli hefur verið sýn einstaklinga á atburði og stofnanir sem áður fengu nær eingöngu umfjöllun út frá formlegum gögnum stofnanna sjálfra.

  Breyttar áherslur hafa kallað á nýjar heimildir og aðferðir til að rannsaka viðfangsefnin. Heimildirnar sem áður voru nefndar bjóða upp á að tekist verði á um álitamál sem áður hafa legið í þagnargildi. Vandinn er þó sá að aðeins lítið brot af þessum heimildum hefur varðveist frá liðnum öldum og enn minna hlutfall þeirra skilað sér inn á söfnin. Af þessum ástæðum hefur verði ákveðið að hrinda af stað átaki sem hefur tvennskonar markmið. Í fyrsta lagi að fá alla íslensku þjóðina til að halda dagbók í einn dag og senda afraksturinn til þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns Íslands. Hugmyndin með þessum þætti átaksins er að fá tækifæri til að kanna hvað núlifandi Íslendingar eru að hugsa og hvað þeir hafa helst fyrir stafni í daglegu lífi sínu. Dagbókarskrif gefa upplýsingar um hversdagslega hluti á beinni og persónulegri hátt en flestar aðrar heimildir sem hægt er að nálgast í samtímanum. Það er vegna þess að dagbókin lýtur algjörlega vilja og hugsun þess sem heldur hana; höfundurinn skrifar það sem honum er efst í huga með sínum hætti. Söfnun af þessu tagi ætti því að gefa öllum þeim sem áhuga hafa á að rannsaka hugsun núlifandi Íslendinga kjörið tækifæri til að nálgast viðfangsefnið á óvenjulegan hátt. Þau dagbókarskrif dagsins 15. október sem munu skila sér í átakinu verða fræðimönnum opin til skoðunar í þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands og sýnishorn af þeim verður birt í sérstakri bók sem kemur út svo fljótt sem kostur er.

  Með átakinu viljum við einnig vekja athygli samtíma Íslendinga á kostum dagbókarinnar; á þeim möguleikum sem felast í persónulegri tjáningu fyrir sálarheill fólks. Það að geta sest niður eftir eril dagsins og tjáð hugsanir sínar og hugmyndir hefur reynst mörgum manninum bæði góð skemmtun og nauðsynleg hugarfró. Þar gefst tækifæri á eintali sálarinnar, sem erfitt væri að koma á framfæri á skipulagðan hátt með öðrum hætti. Ákveðnir þýðingarmiklir atburðir eru gerðir upp og færi gefst á að líta yfir farinn veg með hjálp fyrri dagbókarskrifa og meta stöðuna og framtíðina. Allt þetta þekkja dagbókarhöfundar vel og ástæða er til að hvetja nútíma Íslendinga sem lifa oft hröðu og viðburðaríku lífi að gefa sér tóm með hjálp dagbókarinnar til að hugleiða vegferð sína. Við erum að vona að á degi dagbókarinnar muni margir hefja dagbókarskrif sín fyrir fullt og allt, dagbókarskrif sem munu síðar skila sér inn á handritasöfnin, fræðimönnum og öðrum áhugamönnum um íslenska menningu til ómetanlegs gagns.

  Síðari þáttur átakins snertir einmitt það sem var nefnt hér að framan og tengist frómri ósk aðstandanda þessa átaks að síðar meir muni dagbækur Íslendinga skila sér inn á söfnin, en hugmyndin er að kalla eftir dagbókum sem til eru í landinu frá fyrri tíð. Við þekkjum möguleika þessara heimilda til að skrifa söguna í öðru ljósi en vanalega er gert. Af þessum ástæðum hefur verið ákveðið að hrinda af stað átaki til að safna þessum heimildum sem víða eru enn geymd í heimahúsum hjá einkaaðilum. Ákveðið hefur verið að leggja sérstaka áherslu á persónuleg gögn sem snerta líf kvenna á nítjándu og tuttugustu öld og einnig dagbækur og bréf barna frá sama tímabili. Báðir þessir hópar hafa fengið afar einslita umfjöllun fræðimanna á undanförnum árum vegna þess að persónuleg gögn um þá hafa ekki legið á lausu. Sem dæmi má nefna að aðeins eru varðveittar dagbækur þriggja kvenna í handritadeild Landsbókasafns. Það væri óneitanlega mikil fengur fyrir fræðimenn framtíðarinnar að rétta þetta hlutfall við og að því verður stefnt með þessu átaki. Vegna þessarar áherslu á persónulegar heimildir kvenna er þetta átak unnið í samvinnu við Rannsókarstofu í kvennafræðum og Kvennasögusafn Íslands (Við eigum eftir að fá samþykki frá þessum stofnunum).

  Hinn hópurinn sem áhersla herferðarinnar beinist einkum að eru börn á tuttugustu öld. Eins og margir þekkja komst það í tísku hjá börnum og ungu fólki snemma á tuttugustu öld að halda dagbækur. Margir eiga þessar dagbækur sínar enn og eru tvístígandi um hvað þeir eiga að gera við þær. Við viljum með þessu átaki hvetja fólk til þess að koma þessum heimildum í örugga vörslu safnsins. Athygli skal vakin á að hægt er að afhenda heimildir á borð við dagbækur og bréf með ákveðnum skilyrðum, meðal annars að innsigla þau í vissan árafjölda. Ekkert fer milli mála að heimildir sem tengjast börnum persónulega geta veitt okkur mikilvægar upplýsingar um það samfélag sem við byggjum. Þessar heimildir hafa ekki legið á lausu og því er brýnt að gera tilraun til að ná þeim inn með þessu átaki. Lögð skal þung áhersla á að þrátt fyrir að sjónum sé sérstaklega beint að persónulegum heimildum sem tengjast konum og börnum sækjumst við eftir hvers kyns handskrifuðum gögnum frá öllum þjóðfélagshópum og frá ólíkum tímum.

  Það er kunnara en frá þurfi að segja að persónulegar heimildir eiga það gjarnan á hættu að glatast í meðförum kynslóðanna. Oft eru þessi gögn mikil verðmæti í höndum eins manns en einskis virði í höndum þess næsta. Það er þetta ójafnvægi sem gerir það að verkum að persónulegar heimildir eiga það á hættu að verða eyðileggingunni að bráð. Við sem stöndum að þessu átaki sem hér fer af stað höfum öll heyrt sorglegar sögur af slíkum atburðum, það er þegar dýrmætum dagbókum frá nítjándu og tuttugustu öld hefur verið kastað á bálið vegna þess að þær hafa komist í hendur afkomenda höfunda þeirra sem ekki báru skynbragð á mikilvægi þeirra sem menningarlegra heimilda.

Í þessum anda hófst vinna nefndarinnar og byggði á sameiginlegum hugmyndum í framkvæmdanefndinni. Heilmikið mál var að finna heppilegar boðleiðir þannig að grunnhugsun átaksins kæmist til skila. Kostaði það ótal fundi og pælingar þar sem tilraun var gerð til að velta upp sem allra flestum hliðum á virkni átaka af þessu tagi. Innsýn má fá í störf nefndarinn með því að vitna í annan hluta fyrrnefndrar samantektar minnar:

  Útfærsla

  - Í fyrri hluta herferðarinnar, það er þeim sem snýr að dagbókarskrifum nútíma Íslendinga, verður gert ráð fyrir að leitað verði til sérstakra hópa og þeir beðnir um að taka þátt í þessum skrifum. Þeir helstu eru skólabörn á öllum aldri, aldraðir sem dvelja á elliheimilum og fangar. Mestar vonir eru bundnar við fyrst talda hópinn því auðveldlega er hægt að ímynda sér að hægt sé að tengja dag dagbókarinnar bæði við starfið í skólunum og einnig fjölskylduna. Best væri ef skólarnir væru tilbúnir til að gera þennan ákveðna dag að degi dagbókarinnar sem miðaðist við það að börnin tjáðu sig skriflega á einn eða annan hátt um líf sitt og tilveru. Skólarnir og þá helst íslenskukennarar gætu haft forgöngu að þessum þætti í skólastarfinu sem bæði gæti verið skemmtilegt og fróðlegt. Ef vel tekst til gæti þetta orðið sameiginlegt verkefni allrar fjölsyldunnar og hægt er að stefna að því að þetta verði kynnt sem slíkt. Með því fengjum við skemmtilegan þverskurð af núlifandi Íslendingum.

  Til greina kæmi að leita eftir samstarfi við Hitt húsið. Spurningin er hvort þau gætu tengst þessu átaki og orðið tengiliður okkar við unga fólkið? Ég hef svolitlar áhyggjur af þessum aldurshópi að það geti orðið erfitt að ná til hans.

  Í kringum útgáfu bókarinnar má hugsa sér ýmsar uppákomur. Útgefandinn gæti til dæmis látið útbúa sérstakar dagbækur sem væru merktar átakinu og kynnt þær með aulýsingum nokkru fyrir átakið 15. október. Mikilvægt er að útgefandinn komi að þessu átaki á áhrifaríkan hátt þar sem þeir eru að fá mjög mikla kynningu fyrir ekki neitt. Jafnframt þarf að huga að greiðslum vegna þessarar vinnu og hvert hún á að fara.

  Hvað varðar síðari hluta herferðarinnar, það er þeirri sem lýtur að söfnun persónulegra heimilda frá fyrri tíð, verður að gera tilraun til að tryggja sem allra best fyrirfram að ákveðnar dagbækur og bréfasöfn berist á fyrsta degi herferðarinnar. Þannig fáum við fréttaefni fyrir fjölmiðla sem þeir geta moðað úr. Þetta er hægt að gera með því að hafa samband við stéttir eins og presta og fara þess á leit við þá að þeir hugi sérstaklega að varðveislu persónulegra heimilda í sinni heimabyggð og hvetji fólk til að veita þessu átaki lið. Þetta gætu þeir gert vegna þekkingar sinnar á söfnuðinum. Þá má leita sérstaklega eftir því að prestar afhendi sín eigin söfn í handritadeildina og mjög gott væri að ná samstarfi við Guðfræðistofnun Háskóla Íslands í þessu sambandi.

  Fyrstu sýningarvikuna munu verða uppákomur með upplestri úr dagbókum, bréfum og öðrum persónulegum heimildum sem leikarar, rithöfundar og fræðimenn taka að sér, jafnvel úr þeim gögnum sem munu berast á þessum dögum herferðarinnar þannig að átakið verði áfram í fjölmiðlum.

Við gerðum okkur strax grein fyrir því að við yrðum að leggja drög að þessum undirbúningi á sem allra nákvæmasta hátt. Þetta varð til þess að við settumst niður og huguðum sérstaklega að kynningarstarfinu og hvernig við gætum komið hugmyndum átaksins til skila. Þetta var sérstaklega brýnt vegna þess að við höfðum enga fjármuni í höndum til að vinna verkið. Þó hafði Hallgerður ritað Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra bréf þar sem við fórum fram á að hann styrkti átakið og tók hann því vel og veitti okkur 200 þús. kr. styrk sem gjörbreytti stöðu okkar. En þrátt fyrir þennan styrk gerðum við okkur grein fyrir að við þyrftum að nota hugmyndarflugið mikið til þess að koma efni átaksins til skila. Hugmyndir okkar í upphafi að kynningunni voru á eftirfarandi nótum:

  Kynning

  - Frá upphafi verður að tryggja mikla og góða fjölmiðlaumfjöllun. Það verður einkum tvennt að vera haft að leiðarljósi: Í fysta lagi að skýrt sé út á eins nákvæman hátt og hugsast getur um hvað þessi herferð snýst; hvert sé markmið hennar og hvernig hún muni fara fram. Hér verðum við að tefla fram öflugum hópi fræðimanna sem notað hafa þessar heimildir, eins og dagbækur, bréf, sjálfsævisögur og fræðilega spurningalista. Einnig koma forstöðumenn deildanna tveggja þau Hallgerður og Ögmundur fremst meðal jafningja. Síðan má hugsa sér að hægt sé að nýta fræðimenn á borð við Davíð Ólafsson, Erlu Huldu Halldórsdóttur, Sigrúnu Sigurðardóttur, Kristrúnu Höllu Helgadóttur, Svavar Hávarðsson, Kára Bjarnason, Gunnar Hersvein og Sigurð Gylfa Magnússon. Þá koma til greina menn á borð við Jón Jónsson, Viggó Ásgeirsson, Jón Aðalstein Bergsveinsson sem hafa verið tengdir þessum heimildum á einn eða annan hátt. Allt þetta fólk gæti komið að kynningu á einn eða annan hátt en mjög brýnt er að almenningur skilji að þessi herferð hafi raunverulegt innihald og leggja verður áherslu á að skýra það sem við teljum að skipti máli í þessu sambandi. Þessi hópur gæti komið fram vegna herferðarinnar í fjölmiðlum en hann gæti einnig skrifað í blöð, eins og kjallaragreinar, og hvatt almenning til að taka þátt í þessu átaki. Það verður að sækja að fólki úr öllum áttum.

  Þá má hugsa sér að tekin verði viðtöl við þá sem afhenda dagbækur eða bréf á fyrsta degi þannig að umfjöllunin verði fjölbreytt og komi strax samdægurs og átakinu er hrundið í framkvæmd.

  Í öðru lagi verður að kynna fyrir fólki dagbókarformið, það er að sýna því hvernig menn hafa nýtt sér dagbókina og nota tækifærið ekki aðeins til að hvetja fólk til að halda dagbók þennan ákveðna dag heldur einnig í framtíðinni og ræða í því sambandi hvaða þýðingu hún geti haft fyrir sálarlíf fólks. Þetta má gera á margvíslegan hátt og beita ólíkum aðferðum til að ná settu marki. Í tengslum við þennan lið verður sent á hvert einasta heimili frímerkt umslag þar sem fólk getur póstlagt dagbók dagsins og sent til þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns Íslands. Þetta væri út af fyrir sig mjög góð kynning fyrir átakið og safnið sjálft. Við munum kanna hvort Íslandspóstur geti sent bréfin okkur að kostnaðarlausu.

Þetta var aðeins byrjunin, því við áttum eftir að endurskoða öll okkar plön eftir því sem á undirbúninginn leið og þegar í lok ágústmánaðar voru við búin að útvega styrktaraðila og ræða við fjölmörg blöð og tímarit eins og sést á dagbók sem nefndin hélt í ágústmánuði og fram í lok septemper (sjá fylgiskjal hér að aftan). Þegar þarna var komið sögu gerðum við okkur grein fyrir því að starf nefndarmanna var orðið gríðarlega umfangsmikið og í raun alltof tímafrekt til þess að hægt væri að sinna því af okkur einum. Við höfðum sett markið hátt og vildum freista þess að ná þeim árangri sem við töldum að mögulegur væri. Við ákváðum því að bjóða Sigrúnu Sigurðardóttur sagnfræðingi vinnu sem starfsmanni átaksins í hálfu starfi í um það bil 40 daga. Sigrún var sérstaklega vel til þess fallin að koma að átakinu þar sem hún gjörþekkti þessar heimildir og hafði mjög góða yfirsýn yfir möguleika þeirra. Að auki er Sigrún harðdugleg og hugmyndarík eins og hún sýndi í starfi sínu.


Starfsmaður ráðinn og dagurinn nálgaðist

Segja má að hinn 10. september hafi undirbúningsvinnan komist á nýtt stig því þá hóf Sigrún Sigurðardóttir störf og fór þá þegar að vinna í kynningarmálum. Á tímabilinu frá 8. september til 22. október hittist nefndin tvisvar í viku ásamt starfsmanni. Á þessum fundum var dagurinn sjálfur, 15. október skipulagður, auk þess sem farið var í ýmis framkvæmdaatriði og kynningarmál í tengslum við átakið. Nefndið skipti með sér verkum á þessum fundum og síðan unnu menn að tilteknum þáttum milli funda og var Sigrún þar í forystu. Gríðarleg vinna var að hafa samband við nánast alla hugsanlega fjölmiðla í landinu. Að auki var haft samband við hópa og félagasamtök sem við töldum að gætu lagt okkur lið. Hugmyndin var að ná til sem allra flestra og að hópurinn sem haft yrði samband við kæmi frá ólíkum geirum samfélagsins. Þess vegna var meðal annars haft samband við eftirtalda:

 • o Alla grunn- og framhaldsskóla í landinu og fengu þeir bréf frá nefndinni auk þess sem Sigurborg Hilmarsdóttir hafði samband við fjölmarga kennara símleiðis. Þá voru kennarastofur einstakra skóla heimsóttar. Sigurborg gekk jafnframt á fund móðurmálskennara sem sóttu endurmenntunarnámskeið í Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.
 • o Hallgerður Gísladóttir sá um að senda um fjögur hundruð heimildamönnum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns hvatningarbréf. Heimildamenn tóku áskoruninni um að halda dagbók mjög vel og sendi stór hluti þeirra inn dagbók yfir 15. október 1998.
 • o Rúmlega tvö hundruð bréf voru send til Íslendingafélaga og sendiráða Íslands um allan heim og sá Sigurborg Hilmardóttir um þá sendingu.
 • o Tilkynning var send til íslenskra námsmanna erlendis og þeir beðnir um að taka þátt í átakinu.
 • o Sigurður Gylfi samdi ítarlegt bréf sem sent var í samvinnu við Landafundanefnd til Vesturheims en bréfið bar yfirskriftina - Iceland in Focus. Cultural Campaign -, og var ákall til Vestur-Íslendinga um að senda heim gömul handrit sem þeir kynnu að hafa í sínum fórum og snertu Ísland.
 • o Sigrún Sigurðardóttir fór á fund með forstöðumönnum félagsmiðstöðva á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaða fundarins varð að dagbækur myndu liggja frammi í flestum félagsmiðstöðum þar sem unglingar gætu skráð hugrenningar sínar og einnig var ætlunin að gera dagbókina að þema í mörgum félagsmiðstöðum og hvetja unglinga til að senda dagbækur yfir fimmtudaginn 15. október til Þjóðminjasafnsins.
 • o Sigurborg hafði samband við félagsskap nýbúa á Íslandi og hvatti einnig erlenda námsmenn sem stunduðu nám við HÍ að halda dagbók þennan dag.
 • o Sigurður Gyfli fór á fund Rakelar Pétursdóttur og Ólafs Kvaran hjá Listasafni Íslands. Niðurstaða fundarins var að framkvæmdarnefnd átaksins myndi í samvinnu við Listasafnið senda öllum listamönnum sem eru á póstskrá safnsins bréf þar sem þeir yrðu hvattir til að afhenda dagbækur, hvort sem er hefðbundnar dagbækur eða skissudagbækur, á Landsbókasafn Íslands.
 • o Sigurður Gylfi og Kári áttu fund með Ólafi G. Einarssyni, forseta Alþingis. Í framhaldi af því var haft samband við þingflokksformenn sem komu þeim skilaboðum áleiðs til þingmanna sinna að vel væri við hæfi að alþingismenn héldu dagbók 15. október og legðu þannig Degi dagbókarinnar lið. Alþingismenn tóku vel í hugmyndina og föstudaginn 16. október milli kl. 13:00 13:30 tóku þau Kári, Hallgerður og Sigurborg á móti dagbókum alþingismanna í Kringlunni í Alþingishúsinu. Fjölmiðlar fylgdust með.
 • o Kári hafði samband við forstöðumann fangelsisyfirvalda og fór þess á leit við hann að hann hefði milligöngu um að fangar tækju þátt í átakinu. Forstöðumaðurinn tók málaleitan Kára vel og lofaði að sinna málinu. Hallgerður og Sigurborg fóru síðan með gögn í fangelsin í sambandi við átakið.
 • o Sigurður Gylfi og Kári gengu á fund Guðmundar Guðjónssonar yfirlögregluþjóns í Reykjavík og hvöttu hann til þess að afhenda persónuleg gögn sem lögreglan hefði í sínum fórum og einnig að fá lögreglumenn til að taka þátt í átakinu. Tók hann vel á móti okkur og lofaði að vinna með átakinu auk þess sem hann benti á lögreglumenn sem haldið hefðu dagbók fyrr á öldinni.
 • o Haft var samband við forsvarsmenn eldri borgar í Reykjavík, meðal annars Pál Gíslason, og þeir hvattir til að leggja átakinu lið og tóku þeir því vel.
 • o Haft var samband við öryrkjabandalagið og lofaði Helgi Seljan að vekja athygli sinna skjólstæðinga á átakinu. Hallgerður skrifaði áskorun til þeirra um að veita átakinu lið.
 • o Kári samdi bréf sem sent var til allra presta á landinu þar sem farið var fram á að þeir tækju þátt í átakinu og vektu athygli sóknarbarna sinna á því.
 • o Loks má nefna að nefndarmenn ásamt starfsmanni lágu í símanum frá miðjum ágúst og fram að dagbókardeginu til þess að vekja athygli fjölmiðlamanna á átakinu. Meðal annars var gengið á fund ýmissa lykilmanna í fjölmiðlaheiminum, eins og Gísla Sigurðssonar og Björns Vignis Sigurpálssonar sem báðir eru á Morgunblaðinu, Sigurðar Valgeirssonar og Helga Jónssonar á Sjónvarpinu og fjölmargra annara. Þá var Kári í miklu sambandi við Matthías Jóhannesson sem endaði með því að öll gögn hans komu í safnið.
 • o Sigrún Sigurðardóttir sendi bréf til allra héraðsblaða á landinu og hafði samband við forsvarsmenn fjölmargra fréttabréfa félagsamtaka og stéttarfélaga þar sem átakið var kynnt í stuttu máli.
 • o Nefndarmenn og Sigrún sömdu greinar og annað efni sem birtist í fjölmiðlum ýmist undir okkar nafni eða þá í nafni blaðsins. Þar má nefna meðal annars grein þeirra Davíðs Ólafssonar, Sigurðar Gylfa og Kára í Lesbók Mbl. sem birtist 10. október 1998 og aðstoð við blaðamann Sunnudagsblaðs Mbl. en hann fjallaði um átakið í heilli opnu í helgarblaðinu 11. október. Sigrún samdi grein fyrir Lifandi vísindi sem birtist ekki í hennar nafni, hún samdi aðra grein fyrir Hús og híbýli sem birtist undir hennar nafni, hún tók viðtal við Gunnar J. Friðriksson sem birtist í Viðskiptablaðinu og annað viðtal við Helga Má Björgvinsson markaðstjóra Íslandspósts sem birtist í sama blaði. Hallgerður skrifaði greinar í Dag, Læknablaðið, Heima er best, Fréttabréfi Háskólans og tímaritið Ský. Kári skrifaði auk Lesbókargreinar sinnar greinar í Bændablaðið og Kirkjublaðið. Sigurður Gylfi skrifaði auk Lesbókargreinar í Mbl. greinar í Fréttabréf Rannsóknarstofu í kvennafræðum og Fréttabréf Sagnfræðingafélags Íslands. Sigurborg Hilmardóttir skrifaði grein í Kennarablaðið og fréttaklausu á vefsíðu íslenska menntanetsins og samtaka móðurmálskennara. Þá voru tekin ófá viðtöl við okkur öll í blöðum, tímaritum, útvarpi og sjónvarpi (sjá skrá hér að aftan).
 • o Nefndarmenn allir ásamt starfsmanni voru mjög áberandi í fjölmiðlum vikurnar fyrir átakið. Segja má að látlaus straumur fréttamanna hafi legið niður í handritadeild og í Þjóðminjasafnið. Á stundum var engu líkara en að það stæði keppni milli fjölmiðlanna um efni og reyndu nefndarmenn að dreifa sér niður á þá, hvort sem var sjónvarp, útvarp, dagblöð eða tímarit. Allir lögðust á eitt með það í huga að koma efni átaksins sem allra víðast á framfæri. Allt tók þetta mikið á Sigrúnu og okkur nefndarmennina og var afar tímafrekt, en reyndist nauðsynleg forsenda fyrir kynningu á átakinu.
 • o Kári og Sigurður Gylfi unnu allt haustið að því að hafa samband við fjölda einstaklinga sem vitað var að hefðu dagbækur eða önnur handrit í sínum fórum í því skyni að fá þá til að afhenda þau á Degi dagbókarinnar. Þetta var mjög tímafrekt starf og reyndi mikið á þolinmæði okkar. Í mörgum tilfellum þurftum við að hringja oft í sama einstaklinginn og halda miklar og langar ræður um þýðingu þess að afhenda dagbækur á deginum sjálfum. Sumir létu til leiðast en aðrir létu sér fátt um finnast. Hér á eftir birtist listi yfir hluta þess hóps sem við höfðum samband við, en listinn tók ég saman vegna tilrauna okkar til að ná inn dagbókum fyrir 15. október:

  Gögn sem verða afhent á Degi dagbókarinnar
  fimmtudaginn 15. október 1998 (verið að vinna í ýmsum aðilum)

  Handrit Halldórs Jónssonar í Miðdalsgröf,
varðveitt á Handritadeild Landsbókasafnsins
 • 1. Gunnar J. Friðriksson - Afhendir bréf Einars í Nesi og dagbók auk þess sem Gunnar ánafnar handritadeildinni öll sín handrit en skrá um þau er upp á 100 blaðsíður.
 • 2. Ásta Reynis - Afhendir dagbók afa síns Þórðar Þórðarsonar Grunnvíkings.
 • 3. Guðrún Halldórsdóttir og Kristján Jóakimsson ­ Afhenda dagbækur afa síns sem var bóndi á Vestfjörðum.
 • 4. Arna Einarsdóttir - Afhendir bréf ömmu sinnar sem bjó á Akureyri alla sína tíð (óvíst).
 • 5. Friðrik Weisshappel - Afhendir útsetningar föður síns og ástarbréf sem hann sendi konu sinni.
 • 6. Sigríður Þorgrímssdóttir - Afhendir handrit móður sinnar Jakobínu Sigurðardóttur og mun ánafna handritadeildinni bréf hennar sem koma síðar.
 • 7. Jón Karl Helgason - Afhendir ástarbréf langömmu sinnar og langafa.
 • 8. Katrín Helgadóttir - Afhendir bréf sín sem hún hefur fengið á langri ævi.
 • 9. Bryndís Stefnánsdóttir - Afhendir dagbækur sínar sem hún hefur haldið síðustu tíu árin. Bryndís er 36 ára (óvíst).
 • 10. Guðrún Eggertsdóttir - Ánafnar handritadeildinni sínar dagbækur og dagbækur föður síns og móður (þetta er ekki öruggt).
 • 11. Örn Hrafnkelsson - Afhendir dagbækur sínar sem hann hélt sem barn.
 • 12. Svavar Hávarðsson - Afhendir dagbækur sínar sem hann hélt sem barn.
 • 13. Jón Jónsson - Afhendir dagbækur sínar sem hann hélt þegar hann var barn (óvíst).
 • 14. Annadís Rúdólfsdóttir - Afhendir dagbækur sínar sem hún hélt þegar hún var barn.
 • 15. Sigurður Magnússon frá Seyðisfirði - Ánafnar hugsanlega handritasafn sitt handritadeildinni (þetta er ekki víst).
 • 16. Þórhallur Tryggvason - Ánafnar hugsanlega handritasafn sitt handritadeildinni (þetta er ekki víst).
 • 17. Thor Vilhjálmsson - Afhendir hugsanlega dagbækur sínar (óvíst).
 • 18. Steingrímur Hermannsson - Afhendir dagbækur sínar og bréf föður síns.
 • 19. Sigurður Helgason fyrrverandi forstjóri Flugleiða - Afhendir dagbækur sínar sem hann hefur haldið í 25 ár.
 • 20. Tómas Tómasson - Afhendir gögn frá föður sínum Tómasi Guðmundssyni.
 • 21. Hannes Þorsteinsson - Athuga með vinkonur hans og þær dagbækur sem þær hafa í sínum fórum.
 • 22. Kári Bjarnason - Afhendir dagbækur Fríðu fóstru sinnar.
 • 23. Halldór Guðmundsson - Afhendir efni frá Máli og menningu af ýmsu tagi.
 • 24. Magnús Eggertsson - Afhendir dagbækur sínar (óvíst).
 • 25. Ingibjörg Benediktsdóttir - Afhendir dagbækur afa síns “Palla pólití".
 • 26. Guðmundur Guðjónsson - Ýmis gögn frá lögreglunni.
 • 27. Björn Ingi Stefnánsson - Afhendir ýmis gögn frá langafa sínum.
 • 28. Kristín Sif Sigurðardóttir - Afhendir ef til vill sínar dagbækur (hún er ca 35 ára) og föður síns (óvíst).
 • 29. N/a
 • 30. Elfa Ýr Gylfadóttir - Afhendir hugsanlega ýmis gögn frá afa sínum og ömmu (óvíst).
 • 31. Kristín Einarsdóttir - Afhendir hugsanlega dagbækur föður síns (óvíst).
 • 32. Emilía Sigmarsdóttir - Afhendir hugsanlega dagbækur tengdaföður síns (óvíst).
 • 33. Ágúst Valfells - Gögn frá tengdaföður sínum (óvíst).
 • 34. Kartín Helgadóttir - Dagbækur Bjarnveigu vinkonu hennar. Bjarnveig vann á listasafni Ásgríms Jónssonar.
 • 35. Ólafur Engilbertsson - Afhendir reisupassa Sölva Helgasonar og sagnahandrit afa síns.
 • 36. Hulda Kristín Magnúsdóttir - Afhendir dagbækur sínar sem hún hélt þegar hún var barn (óvíst).
 • 37. Auðunn Bragi Sveinsson - Afhendir dagbækur sínar sem hann hefur haldið í 50 ár, eða frá 15 ára aldri.
 • 38. Þórmundur Jónatansson - Dagbækur afa síns (óvíst).
 • 39. Margrét Gunnarsdóttir - Ætlar að hafa áhrif á að dagbækur langafa síns verði afhendar. Það er líklegt að það muni gerast.
 • 40. Jón Alfreðsson - Athuga hvort hann sé til í að afhenda dagbækur föður síns.
 • 41. Margrét Jónasdóttir - Athuga með dagbækur vinkonu hennar.
 • 42. Magnús Helgason - Afhendir gögn úr fyrirtæki Helga Magnússonar & Co.
 • 43. Róbert H. Haraldsson - Afhendir hugsanlega dagbækur sínar, eða einhvern hluta þeirra.
 • 44. Sigrún Sigurðardóttir - Er að kanna hvort amma hennar muni vera fáanleg til að afhenda dagbækur sínar. Ef það gerist ekki núna þá koma þær síðar.

Þessi listi var í stöðugri endurnýjun og margt af því fólki sem þarna er nefnt mun skila sér þó síðar verði.

Eins og sést af þessari upptalningu allri þá var starfið margt og þegar fram í septembermánuð kom var ljóst að Sigrún yrði að verja meiri tíma í þetta átak en sem næmi hálfu starfi. Við höfðum hugsað okkur að greiða laun hennar með styrknum sem menntamálaráðherra hafði veitt okkur en fljótlega sáum við að frekari fyrirgreiðsla var nauðsynleg. Við gengum því á fund forsvarsmanna safnanna tveggja og fengum þá til að samþykkja 50 þús. kr. styrk hvorn vegna launa Sigrúnar. Að auki lagði Landsbókasafnið til aðstöðu fyrir Sigrúnu á annarri hæð Þjóðarbókhlöðunnar sem varð nokkurs konar bækistöð átaksins. Söfnin tvö sendu einnig út og greiddu burðargjöld fyrir bréf og annað efni sem átaksnefndin varð að koma frá sér, en allt þetta reyndist nauðsynleg til að tryggja eðlilegan framgang verksins.


Samstarf við Mál og menningu

Strax í upphafi ágústmánaðar gengu Sigurður Gylfi og Sigurborg á fund Halldórs Guðmundssonar útgáfustjóra Máls og menningar og Sigurðar Svavarssonar framkvæmdastjóra þess. Farið var á leit við þá félaga að fyrirtækið kæmi að átakinu með beinum hætti sem styrktaraðili. Þeir tóku því vel og féllust á að standa að prentun plakats (veggspjalds) sem hengt yrði upp um land allt og prentað í 2500 eintökum. Þeir féllust á að Alda Lóa Leifsdóttir hannaði veggspjaldið og að fyrirtækið stæði straum að kostnaði við hönnun þess.

Hönnun plakatsins og prentun tókst með ágætum og vakti það nokkra athygli fyrir djarfa uppsetningu. Plakatið var með merkjum Landsbókasafns, Þjóðminjasafns, Íslandspósts og Máls og menningar, en þetta voru þau fyrirtæki og stofnanir sem stóðu að átakinu ásamt Sagnfræðingafélagi Íslands. Þá samdi framkvæmdarnefndin við Félag sagnfræðinema um að þeir dreifðu plakatinu á Reykjavíkursvæðinu gegn vægu gjaldi en ég fékk Bryndísi Stefánsdóttur þjónustustjóra Flugfélags Íslands til að taka að sér að koma plakatinu í dreifingu um land allt. Bryndís og Flugfélagið leystu þar stórt vandamál sem blasti við okkur því við vorum orðin úrkula vonar um að okkur tækist að koma plakatinu upp á landsbyggðinni. Við höfðum gert tilraun til að semja við Lionshreyfingun, Rótarýfélög og Starfsmannafélag lögreglumanna, en enginn treysti sér til að taka verkefnið að sér nema þá fyrir töluvert gjald. Flugfélagið gerði þetta hins vegar sem greiða við okkur í framkvæmdarnefndinni og var þeirra hlutar aldrei getið að verðleikum í kynningu á verkefninu. Með þessu móti komum við plakatinu upp á einum degi hringinn í kringum landið. Að auki fór Hallgerður í ferð á Reykjanesi og hengdi plakatið upp á ýmsum þéttbýlisstöðum þar, Inga Lára Baldvinssdóttir starfsmaður Þjóðminjasafnsins tók að sér að koma plakötunum fyrir í Hveragerði og á Selfossi, og loks lagði Sigurður Gylfi land undir fót og hengdi plakötin upp á þéttbýlisstöðum á Vesturlandi.

Ákveðið var að Mál og menning gæfi út bók með úrvali þeirra dagbóka sem söfnuðust á Degi dagbókarinnar. Bókin yrði sýnishorn af dagbókarskrifum Íslendinga fimmtudaginn 15. október 1998 og mundi því verða einskonar samtíðarspegill um líf fólks í lok tuttugustu aldar. Fyrirmyndin er sótt til Danmerkur en þar var sambærileg bók metsölubók árið 1991 eins og áður var nefnt. Stefnt var að því að bókin um dagbókina muni koma út á Degi bókarinnar 23. apríl 1999.

Það þarf ekki að orðlengja það að viðbrögð þeirra Halldórs og Sigurðar voru okkur mikils virði og samstarfið við þá reyndist afskaplega farsælt. Þeir sýndu átakinu áhuga með margvíslegum hætti og studdu það jafnt í orði sem á borði. Sem dæmi má nefna að Sigrún átti fund með Halldóri í lok september og í framhaldi af honum fór hún á fund með Árna Einarssyni, verslunarstjóra, og deildastjórum í verslunum Máls og menningar. Niðurstaða þessara funda var að Mál og menning kostaði gerð kaffihúsadagbóka sem síðan var dreift á fimmtán kaffihús á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess var ákveðið að útstillingargluggar Máls og menningar við Laugaveg og við Síðumúla yrðu notaðir undir kynningu á átakinu. Allt gerði þetta átakið mun sýnilegra og vakti jákvæða athygli á framtakinu.

Sigrún samdi við eigendur Kaffihúsins Súfistans í húsnæði Máls og menningar við Laugarveg um að þar yrði sett upp sýning. Hún var opnuð fimmtudaginn 8. október og var til sýnis fram í miðjan nóvember. Sex einstaklingar tóku þátt í sýningunni: Thor Vilhjálmsson rithöfundur, Hallgrímur Helgason rithöfundur, Auður Jónsdóttir rithöfundur, Ragna Garðarsdóttir bókmenntafræðingur, Sigrún Sigurðardóttir sagnfræðingur og Svanur Kristbergsson fjöllistamaður.

Loks má geta þess að Halldór Guðmundsson stóð fyrir því að þau handrit Tómasar Guðmundssonar skálds sem fyrirtækið hafði í sinni vörslu yrðu afhent á Degi dagbókarinnar. Halldór hefur einnig í huga að afhenda ýmis gögn sem varða Mál og menningu og sögu þess, en það mun bíða betri tíma.


Samstarf við Íslandspóst

Kári og Sigurður Gylfi gengu á fund Einars Þorsteinssonar, forstjóra Íslandspósts, um miðjan ágústmánuð og fóru fram á stuðning fyrirtækisins. Einar tók okkur afar vel og lýsti því yfir að hann hefði áhuga á að koma að þessu átaki. Við lögðum upp með frekar óraunhæfar hugmyndir, það er að Íslandspóstur myndi fella niður öll gjöld af 90 þúsund umslögum sem við höfðum í huga að senda á öll heimili í landinu. Niðurstaða fundarins, eftir töluverðar þreifingar, var sú að Íslandspóstur myndi auglýsa Dag dagbókarinnar í sjónvarpi og útvarpi og auk þess sæi fyrirtækið um prentun 5000 umslaga með merki átaksins sem dreifa átti á afgreiðslustaði Íslandspósts og á einstaka stofnanir, eins og skóla, sjúkrahús og elliheimili. Þá var ákveðið að Íslandspóstur tæki á móti dagbókum á afgreiðslustöðum sínum 15. og 16. október og kæmi þeim til Þjóðminjasafnsins, sendanda og viðtakanda að kostnaðarlausu. Einar vísaði framkvæmd málsins til Helga Björgvinssonar markaðstjóra sem við áttum mikil samskipti við.

Íslandspóstur auglýsti átakið með skjáauglýsingum í sjónvarpi og með auglýsingum í útvarpi dagana 11., 12., 15. og 16. október. Þá birtist einnig auglýsing í Morgunblaðinu. Prentuð voru umslög merkt Þjóðminjasafni, Landsbókasafninu, Íslandspósti og Máli og menningu og var þeim dreift á afgreiðslustaði Íslandspósts og tók Pósturinn á móti dagbókum fólks í hálfan mánuð eftir að átakinu lauk og kom þeim endurgjaldslaust á Þjóminjasafnið.


Leiðari Morgunblaðsins Morgunblaðið og þáttur þess

Rætt hefur verið um þátt þeirra fyrirtækja sem komu að þessu átaki og verður víst seint þakkað fyrir þann mikla stuðning og þá vinsemd sem við mættum. Eitt fyrirtæki er þó enn ónefnt en það er Morgunblaðið. Gunnar Hersveinn einn nefndarmanna hafði forgöngu um að tryggja gott samband við lykilmenn á Morgunblaðinu og koma okkur í samband við þá. Ég gekk til dæmis á fund Gísla Sigurðssonar ritstjóra Lesbókarinnar og fór þess á leit við hann að blaðið birti stóra grein sem við Davíð Ólafsson ætluðum okkur að skrifa um dagbækur og þau Kári og Hallgerður myndu jafnframt vera með stutta pisla um deildirnar tvær sem að átakinu kæmu. Hugmyndin var að þessi umfjöllun myndi birtast í laugardagsblaðinu helgina fyrir átakið. Gísli tók þessu vel og ritlaun okkar Davíð og Kára gefin eftir til þess að tryggja að greinarnar kæmust inn í blaðið. Niðurstaðan varð sú að við fengum þrjár blaðsíður á besta stað í blaðinu.

Ég var að vona að Sunnudagsblað Mbl. myndi einnig fjalla um dagbókardaginn en Gunnar Hersveinn taldi ólíklegt að það myndi ganga. En hann misreiknaði áhrif sín og þegar við ræddum við Björn Vigni Sigurpálsson ritstjóra Sunnudagsblaðsins tók hann afar vel í þá hugmynd að vinna með okkur að grein í þetta tiltekna Sunnudagsblað. Niðurstaðan varð sú að blaðamaður Mbl. skrifaði gríðarlega góða grein um dagbókarskrif á Íslandi og ræddi þar meðal annars við mig, Erlu Huldu Halldórsdóttur, Davíð Ólafsson og Hallgerði. Þetta var í heilli opnu og átakið fékk því fimm blaðsíður í helgarblöðum Morgunblaðsins nokkrum dögum fyrir sjálfan dag dagbókarinnar. Þessi kynning gerði útslagið og hleypti af stað fjölmiðlaskriðu sem við höfðum ekki séð fyrir, þar sem hver fjölmiðilinn af öðrum kepptist við að segja fréttir af átakinu.

Morgunblaðið átti síðan eftir að gera mikið meira því þeir ákváðu að vinna sérstakan vef sem var helgaður Degi dagbókarinnar. Þar var lesendum blaðsins gefinn kostur á að senda inn dagbók sína á tölvutæku formi og gátu einnig valið um hvort þeir vildu að hún yrði birt á vefnum. En þar sem dagbókarskrif þessi birtust því sem næst jafnóðum á opinberum vettvangi í nafni Mbl. þá varð að yfirfara efnið og var þess farið á leit við okkur að við útveguðum mann sem gæti setið frá morgni og langt fram á kvöld í tvo daga og lesið þetta efni allt yfir áður en það var sett á netið. Við leituðum til Svavars Hávarðssonar sagnfræðings, Sifjar Jóhannesdóttur og Steins Kristjánssonar og voru þau svo vinsamleg að sinna þessu verkefni án þess að fá borgun fyrir. Möguleika vefsins kynntu Morgunblaðsmenn síðan rækilega og óhætt er að segja að uppátækið hafi vakið mikla athygli og var nokkur fjöldi fólks sem nýtti sér þennan vettvang, þar á meðal Björn Bjarnason menntamálaráðherra. Morgunblaðið fylgdu átakinu eftir með reglulegri umfjöllun um dagbókarheimtur og loks var skrifaður leiðari um þetta merka framtak. Umfjöllun blaðsins var svo mikil að mörgum innanhúss manninum var farið að þykja nóg um allan fyrirganginn. Það er víst ekki á neinn hallað þegar bent er á að þáttur Gunnars Hersveins var afar stór á þessu sviði og kom reynsla hans sem fjölmiðlamanns að mjög góðum notum í átakinu öllu.


Lokaátakið

Dagbókardagurinn sjálfur var afar viðburðarríkur og reyndar síðustu dagarnir fram að honum. Segja má að allt hafi verið á ferð og flugi því þegar þarna var komið sögu vorum við búin að missa stjórn á allri fjölmiðlaumfjöllun og vorum að einbeita okkur að því að dagurinn sjálfur heppnaðist sem allra best. Þó vorum við að reyna að skipuleggja starfið eins og við gátum og sem dæmi má taka minnismiða sem ég sendi Sigrúnu þegar lokaspretturinn nálgaðist:

  Kæra Sigrún.

  Næsta vika frá 5. okt. til 9. okt. verður all rosaleg. Mér líst þannig á hana að við verðum að skipuleggja okkur afar vel. Ég ætla að telja upp nokkur atriði sem við erum að vinna í, það er ég, þú og Kári:

  • o Fréttatilkynning til Alþingis (tilbúin). Þarf að senda hana út.
  • o Fréttatilkynning fyrir Lbs. (tilbúin). Þarf að senda hana út.
  • o Stuttur pistill fyrir innanhúsblað Lbs. (tilbúinn). Þarf að senda hana út.
  • o Bréf til presta (tilbúið). Þarf að prenta það og fá límmiða frá Biskupsstofu til að setja á bréfið og senda það út.
  • o Grein í Bændablaðið (tilbúin).
  • o Bréf, almenn fréttatilkynning. Þarf að fá prentaða út.
  • o Bréf til listamanna. Þarf að sækja það á mánudag úr fjölritun og senda út.
  • o Sækja plaköt í prent og láta brjóta um það bil 500-700 eintök þannig að þau komist í umslög.
  • o Límmiðar frá menntamálaráðuneytinu með heimilisföngum allra skóla á landinu. Senda það út á plakati.
  • o Fá tvo til fjóra stúdenta til að hengja plakötin upp í Rvík og nágrenni. Ræða við Viggó en athuga með fleirri.
  • o Bryndís vinkona mín ætlar að senda plaköt til starfsmanna sinna á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjum og fá þá til að dreifa þeim á þessum stöðum ef til vill 20 eintök á hverjum stað.
  • o Fréttatilkynning fyrir fréttamanna fund. Faxa hann út á þriðjudag eða miðvikudag og fylgja því eftir með upphringingum til fréttamanna.
  • o Davíð sér um sýningu og uppskrift fyrir útvarpsþætti.
  • o Ég sé um DV, Össur, Silju og Gunnar Smára.
  • o Dagur: Kári þarf að ræða við þessa Vigdísi og athuga með að koma grein Hallgerðar þar inn. Þarf að ræða um hugmyndina að blaðið fái fólk til að halda dagbók í einn dag og birta þau skrif í heila viku fyrir átakið. Hefja leikinn á deginum þegar blaðamannafundurinn verður.

  o Undirbúa blaðamannafundinn: Við veðum að ákveða hver sér um kynningu á honum, auk þess sem best væri að taka saman öll helstu efnisatrið sem þar koma fram og afhenda þau fréttamönnum til aflestrar og úrvinnslu. Þau atriði hef ég tekið saman í grófum dráttum og gott væri ef við ræddum þau á fundinum kl. 3 í Þjóðarbókhlöðunni og bættum þar við. Við þurfum að vinna þetta plagg mjög vandlega. Hér koma hugmyndir mínar:

  • - Kynna staðinn þar sem fundurinn er haldinn og leggja áherslu á sérstöðu hans. Handritageymslan er nokkurs konar helgidómur og við erum að fara þess á leit við þjóðina að hún afhendi okkur gögn sín til vistunar í þessum helgidómi. Ræða meðal annar þær reglur sem fylgja umgangi um þessar geymslur.
  • - Kynna átakið sjálft í stuttu máli og ræða meðal annars áhersluna á börn og konur.
  • - Kynna þær stofnanir sem standa að þessu átaki og fyrirtækin tvö sem styðja það. Ræða einnig framkvæmdarnefnina og starf hennar.
  • - Fara nokkrum orðum um hið eiginlega markmið þessa átaks: að fá þjóðina til að huga um sögu sína og viða að okkur efni sem getur nýst til vísindarannókna af ýmsu tagi.
  • - Í tengslum við átakið höfum við unnið að kynningu að þess í hópum eins og meðal fanga, alþingismanna, leigubílstjóra (BSR), skólafólks í grunn- og framhaldsskólum og í félagsmiðstöðvum, presta, listamanna auk þess sem við höfum sent fag- og stétttarfélögum efni til birtingar í fréttabréfum sínum.
  • - Segja frá opnun sýningar á Súfistanum og kaffidagbókunum.
  • - Segja frá því að fyrirmynd hluta þessa átaks sé komin frá frændum okkar í Danmörku. Þar hafi um það bil 1% dönsku þjóðarinnar svarað þessu kalli um dagbókarskrif og við ætlum okkur að slá þeim við og fá dagbækur frá 2% íslensku þjóðarinnar til að halda dagbók.
  • - Við stefnum að því að gefa út sýnishorn af því sem safnast, að sjálfsögðu með samþykki þeirra sem valdir verða, á bók sem mun koma út á degi bókarinnar 23. apríl 1999. Ræða hér þær upplýsingar sem við viljum að fólk sendi inn um sjálft sig.

  Þetta þarf að setja upp á skipulagðan hátt og fara yfir á blaðamannafundinum. Aðalatriðið er að fundarmenn fari með þessi gögn heim með sér. Því meira sem þeir hafa úr að moða því meiri upplýsingar verður komið á framfæri.

  Ég sendi Kára þetta líka og þú verður að halda utan um þetta allt. Kveðja, SGM.

Segja má að það hafi verið tvennt sem við einbeittum okkur að á síðustu dögunum en það var opnunarhátíðin og undirbúningur fyrir dagbókarsýningu sem þá skyldi opna. Davíð Ólafsson sagnfræðingur sá um dagbókarsýninguna og vann ég að uppsetningu hennar með honum. Það er óhætt að segja að sýningin hafi tekist afar vel og efni hennar vakti verðskuldaða athygli, sérstaklega stór innsiglaður pakki frá Erlendi í Unuhúsi en hann má opna 1. janúar árið 2000. Enn á ný kom Davíð til liðs við átakið og vann ómetanlegt starf. Við Kári og Sigrún undirbjuggum athöfnina sjálfa sem átti að hefjast kl. 10:30 um morguninn og allt umfang hennar. Dagurinn hófst kl. 7:00 en þá hóf Morgunútvarp Rásar 2 í Ríkisútvarpinu beina útsendingu úr Þjóðarbókhlöðunni. Sigrún tók saman dagskrá dagsins eins og hún lá fyrir á miðvikudeginum 14. október og fer hún hér á eftir.


Dagskrá Fimmtudagsins 15. október 1998

6:45 Mæting

Morgunútvarpið

 • 7:15 Viðtal við Sigurð Gylfa Magnússon
 • 7:35 Viðtal við Ögmund Helgason og Hallgerði Gísladóttur.
 • 7:45 Viðtal við Svavar Hávarðsson sem dagbókarhöfund og sagnfræðing.
 • 8:25 Viðtal við Steingrím Hermannsson.
 • 8:45 Viðtal við Sigríði Matthíasdóttur og Auðunn Braga Sveinsson sem gefa dagbækur.

Ræðuhöld og afhending dagbóka kl. 10:30

Kári Bjarnason flytur stutt ávarp og dagbækur verða afhentar.

Þeir sem afhenda dagbækur og aðrar heimildir sérstaklega eru:

 • 1. Gunnar J. Friðriksson afhendir dagbækur og bréf Einars Ásmundssonar í Nesi, langafa síns, og ánafnar hugsanlega einhverju öðru efni.
 • 2. Ingeborg Einarsson ánafnar eigin dagbók en hún hefur haldið dagbók samfleytt í fjörutíu ár.
 • 3. Svavar Hávarðsson afhendir dagbækur sem hann hélt þegar hann var barn (óljóst).
 • 4. Ingibjörg Benediktsdóttir afhendir dagbækur afa síns “Palla Pólití."
 • 5. Sigríður Matthíasdóttir afhendir dagbækur ömmu sinnar Jóhönnu Sigríðar Arnfinnsdóttur en þær ná yfir þrjátíu ára tímabil.
 • 6. Auðunn Bragi Sveinsson, rithöfundur og kennari afhendir dagbækur sínar sem ná yfir 60 ára tímabil.
 • 7. Steingrímur Hermannsson afhendir bréf Hermanns Jónassonar forsætiráðherra og ánafnar safninu dagbók sína. Hann heldur jafnframt stutta tölu.

Sýning á gömlum dagbókum í eigu handritadeildar opnuð af Einari Sigurðssyni.

Fréttamenn frá Stöð 2 og Ríkissjónvarpinu mæta í Þjóðarbókhlöðuna kl. 10:30. Þá hefur öðrum fjölmiðlum verið boðið, en það eru Ríkisútvarpið (fréttastofan, Samfélagið í nærmynd, Víðsjá), Bylgjan (fréttastofan og Þjóðbrautin), DV, Morgunblaðinu (fréttadeild), Degi, Séð og heyrt, Mannlíf og Nýtt líf.

Þessi dagskrá gekk eftir og var góður rómur gerður að allri framkvæmdinni. Tilhögunin var sú að þeir sem afhentu dagbækur sínar formlega gengu fyrir þá Einar Sigurðsson og Ögmund Helgason og afhentu þeim dagbækur sínar. Við hliðina á þeim var síðan mikið rými fyrir fjölmiðlamenn að athafna sig og tóku þeir mikið af myndum þegar afhendingin fór fram. Ræða Kára á undan var snjöll og hnitmiðuð og gaf hann tóninn fyrir það sem í vændum var. Einar þakkaði síðan fyrir hönd safnsins og opnaði sýninguna en áður en að því kom flutti Steingrímur Hermannsson stutt ávarp þar sem hann hvatti landsmenn alla til að taka þátt í þessu frábæra framtaki, eins og hann komst að orði. Steingrímur reyndist okkur afar vel og orð hans virkuðu vel á fréttamennina.

Þegar athöfninni var lokið hófum við móttöku handrita á 2. hæð í Þjóðarbókhlöðunni, en hugmyndin var að veita handritum mótttöku á meðan á sýningunni stæði, það er til loka októbermánaðar. Við Kári höfðum útbúið sérstakt eyðublað sem merkt var Degi dagbókarinnar og var ætlað til skráningar á þeim handritum sem bærust í tilefni af átakinu. Það kom einnig mikið í okkar hlut að sitja yfir sýningunni og gerðum við það kauplaust eins og annað sem snerti þetta átak að öðru leyti en því að Kári fékk að sinna verkinu í vinnutíma sínum. Sá tími reyndist þó oft á tíðum ekki nægur og má sem dæmi nefna að hann vann laugardaginn eftir átakið kauplaust við að taka á móti handritum fyrir Landsbókasafnið og kom talsvert inn þann dag. Það reyndist afar brýnt að sitja yfir sýningunni og veita handritum mótttöku á þennan hátt þar sem fólk var ekki alveg visst í sinni sök hvernig það ætti að snúa sér í afhendingu gagna og einkum reyndust laugardagarnir þýðingarmiklir í þessu sambandi.


Framkvæmdin

Það er óhætt að segja að framkvæmdin hafi tekist framar öllum vonum. Nefndin sýndi gríðarlega gott úthald og má það teljast afar lofsvert í ljósi þess að hún vann starf sitt að miklu leyti í sjálfboðavinnu. Sem dæmi má nefna að nær allir fundir nefndarinnar voru haldnir utan venjulegs vinnutíma, helst eldsnemma á morgnana og stór hluti af öðrum verkefnum voru unnin í frítíma nefndarmanna. Kvöld og helgar nýttum við Kári gjarnan til að móta hugmyndir og leggja línurnar fyrir vinnuna sem framundan var, en Kára var ekki ætlaður sérstakur tími til þessarar vinnu í vinnutíma sínum. Nokkru öðru máli gegndi um þær Hallgerði og Sigurborgu þar sem Þjóðminjasafnið gerði beinlínis ráð fyrir að þær ynnu að átakinu í vinnutíma sínum en þó má segja að sú vinna hafi aðeins bæst við önnur verkefni sem fyrir lágu á dagskrá þeirra. Átakið reyndi því verulega á þrek þeirra og úthald meðal annars vegna þess að fyrir dyrum stóðu miklir flutningar Þjóðminjasafnsins í annað húsnæði. Gunnar Hersveinn sinnti tilteknum verkefnum á vegum nefndarinnar sem áður hafa verið rakinn og var hann að sjálfsögðu í fullu starfi sem blaðamaður allan þann tíma. Afar mikilvægt var að hafa aðgang að þekkingu Gunnars á fjölmiðlaheiminum auk þess sem sambönd hans reyndust okkur notadrjúg. Ég tók upp stóran hluta af vinnutíma mínum í þetta verkefni, frá miðjum ágúst og fram í lok októbermánaðar, og frestaði þá öðrum verkefnum eða vann þau til hliðar við dagbókarátakið. Að auki lagði ég sjálfur í nokkurn beinan kostnað vegna vinnunnar í kringum átakið og sem dæmi má nefna að símareikingur minn þetta tímabil var um 30 þúsund kr. á mánuði.

Þáttur Sigrúnar Sigurðardóttur í framkvæmdinni er mikill og reyndist hún nefndinni ákaflega vel ásamt þeim Davíði Ólafssyni og Svavari Hávarðssyni. Við Kári buðum þeim þremur í hádegisverð á veitingarstaðinn í Iðnó þar sem við afhentum þeim eintök af nýútkominni bók minni Kraftbirtingarhljómur Guðdómsins sem þakklætisvott fyrir fórnfúst starf í þágu átaksins. Minna mátti það varla vera.


Heimtur á Degi dagbókarinnar

Dagbókardagurinn heppnaðist gríðarlega vel í alla staði. Yfir 50 einstaklingar afhentu handritadeildinni gömul handrit sem voru allt frá því að vera örfá snjáð blaðarifrildi upp í stór handritasöfn í eigu einkaaðila. Þar má nefna safn Gunnars J. Friðrikssonar iðnrekanda en skrá yfir safn hans fyllir eitt hundrað blaðsíður og er það margvíslegt að gerð. Einn aðalávinningur handritadeildarinnar er þó sá að átakið gerði deildina sýnilega og tækifæri gafst til að skýra út fyrir fólki að deildin tækin á móti gömlum handritum. Átakið varð að þessu leyti vegvísir í handritadeild Landsbókasafns og frá Dagbókardeginum og allt til dagsins í dag hefur fólk verið að koma með gömul handrit í deildina og útlit er fyrir að það muni halda áfram. Ögmundur Helgason tók við öllum aðföngum sem komu inn á átakinu og skráði þau jafnóðum á þar til gerð eyðublöð sem útbúin voru í tilefni af Degi dagbókarinnar.

Dagbók dagsins tókst sömuleiðis afskaplega vel og bárust þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins hvorki meira né minna en 6000 dagbækur. Þetta fór langt fram úr okkar björtustu vonum og munaði þar mest um grunn- og framhaldsskólanemendur. Sigurborg tók við dagbókarskrifunum af hálfu þjóðháttadeildarinnar og flokkaði þær og kom fyrir á hagalegan hátt þannig að auðvelt væri að hefja úrvinnslu úr þeim. Ekkert fer á milli mála að þessar góðu viðtökur hafa haft jákvæð áhrif á þjóðháttadeildina og verða örugglega til þess að vekja athygli fræðimanna jafnt sem almennings á hinu mikla starfi sem þar er unnið.


Vinnsla sýnisbókar

Við gengum á fund Halldórs Guðmundssonar þegar dagbókardagurinn var allur og komust að samkomulagi um að við myndum velja úr þessum mikla fjölda dagbóka sem bárust í átakinu í bók sem Mál og menning myndi gefa út á árinu 1999. Hugmyndin var að við myndum skila handriti 15. janúar 1999 og að bókin sem á að vera vegleg (um það bil 350 blaðsíður) myndi koma út 23. apríl 1999 á degi bókarinnar sem jafnframt er afmælisdagur Halldórs Laxness og dánardægur Shakespears og Cervantesar.

Við tókum því til óspilltra málanna og þær Hallgerður og Sigurborg hófu lestur dagbók sem komu inn á dagbókardeginum. Við ákváðum strax að lesa allar dagbækur sem bárust í átakinu og velja úr þeim eftir aldri, kyni, stöðu og landahluta. Þjóðminjasafnið ákvað að gefa þeim Hallgerði og Sigurborgu kost á að vinna tvo daga í viku við lestur dagbókanna fram að jólum og réði það úrslitum um farsæla lausn við mótun bókarinnar. Gunnar Hersveinn gat ekki tekið þátt í þessari vinnu framan af vegna starfa sinna og sömu sögu var að segja um okkur Kára; báðir vorum við bundnir af störfum okkar, hann í handritadeild Landsbókasafns og ég við háskólakennslu. Þjóðminjasafnið eitt gat séð af vinnutíma þeirra Hallgerðar og Sigurborgar þrátt fyrir gríðarlegar annir á þeim bæ, en við hinir tókum þann kostinn að nota frítíma okkar um jólin og áramótin til að sinna þessu verkefni auk þess sem Kári átti inni nokkurra daga sumarfrí. Að auki vann ég í bókinni stöðugt fyrsta hálfa mánuð hins nýja árs og komu þeir Kári og Gunnar Hersveinn að þeirri vinnu einnig. Segja má að við Kári og Gunnar höfum tekið við af þeim Hallgerði og Sigurborgu og lokið þessu mikla verki sem þær hófu í lok októbermánaðar. Bókina afhenti ég síðan Halldóri Guðmundssyni útgáfustjóra hjá Máli og menningu í húsakynnum útgáfunnar nákvæmlega á réttum tíma, 15. janúar 1999. Handritið sem hann fékk var úrval 340 dagbóka sem valin höfðu verið úr hinu 6000 dagbóka safni.

Eftir að Halldór hafði tekið við dagbókarúrvalinu í upphafi árs 1999 hóf Sigþrúður Gunnarsdóttir bókmenntafræðingur og starfsmaður útgáfunnar handa við að ritstýra verkinu. Sigþrúður gerði fljótlega tillögu um að bókinni yrði skipt upp í átta kafla og fyrir lá að skera þyrfti dagbókafjöldann niður í um það bil 200 dagbækur. Sigurborg Hilmarsdóttir kom fljótlega að þessu verki og unnu þær Sigþrúður í sameiningu að útgáfu bókarinnar og eru þær báðar titlaðar ritstjórar. Þetta var mikið starf og tímafrekt en þrátt fyrir umfang verksins tókst að gefa bókina út á degi bókarinnar 23. apríl 1999, en þá voru liðnir einir tíu mánuðir síðan hugmyndin hafði fyrst kviknað að dagbókardeginu. Bókin ber nafnið Dagbók Íslendinga og er glæsilegt og skemmtilegt 270 blaðsíðna rit með úrvali dagbóka dagsins sem komu inn í átakinu og eru nú varðveittar í Þjóðminjasafni. Þær Sigurborg og Sigþrúður eiga mikið hrós skilið fyrir starfið og óhætt er að segja að mikið hafi mætt á Sigurborgu þar sem hún þurfti að hafa samband við alla höfunda dagbókanna og fá leyfi þeirra fyrir útgáfunni. Bókin er þeim og forlaginu til sóma og mikið fagnaðarefni okkur sem stóðum að átakinu.


Framtíðin

Dagur dagbókarinnar verður ekki endurtekinn í bráð, í það minnsta ekki af sama fólki og sannarlega ekki aftur í sjálfboðavinnu. Átak af þessu tagi er einfaldlega of tímafrekt og nefndarmenn eru í raun að fara fram á stuðning ýmissa aðila í sínu eigin nafni vitandi að það kemur að því að þeir þurfa að borga til baka greiða sem þeim var gerður í átakinu. Þetta er í raun óviðunandi sérstaklega þegar verkefni af þessu tagi er unnið í sjálfboðavinnu. Það er því skoðun mín að það sé mjög brýnt fyrir stjórnendur safnanna tveggja, Landsbókasafns og Þjóðminjasafns, að setjast niður með góðu fólki og ræða í fullri alvöru hvernig hægt sé að nýta þann meðbyr sem fékkst með dagbókarátakinu. Ég er með nokkrar hugmyndir sem ég hef áhuga að reifa í lok þessarar skýrslu. Ég vil þó ítreka að það er nauðsynlegt að hefja skipulega vinnu innan safnanna sjálfra við að hugleiða hvaða ávinning þau geti haft af þessu átaki. Ég ætla að skipta umfjölluninni í tvo hluta, annan fyrir Landsbókasafnið og hinn Þjóðminjasafnið.

Handritadeild Landsbókasafns:

Það eru margar góðar hugmyndir sem tengjast handritadeildinni sem mjög freistandi væri að koma í kring, hugmyndir sem myndu miðast að því að afla frekari handrita, stunda rannsókir á gögnum safnsins, þar á meðal að vinna efnistengdar skrár og stuðla að forvörnum handrita. Allir þessir þættir eru lífsnauðsynlegir fyrir deildina og framgang hennar og ættu ef vel er á málum haldið að geta aflað henni verulegra tekna.

 • o Mjög auðvelt er í kjölfar dagbókarátaksins að leita skipulega til félagssamtaka, hópa og einstaklinga eftir efni sem tengist sögu þeirra. Hægt er til dæmis að hugsa sér að gerður sé samningur við verkalýðshreyfinguna (heildarsamtök eða einstök félög), samtök vinnuveitenda eða önnur samtök um að þau biðli til félaga sinna um að láta af hendi gögn sem segja sögu þeirra sjálfra og eða snerta sögu þeirra samtaka sem þeir tengjast. Þessi samtök myndu síðan láta fé af hendi rakna til þess að gögnin yrðu könnuð og þeim komið í þannig horf að hægt væri að nýta þau í safninu. Rök fyrir þessari nálgun eru mjög sterk, bæði fyrir safnið og einnig félagssamtök þau sem tækju þátt í þessu.
 • o Ég hef átt fundi með Jóni Hákoni Magnússon um þá hugmynd að fyrirtæki tækju handrit í fórstur, það er að þau leggðu til ákveðið fjármagn í því skyni að safnið gæti staðið að kostnaðarsömum viðgerðum á viðkvæmum handritum. Jón hefur áður komið niður í handritadeild og telur leik einn að koma þessu í kring en hins vegar verður að vera vilji innan safnsins til að ráðast í slíka framkvæmd. Fyrirtækin myndu fá tækifæri til að nýta sér þessi handrit í auglýsingarskyni.
 • o Ég setti mig í samband við starfsmann í Sorpu og þar var mér tjáð að fyrirtækinu bærist mikið magn ýmislegs ritaðs máls, bréfa, dagbóka og annarra persónulegra gagna sem yrði að öðrum kosti eyðileggingu að bráð. Það væri mjög æskilegt að yfirmenn safnsins settu sig í samband við þetta fyrirtæki og færu þess á leit að handritadeildin yrði látin vita ef eitthvað verðmætt ræki á fjörur þeirra. Þetta kann að þykja æði langsótt en fullyrt hefur verið við mig að mikil verðmæti fari árlega í súginn vegna vanþekkingar fólks sem ef til vill er að hreinsa úr dánarbúum.
 • o Komið hefur til tals að stofnsetja sérstaka forsetadeild í handritadeildinni. Gerð yrði tilraun til að nálgast kerfisbundið efni sem tengdist forsetunum fimm, að safna hjá ættingjum þeirra og vinum efni sem tengist lífi þeirra. Ég hef nú þegar rætt við afkomanda Sveins Björnssonar og hann sýndi mér efni sem er í fórum fjölskyldu hans, þar á meðal um það bil 40 stútfullar skjalamöppur sem innihalda persónuleg bréf Sveins í áratugi. Þetta er í kjallarkompu hjá syni Sveins. Okkur hefur jafnframt borist til eyrna að svipaða sögu sé að segja af persónulegu efni hinna forsetanna. Hér eru miklir möguleikar á að byggja upp gott safn um forseta lýðveldisins og væri það vel við hæfi þar sem deildin varðveitir safn Jón Sigurðssonar forseta. Ekkert fer á milli mála að mjög auðvelt væri að afla fjármagns til þessa verkefnis og þá aðallega til að sinna skráningu og rannsóknum á þessu efni. Það er hneisa að þessu efni skuli ekki vera sinnt, og má teljast heppni að ekki skuli verða komið í algjört óefni hvað þetta tiltekna efni varðar.
 • o Í tengslum við fyrrnefnda forsetasöfnun má hugsa sér að deildin sæki um sérstaka fjárveitingu til Alþingis til þess að safna með markvissum hætti handritum sem tengjast íslenskum stjórnmálamönnum á tuttugustu öld. Slík söfnun gæti tengst þeim hluta deildarinnar sem kennd er við forsetana og það er staðföst vissa mína að söfnun af þessu tagi myndi njóta víðtæks stuðnings Alþingis, bæði til söfnunarinnar sjálfrar, skráningar og rannsókna. Það er mjög mikilvægt að allir þessir hlutir fari saman því það er algjörlega úrelt viðhorf að söfnin sanki aðeins að sér efni og geri síðan enga tilraun til að vinna úr þeim. Í sannleika sagt er það lykilatriði fyrir handritadeildina að ná samkomulagi við fræðimenn um að vinna að tilteknum verkefnum sem bæði eru líkleg til að vekja athygli á þeim handritakosti sem deildin varðveitir og auka líkurnar á að fjármagn fengist til að vinna að nauðsynlegri skráninu í deildinni. Það má telja víst að handritadeildin gæti aflað sér drjúgra tekna með þessum hætti.
 • o Það er freistandi að huga að skipulagningu annars átaks með líku sniði og Dags dagókarinnar. Það þarf þá að skipa nefnd sem myndi hafa það hlutverk að koma með tillögu um hvernig best væri að standa að slíku átaki og hvað ætti að leggja áherslu á. Skynsamlegt væri að velja í slíka nefnd fólk sem bæði starfaði innan safnsins og utan og tryggja að yfirstjórn safnsins stæði heilshugar að baki slíku ásamt öllum starfsmönnum hverrar deildar.

Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns

Margt jákvætt kom út úr þessu átaki fyrir þjóðháttadeild og möguleikar hennar í framhaldi þessa átaks eru endalausir. Segja má að þjóðháttadeildin standi vel að vígi þar sem starfsmenn safnsins eru mjög opnir fyrir hvers konar tillögum sem líklegar eru til að treysta hinn mikla gagnagrunn sem deildin hefur byggt upp á síðustu áratugum. Huga þarf strax að því hvernig megi nýta hinn góða byr sem átakið gaf deildinni og þau tengsl sem það náði við þúsundir Íslendinga um land allt, á öllum aldri og með margskonar reynslu. Ég ætla að nefna nokkur atriði sem ég held að brýnt sé að huga að í framhaldi af þessari vinnu.

 • o Annað átak í líkingu við Dag dagbókarinnar kæmi sannarlega til greina, það er átak á landsvísu sem næði athygli allra landsmanna í einu. Til greina kæmi að ná samstarfi við héraðsskjalasöfnin um land allt í stað handritadeildarinnar og tryggja þannig að stofnanalegur stuðningur væri til staðar. Eftir samræður við forsvarsmenn nokkurra héraðskjalasafna þá er ég kominn á þá skoðun að þetta sé ekki gerlegt, meðal annars vegna þess að söfnin eru mjög illa mönnuð og víða eru það áhugamenn sem halda þeim upp í hlutastarfi. Það er skoðun mín að mun vænlegra til árangurs sé að stuðla að svæðisbundnu átaki sem næði aðeins til tiltekins landshluta í senn og þá í samvinnu við nokkur héraskjalasöfn á svæðinu. Þannig mætti tryggja mjög náið samstarf við skóla, sveitarfélög, svæðisútvörp, héraðsblöð og velunnara deildarinnar. Þarna yrði átakið mun nær grasrótinni og deildin myndi ná til stærri hóps og breiðari. Með þessu móti mætti vænta markvissari svörunar sem er meira í anda safnsins.
 • o Þýðingarmikið er fyrir deildina að setja sig í samband við hluta af því fólki sem sendi inn dagbók sína og fá það til að halda iðjunni áfram í einhvern tiltekinn tíma; til dæmis í eitt ár. Þetta mætti undirbúa mjög gaumgæfilega þannig að valinn yrði úr hópur af fólki, ef til vill þeir sem urðu fyrir valinu þegar sýnisbókin var tekin saman, og það beðið um að halda dagbók í eitt ár. Þetta eru rétt rúmlega eitt hundrað einstaklingar og ekki er ólíklegt að innan við tíu prósent þeirra myndu í raun takast á við verkefnið. Þannig fengist úrtak sem gæti gefið áhugaverða sýn á íslenskt samfélag. Lögð yrði áhersla á að fá þennan hóp til að fjalla um líf sitt á sem opnastan hátt og frá ýmsum hliðum. Hægt er að hugsa sér að þjóðháttadeildin myndi fá einhvern tiltekin fræðimann til þessa starfa, til að sinna útfærslunni á söfnunni og rannsóknum á efninu síðar. Ég er sannfærður um að hér væri komið efni sem væri vel styrkhæft og er það þýðingarmikið þar sem átak af þessu tagi gæti reynst nokkuð fjárfrekt. Sem dæmi má nefna að nauðsynlegt gæti reynst að heimsækja alla þá sem féllust á að taka þátt í átakinu og skýra nákvæmlega frá því hvernig það ætti að fara fram.
 • o Það væri snjallræði að taka saman texta um dagbókarátakið og helsta ávinning af því á heimasíðu Þjóðminjasafnsins og gefa lesendum hennar tækifæri á að senda áfram dagbókarskrif sín á heimasíðuna, ýmist til birtingar eða lokaða, líkt og Morgunblaðið gerði. Mikilvægt væri að búa svo um hnútana að auðvelt væri fyrir tölvuáhugamenn að vinna innan þessa umhverfis. Síðan ætti forstöðumaður deildarinnar að láta taka viðtal við sig í blöðum þar sem þessi möguleiki yrði kynntur og fólk hvatt til að taka þátt ótímabundið. Þarna fengi deildin tækifæri til að ná trausti þeirra sem kæmi inn á vefsíðuna með því að skýra út þær reglur sem gilda um birtingu og notkun þessara gagna.
 • o Nauðsynlegt er fyrir þjóðháttadeildina að fá fólk til að fara að vinna í þeim dagbókum sem bárust á Degi dagbókarinnar. Hægt er að hugsa sér að það myndi gerast með ýmsum hætti og þar kæmi einna helst til greina að hafa sambandi við fræðimenn í hug- og félagsgreinunum og kynna þeim niðurstöður átaksins og benda á möguleika til rannsókna sem þessar heimildir bjóða upp á. Vænlegast væri að halda fund með tilteknum hópi fræðimanna sem handvalinn yrði af forstöðumanni deildarinnar og hvetja þá til rannsókna og bjóða þeim alla aðstoð við að finna styrki og aðstöðu á deildinni ef með þyrfti.
 • o Hægt er að hugsa sér að þjóðháttadeildin gerði tilraun til að fá félagasamtök eða hópa í samfélaginu í lið með sér til að hrinda af stað staðbundnu dagbókarátaki. Við yfirlestur þeirrar dagbóka sem bárust í átakinu kom í ljós að fulltrúa ákveðna hópa vantar í þetta úrtak. Gaman hefði til dæmis verið ef fleiri öryrkjar hefðu tekið þátt, fangar, íþróttamenn og aðrir sem of langt mál væri að telja upp hér. Hægt er að hugsa sér að forráðamenn þjóðháttadeildar settu sig í samband við slíka hópa og færu þess á leit að þeir héldu dagbók í einn dag, eina viku eða einn mánuð ef því er að skipta. Þetta mætti einnig gera innan stjórnkerfisins þannig að allir starfsmenn fjármálaráðuneytisins, svo dæmi sé tekið, væru hvattir til að sinna verkefni af þessu tagi. Í raun eru möguleikarnir hér endalausir en mikilvægt væri að undirbúa hvert tilfelli gaumgæfilega.

Læt ég nú þessari skýrslu lokið. Dagur dagbókarinnar var okkur öllum minnistæður sem komum að honum og er það einlæg von okkar að árangur dagsins komi til með að efla og styrkja handritasöfnin tvö sem gegna svo þýðingarmiklu hlutverki við varðveislu og rannsóknir á íslenskri menningu. Það er einnig mikilvægt að hugsa stórt og reyna að fylgja þessu eftir í framtíðinni og verða þær tillögur sem hér er varpað fram vonandi til þess að greiða fyrir slíkri vinnu á næstu árum.

Sigurður Gylfi Magnússon, formaður Sagnfræðingafélags Íslands

Skrá yfir auglýsingar, fréttatilkynningar og umfjöllun blaða og tímarita

Sigrún Sigurðardóttir tók saman

Fréttatilkynningar

Helstu fjölmiðlum landsins voru sendar fjórar fréttatilkynningar:
- um miðjan september sendum við ítarlegar upplýsingar til helstu fjölmiðla.
- 6. október fengu fjölmiðlar fréttatilkynningu um dagbókarsýningu á Súfistanum.
- í kringum 10. október var fjölmiðlum send skýr skilaboð í formi fréttatilkynningar þar sem sagt var frá markmiði og framkvæmd átaksins á hnitmiðaðan hátt.
- fjölmiðlum var tilkynnt að alþingismenn mundu afhenda forsvarsmönnum átaksins dagbækur sínar í Kringlunni í Alþingishúsinu milli kl. 13:00 og 13:30 föstudaginn 16. október 1998.

Fjölda landsmálablaða og stéttarfélagsblaða var send fréttatilkynning og nákvæmar upplýsingar um Dag dagbókarinnar og framkvæmd átaksins. Enn hefur ekki verið unnt að taka saman hvar og með hvaða hætti fjallað var um Dag dagbókarinnar en má þó gera ráð fyrir að stór hluti þeirra blaða sem sendar voru upplýsingar hafi fjallað um málið með einum eða öðrum hætti.

Eftirfarandi landsmálablöðum voru sendar upplýsingar:
-Vesturlandspósturinn, Akranesi
-Bæjarins bestu á Ísafirði
-Vestri, Ísafirði
-Vesturlandspósturinn, Ísafirði
-Feykir á Sauðárkróki
-Einherji, Hvammstanga
-Víkurblaðið, Húsavík
-Vikudagur, Akureyri
-Hellan, Siglufirði
-Gálgás, Neskaupstað
-Austfirðungur, Egilsstöðum
-Eystrahorn, Hornarfirði
-Fréttabúi, Vík í Mýrdal
-Dagskráin, Vestmannaeyjum
-Fréttir, Vestmannaeyjum
-Dagskráin á Suðurlandi, Selfossi
-Suðurnesjafréttir, Reykjanesbæ
-Víkurfréttir, Njarðvík
-Fjarðarpóstuinn, Hafnarfirði
-Kópavogspósturinn, Hafnarfirði
-Mosfellsfréttir, Mossfellsbæ
-Austurland, Egilsstöðum

Eftirfarandi stéttarfélagsblöðum voru sendar upplýsingar:
-Fréttabréf félags Háskólakennara á Akureyri
-Fréttabréf félags íslenskra náttúrufræðinga
-Fréttabréf samtaka iðnaðarins
-Fréttabréf félags íslenskra leikara
-Fréttabréf Ættfræðingafélagsins
-Fréttabréf Sjálfsbjargar
-Vinnan, ASÍ
-BHMR – tíðindi
-Kennarablaðið
-Sæmundur, Fréttabréf SÍNE
-Skátamál
-Döff, fréttabréf Heyrarskertra

Umfjöllun í dagblöðum

Dagur - 29. september 1998
Heiti greinar: Allir haldið dagbók.
Höfundur: Blaðamaður Dags.
Lengd greinar: Tæplega ein síða.
Fjöldi mynda: 3 myndir.
Efni greinar: Viðtal við Kára Bjarnason um Dag dagbókarinnar. Meðal annars er fjallað um dagbók Magnúsar Hj. Magnússonar og hvernig Halldór Laxness nýtti sér hana þegar hann skrifaði söguna af Ólafi Kárasyni.

Lesbók Morgunblaðsins - 10. október 1998
Heiti greinar: Dagbókin - Persónuleg tjáning.
Höfundar: Sigurður Gylfi Magnússon og Davíð Ólafsson.
Lengd greinar: Tæplega þrjár síður.
Fjöldi mynda: 7 myndir.
Efni greinar: Kynning á dagbókum í Handritadeild Landsbókasafns Íslands auk þess sem fjallað er um dagbókina sem sagnfræðilega heimild.

Lesbók Morgunblaðsins - 10. október 1998
Heiti greinar: Fimmtán þúsund handritsnúmer í handritadeild. Um handritadeild Landsbókasafns Íslands og sögu söfnunar íslenskra handrita.
Höfundur: Kári Bjarnason.
Lengd greinar: Hálf síða.
Efni greinar: Saga og starfsemi handritadeildar Landsbókasafns Íslands.

Dagur - 10. október 1998
Heiti greinar: Dagbókardagurinn og heimildir á Þjóðháttadeild.
Höfundur: Hallgerður Gísladóttir.
Lengd greinar: 1 síða.
Fjöldi mynda: 3 myndir.
Efni greinar: Fjallað um Dag dagbókarinnar og í framhaldi af því um hlutverk og starfsemi Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins.

Sunnudagsblað Morgunblaðsins - 11. október 1998
Heiti greinar: Ómetanleg verðmæti í nýjum og gömlum dagbókum.
Höfundur: Anna G. Ólafsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu.
Lengd greinar: 2 síður.
Fjöldi mynda: 6 myndir.
Efni greinar: Umfjöllun um Dag dagbókarinnar; viðtal við Hallgerði Gísladóttur um Dag dagbókarinnar og Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins; viðtal við Davíð Ólafsson sagnfræðing um dagbækur á Handritadeild Landsbókasafnsins; viðtal við Erlu Huldu Halldórsdóttur sagnfæðing um dagbækur (einkum dagbækur kvenna) sem heimildir fyrir sagnfræðinga.

DV - Tilveran - 13. október 1998
Heiti greinar: Kæra dagbók.
Höfundur: Blaðamaður DV.
Lengd greinar: Ein síða.
Fjöldi mynda: 4 myndir.
Efni greinar: Viðtöl við þrjár einstaklinga sem lengi hafa haldið dagbók og dagbókarskrif þeirra tengd við umfjöllun um Dag dagbókarinnar.
Þeir einstaklingar sem talað er við eru: Guðrún Eggertsdóttir handritavörður sem hefur haldið dagbók í 33 ár, Örn Hrafnkelsson sagnfræðingur sem hélt dagbók sem barn og Bryndís Stefánsdóttir þjónustustjóri sem hefur haldið dagbók í 10 ár.

DV - Leiðari ritstjóra - 15. október 1998
Heiti greinar: Duldir fjársjóðir dagbókanna.
Höfundur: Össur Skarphéðinsson, ritstjóri DV.
Efni greinar: Fjallað er um Dag dagbókarinnar og lesendur DV eru hvattir til að Taka þátt í að skrifa söguna. Leiðarinn endar með þessum orðum: “Dagbókarátakið Er vel til fundið. Á tímum umbrota er hollt að minna okkur á að við sköpum söguna sjálf."

Dagur - Lífið í landinu - 15. október 1998
Heiti greinar: Venjulegur hvundagur.
Höfundur: Blaðamaður Dags.
Lengd greinar: 1 síða.
Fjöldi mynda: 4 myndir.
Efni greinar: Byrjað er að segja frá Degi dagbókarinnar og í framhaldi af því eru birtar dagbækur fjögurra einstaklinga sem héldu dagbók í einn dag í tilefni af Degi dagbókarinnar. Þessir einstaklingar eru: Sigríður Dóra Sverrisdóttir stuðningsfulltrúi, Auður Haralds blaðamaður, Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og Karl Sigurbjörnsson biskup yfir Íslandi.

Morgunblaðið - vefsíða
Heiti: Dagur dagbókarinnar.
Hönnuður:
Efni: Upplýsingar um Dag dagbókarinnar. Auk þess gátu notendur vefsíðunnar skrifað dagbók í sértiltekin reit og send inn til Þjóðminjasafnsins í gegnum internetið.

DV - Dagur í lífi - 17. október 1998
Heiti greinar: Dagur í lífi Kára Bjarnasonar “dagbókarmanns" á handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar: Að safna saman sögunni.
Höfundur: Blaðamaður DV.
Lengd greinar: Hálf síða.
Fjöldi mynda: 1 mynd.
Efni greinar: Dagur í lífi Kára Bjarnasonar með áherslu á undirbúningsstarf fyrir Dag dagbókarinnar.

Viðskiptablaðið - 20. október 1998
Heiti greinar: Hugarheimur atvinnurekanda.
Höfundur: Sigrún Sigurðardóttir.
Lengd greinar: 1 síða.
Fjöldi mynda: 4 myndir.
Efni greinar: Viðtal við Gunnar J. Friðriksson iðnrekanda í tengslum við heimildir sem hann mun annars vegar afhenda og hins vegar ánafna Handritadeild Landsbóka- safnsins í tilefni af Degi dagbókarinnar. Í viðtalinu kemur fram að Gunnar telur Handritadeildina eiga brýnt erindi við forsvarsmenn fyrirtækja í landinu, þar sem saga þeirra komi til með að grundvallast á varðveislu frumheimilda.

Viðskiptablaðið - 20. október 1998
Heiti greinar: Starfsemin grundvallast á trausti fólksins.
Höfundur: Sigrún Sigurðardóttir.
Lengd greinar: Tæplega ein síða.
Fjöldi mynda: 2 myndir.
Efni greinar: Umfjöllun um Dag dagbókarinnar með sérstakri áherslu á þátt Íslandspósts sem mun aðstoða dagbókarskrifara við að koma dagbókum sínum í örugga höfn á Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns.

DV - Fókus - 23. október 1998
Heiti greinar: Gaf Landsbókasafni ævistarfið. Dagbókin er mín kona. Guðmundur S. Lúðvíksson hefur haldið við hana í 62 ár.
Höfundur: Hallgrímur Helgason.
Lengd greinar: Rúmlega ein síða.
Fjöldi mynda: 1 mynd.
Efni greinar: Hallgrímur setur á svið viðtal við ímyndaðan dagbókarritara, Guðmund S. Lúðvíksson, sem hefur haldið dagbók í 62 ár og ætlar að afhenda Landsbókasafni hana.
Þá eru birt dagbókarbrot úr dagbók Guðmundar, 15. október 1936, 15. október 1945, 15. október 1962 og 15. október 1993.

Morgunblaðið - leiðari ritstjóra - 29. október 1998
Heiti greinar: Dagur dagbókar.
Höfundur: Matthías Johannesson/Styrmir Gunnlaugsson.
Efni greinar: Sagt frá því hversu vel hafi tekist við framkvæmd Dags dagbókarinnar. Í framhaldi af því er fjallað um mikilvægi persónulegra heimilda í sagnfræðirannsóknum.

Fréttasíður dagblaða
DV - 14. október 1998
Heiti fréttar: Dagur dagbókarinnar. Samtímaspegill landans.
Staðsetning: Bls. 11 í DV.
Mynd: 1 mynd.
Efni fréttar: Sagt frá Degi dagbókarinnar og upphafi þeirrar hugmyndar að fá sem flesta landsmenn til að halda dagbók. Viðtal við Kára Bjarnason.

Morgunblaðið - 15. október 1998
Heiti fréttar: Dagur dagbókarinnar. Von á mörgum dagbókum og handritum.
Staðsetning: Bls. 6 í Morgunblaðinu.
Mynd: 1 mynd.
Efni fréttar: Sagt frá Degi dagbókarinnar og dagbókarsýningu í Þjóðarbókhlöðu. Þá fylgir fréttinni viðtal við Kára Bjarnason.

Morgunblaðið - 15. október 1998
Heiti fréttar: Nýtt á mbl.is. Eigin dagbók á Netinu.
Staðsetning: Bls. 6 í Morgunblaðinu.
Efni fréttar: Kynning á dagbókarvef Morgunblaðsins þar sem gestum vefsíðunnar gefst kostur á að skrifa eigin dagbók og senda í gegnum netið til Þjóðminjasafnsins.

Vikudagur - 15. október 1998
Heiti fréttar: Dagur dagbókarinnar í dag: Amtsbókasafnið tengist honum ekki.
Höfundur: Jóhanna Þorsteinsdóttir.
Efni fréttar: Umfjöllunin byggist á fréttatilkynningu frá framkvæmdarnefnd átaksins en auk þess er bætt inn eftirfarandi fullyrðingu: “Ekki er hægt að koma dagbókunum til Amtbókasafnsins né Minjasafnsins þar sem þau eru ekki tengd þessum degi." Hvers vegna Jóhanna ákvað að loka Amtbókasafninu með þessum hætti fyrir gömlum handritum fylgir ekki sögunni.

Morgunblaðið - 16. október 1998
Heiti fréttar: Dagbækur og handrit steymdu inn.
Staðsetning: Bls. 30 í Morgunblaðinu.
Lengd fréttar: Rúmlega hálf síða.
Fjöldi mynda: 2 myndir.
Efni fréttar: Sagt frá Degi dagbókarinnar og hátíðardagskrá í Þjóðarbókhlöðu. Sagt frá þeim einstaklingum sem afhnentu eða ánöfnuðu safninu dagbækur sínar á athöfninni. Þá er sagt frá dagbókarsýningu í Þjóðarbókhlöðu og vitnað í ávarp Kára Bjarnasonar.

Morgunblaðið - 17. október 1998
Heiti fréttar: Þingmenn afhenda dagbókarskrif vegna dags dagbókarinnar. Sennilega best skráði dagurinn í Íslandssögunni.
Staðsetning: Bls. 10 í Morgunblaðinu.
Fjöldi mynda: 1 mynd.
Efni fréttar: Sagt frá því að þriðjungur Alþingismanna hafi afhent fulltrúum framkvæmdarnefndar átaksins dagbókarskrif sín fyrir daginn 15. október. Stutt viðtal við Kára Bjarnason, Hallgerði Gísladóttur og Sigurborgu Hilmarsdóttur.

Morgunblaðið - 18. október 1998
Heiti fréttar: 150 héldu dagbók á vefnum.
Staðsetning: Bls. 2 í Morgunblaðinu.
Efni fréttar: Sagt frá því að 150 manns hafi haldið dagbók á vefsíðu Morgunblaðsins.

Morgunblaðið - 28. október 1998
Heiti fréttar: Yfir fjögur þúsund manns skrifuðu dagbók.
Höfundur: Blaðamaður Morgunblaðsins.
Lengd fréttar: 1 síða.
Fjöldi mynda: 2 myndir.
Efni fréttar: Sagt frá því hversu góð viðbrögð landsmanna við Degi dagbókarinnar hafa verið. Sagt frá því að yfir fjögur þúsund manns hafi sent Þjóðháttadeild dagbók yfir 15. október og að um fimmtíu manns hafi komið með dagbækur og önnur handrit á Handritadeild Landsbókasafns. Tekið dæmi úr dagbók sem barst Þjóðháttadeild og tekið viðtal við Hallgerði Gísladóttur, Sigurborgu Hilmarsdóttur, Kára Bjarnason og Sigurð Gylfa Magnússon.

Greinar í tímaritum

Fréttabréf Háskóla Íslands - september 1998
Heiti greinar: D-dagur er fimmtánda október í ár.
Höfundur: Hallgerður Gísladóttir.
Lengd greinar: 1 síða.
Fjöldi mynda: 1 mynd.
Efni greinar: Sagt er frá Degi dagbókarinnar og þeim stofnunum sem standa á bakvið hann. Þá er birt brot úr heimildasafni Þjóðháttadeildar.

Heima er best - 9. tbl. september 1998
Heiti greinar: Persónulegar heimildir.
Höfundur: Hallgerður Gísladóttir.
Lengd greinar: 4 síður.
Fjöldi mynda: 8 myndir.
Efni greinar: Fjallað um Dag dagbókarinnar og Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins.
Tekin dæmi um hvernig nýta megi heimildir Þjóðháttadeildar.

Læknablaðið - október 1998
Heiti greinar:
Höfundur: Hallgerður Gísladóttir
Lengd greinar:
Fjöldi mynda:
Efni greinar:

Fréttabréf Félags eldri borgara - október 1998
Heiti greinar: Dagur dagbókarinnar.
Höfundur: Sigrún Sigurðardóttir.
Lengd greinar: 1 síða.
Fjöldi mynda: 1 mynd.
Efni greinar: Sagt er frá Degi dagbókarinnar og í framhaldi af þeirri umfjöllun er talað við Ingeborg Einarsson en hún er ein þeirra sem ætla að ánafna Handritadeild Landsbókasafnsins dagbækur sínar. Ingeborg hefur haldið dagbækur í 40 ár.

Hús og híbýli - 7. tbl. október 1998
Heiti greinar: Litið inn í horfinn heim.
Höfundur: Sigrún Sigurðardóttir.
Lengd greinar: Tvær síður.
Fjöldi mynda: 3 myndir.
Efni greinar. Greinin er skrifuð sem hvatning til lesanda um að afhenda gamlar dagbækur og bréf sem þeir kunna að hafa í fórum sínum á Handritadeild Landsbókasafns. Sem dæmi um þær heimildir sem er að finna á Handritadeild eru nefnd bréf Finns Jónssonar prófessors og birtur hluti af bréfi sem hann skrifaði árið 1885 en í því er að finna nákvæma lýsingu á húsnæði og húsbúnað.

Bændablaðið - október 1998
Heiti greinar:
Höfundur: Kári Bjarnason.
Lengd greinar:
Fjöldi mynda:
Efni greinar:

Stúdentablaðið - október 1998
Heiti greinar: Dagbók í einn dag.
Höfundur: Erna Kaaber, ritstjóri Stúdentablaðsins.
Lengd greinar: Hálf síða.
Fjöldi mynda: 1 mynd.
Efni greinar: Viðtal við Kára Bjarnason og fjallað um hvernig stúdentar geti lagt átakinu lið.

Ský - 5. tbl. 1998
Heiti greinar: Líf Ljósvíkings.
Lengd greinar: 1 síða.
Fjöldi mynda: 1 mynd.
Efni greinar: Viðtal við Sigurð Gylfa Magnússon. Fjallað um dagbækur sem heimildir með sérstakri áherslu á dagbók Magnúsar Hj. Magnússonar.

Lifandi vísindi - nóvember 1998
Heiti greinar:
Lengd greinar:
Fjöldi mynda:
Efni greinar: Fjallað um heimildargildi dagbóka og eðli dagbóka sem tjáningarforms. Þá er starfsemi póstþjónustunnar á Íslandi síðustu tvöhundruð árin tengd við Dag dagbókarinnar.

Önnur umfjöllun í dagblöðum og tímaritum

Fréttabréf Rannsóknarstofu í Kvennafræðum - 2 tbl. september 1998
Heiti greinar: Dagur dagbókarinnar 15. október 1998 - þjóðarátak.
Umfjöllun: Sagt er frá Degi dagbókarinnar og séstök áhersla lögð á dagbækur og aðrar heimildir frá konum.

Kennarablaðið - september 1998
Heiti greinar: Dagur dagbókarinnar.
Höfundur: Sigurborg Hilmarsdóttir.
Umfjöllun: Sagt er frá Degi dagbókarinnar og móðurmálskennarar eru beðnir um að styðja við átakið með því að hvetja nemendur sína til að halda dagbók og senda Þjóðminjasafni.

Vikan - 11. tbl. september 1998
Staðsetning: Í dálkinu “Ekki missa af."
Mynd: 1 mynd.
Umfjöllun: Sagt frá Degi dagbókarinnar og lesendur eru hvattir til að taka þátt í Dagbókarskrifunum og leggja þannig “eitt púsluspil í hina síbreytilegu mynd þar sem er Ísland samtímans."

DV - 28. september 1998
Heiti greinar: Dagur dagbókarinnar.
Staðsetning: Greinin birtist í PS ... dálki á menningarsíðum DV.
Höfundur: Silja Aðalsteinsdóttir.
Umfjöllun: Sagt frá Degi dagbókarinnar í stuttu máli.

Fréttabréf Sagnfræðingafélags Íslands - 6.tbl. október 1998
Heiti greinar: Dagur dagbókarinnar.
Höfundur: Sigurður Gylfi Magnússon.
Umfjöllun: Sagt frá Degi dagbókarinnar og sýningu á dagbókum í Þjóðarbókhlöðu.
Sagnfræðingar hvattir til að taka virkan þátt í átakinu.

Morgunblaðið - 9. október 1998
Heiti greinar: Sýning á möguleikum dagbókarinnar.
Umfjöllun: Sagt frá sýningu á möguleikum dagbókarinnar sem stendur yfir á Kaffihúsi Súfistans við Laugaveg í tilefni af Degi dagbókarinnar.

DV - Fókus - 9. október 1998
Staðsetning greinar: Í dálkinum Opnanir þar sem sagt er frá opnunum á sýningumum í Reykjavík.
Efni greinar: Sagt frá opnun sýningar á dagbókarfærslum í tegnslum við Dag Dagbókarinnar. Sýningin er á Kaffihúsi Súfistans í húsi Máls og menningar við Laugaveg.

DV - Fókus - 9. október 1998
Heiti greinar: Dagbók Keikós.
Höfundur: Hallgrímur Helgason.
Lengd greinar: 1 síða.
Efni greinar: Hallgrímur skrifar dagbók hvalsins Keikós (Sigga) og vísar til þess um leið að fimmtudaginn 15. október eru allir Íslendingar hvattir til að halda dagbók.

DV - 12. október 1998
Heiti greinar: D-dagurinn.
Staðsetning: Greinin birtist í PS ... dálki á menningarsíðum DV.
Höfundur: Silja Aðalsteinsdóttir.
Umfjöllun: Verið er að minna lesendur á Dag dagbókarinnar og þeir hvattir til að halda dagbók 15. október. Þá er einnig sagt frá sýningu á gömlum dagbókum í Þjóðarbókhlöðu.

DV - 15. október 1998
Heiti greinar: Hnýsnir sagnfræðingar.
Staðsetning: Sandkorn, fastadálkur í DV.
Höfundur: Reynir Traustason.
Umfjöllun: Fjallað er um dagbók sem viðfangsefni fræðimanna og sagt frá Degi dagbókarinnar.

DV - 16. október 1998
Heiti greinar: Dagbók Bridget Jones.
Staðsetning: Umfjöllunin birtist í PS ... dálki á menningarsíðum DV.
Höfundur: Silja Aðalsteinsdóttir.
Umfjöllun: Fjallað um Dag dagbókarinnar og lesendum um leið bent á að lesa eina helstu metsölubókina í dag, Dagbók Bridged Jones.

Læknablaðið ­ október 1998
Heiti greinar: Læknar, haldið dagbók 15. október.
Umfjöllun: Sagt er frá Degi dagbókarinnar og læknar hvattir til að halda dagbók “svo kynslóðir framtíðarinnar geti fræðst um það hvernig einstakir dagar í lífi lækna gátu verið haustið 1998."

Ský - 5. tbl. 1998
Heiti greinar: Dagur dagbókarinnar 15. október.

Umfjöllun í útvarpi

Ríkisútvarpið, Rás 1
Föstudagarnir 25. september og 2. október 1998.
Elísabet Brekkan spjallar við Sigurborgu Hilmarsdóttur um Dag dagbókarinnar.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins
Sunnudagurinn 5. október 1998.
Viðtal við Sigurborgu Hilmarsdóttur í hádegisfréttum.

Bylgjan - Þjóðbrautin
Fimmtudagurinn 15. október 1998.
Fjallað um sýningu á dagbókum á Súfistanum. Viðtal við Sigrúnu Sigurðardóttur og Auði Jónsdóttur en þær taka báðar þátt í sýningunni.

Ríkisútvarpið - Rás 1, Víðsjá
Föstudagurinn 10. október 1998.
Umræðuþáttur um dagbækur undir stjórn Ævars Kjartanssonar og Halldóru Jónsdóttur. Þátttakendur í umræðum voru: Sigurður Gylfi Magnússon, Sigrún Sigurðardóttir, Hannes Sigurðsson og Erlendur Sveinsson.

Ríkisútvarpið - Rás 1, Víðsjá
Frá mánudegi til fimmtudags, 13., 14., 15., og 16. október 1998.
Umfjöllun um dagbækur íslenskra bænda í tengslum við upplestur á Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness.

Ríkisútvarpið - Rás 2, Morgunútvarpið
Fimmtudaginn 15. október 1998.
Bein útsending úr Þjóðarbókhlöðu milli kl. 7:00 - 9:00.
Þeir sem koma fram í beinni útsendingu eru: Sigurður Gylfi Magnússon, Ögmundur Helgason, Hallgerður Gísladóttir, Svavar Hávarðarson dagbókarhöfundur og sagnfræðingur, Steingrímur Hermannsson fyrrum forsætisráðherra, Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur og Auðunn Bragi Sveinsson kennari og dagbókarhöfundur.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins
Fimmtudagurinn 15. október 1998.
Fjallað um Dag dagbókarinnar og tekið viðtal við Sigurð Gylfa Magnússon.
Umfjöllunin er bæði í hádegisfréttum og kvöldfréttum.

Ríkisútvarpið - Rás 1
Fimmtudagurinn 15. október 1998.
Jón Karl Helgason fjallar um dagbækur Halldórs Kiljans Laxness og tengir þá umfjöllun Degi dagbókarinnar.

Ríkisútvarpið - Rás 1, Víðsjá
Fimmtudagurinn 15. október 1998.
Fjallað um Dag dagbókarinnar og tekið viðtal við Sigurð Gylfa Magnússon.

Umfjöllun í sjónvarpi

Ríkissjónvarpið - Mósaík
Miðvikudagurinn 14. október 1998.
Viðtal við Önnudís Grétu Rúdolfsdóttur sem hélt dagbók þegar hún var barn og hefur ákveðið að afhenda dagbókina á Landsbókasafnið.

Ríkissjónvarpið - Fréttir kl. 23:00
Miðvikudagurinn 14. október 1998.
Fjallað um Dag dagbókarinnar og landsmenn hvattir til að halda dagbók.
Myndir úr handritageymslum Landsbókasafnsins.

Ríkissjónvarp - Fréttir kl. 20:00
Fimmtudagurinn 15. október 1998.
Umfjöllun um Dag dagbókarinnar.
Myndir frá hátíðardagskrá í Þjóðarbókhlöðu.
Viðtal við Hallgerði Gísladóttur og Steingrím Hermannsson.

Stöð 2 - Fréttir kl. 19:30
Fimmtudagurinn 15. október 1998.
Umfjöllun um Dag dagbókarinnar.
Myndir frá hátíðardagskrá í Þjóðarbókhlöðu.
Viðtal við Steingrím Hermannsson og Ingeborg Einarsson.

Ríkissjónvarp - Fréttir kl. 20:00
Föstudagurinn 16. október 1998.
Umfjöllun um Dag Dagbókarinnar með sérstakri áherslu á dagbækur alþingismanna. Viðtal við Hallgerði Gísladóttur. Myndir af forsvarsmönnum átaksins að taka við dagbókum alþingismanna í Alþingishúsinu.

Stöð 2 - Fréttir kl. 19:30
Föstudagurinn 16. október 1998.
Umfjöllun um Dag dagbókarinnar með sérstakri áherslu á dagbækur alþingismanna. Myndir af forsvarsmönnum átaksins að taka við dagbókum alþingismanna í Alþingishúsinu.

Auglýsingar

Veggspjöld
Heiti: Dagur dagbókarinnar. Fimmtudagur 15. Október 1998. Ertu til í að halda dagbók í dag?
Útlit: Veggspjaldið er í lit. Bakgrunnur er grænn og á honum eru þrjár myndir úr daglegu lífi fólks í nútímanum og ein mynd af gömlu handriti. Plakatið er tvískipt. Á vinstri helmingi þess er verið að hvetja fólk til að afhenda Landsbókasafni gömul handrit og á hægri helmingi þess er verið að hvetja landsmenn til að halda dagbók í einn dag.
Hönnun: Alda Lóa Leifsdóttir.
Prentun: Oddi. Veggspjaldið var prentað í 2500 eintökum.
Auglýsendur: Mál og menning kostaði gerð veggspjaldsins. Á veggspjaldinu eru “logo" Máls og menningar, Íslandspósts, Þjóðarbókhlöðu og Þjóðminjasafns.

Ríkissjónvarpið, vikuna 11.-16. október 1998 - Skjáauglýsing
Heiti: Komdu með dagbókina þína á næsta pósthús.
Útlit: Auglýsingin er í lit. Mynd af einstaklingi að fletta dagbók.
Auglýsingin birtist meðal annars í Ríkissjónvarpinu á undan fréttum kl. 20:00 þessa viku.
Hönnun: Auglýsingastofan Ydda.
Auglýsendur: Íslandspóstur kostaði auglýsinguna. Auk “logos" frá Íslandspósti eru á auglýsingunni “logo" frá Landsbókasafni, Þjóðminjasafni og Máli og menningu.

Ríkisútvarpið, vikuna 11.-16. október 1998


Heiti: Komdu með dagbókina þína á næsta pósthús.
Hönnun: Auglýsingastofan Ydda.
Auglýsendur: Íslandspóstur kostaði auglýsinguna.

Morgunblaðið - 14. október 1998
Heiti: Komdu með dagbókina þína á næsta pósthús.
Útlit: Auglýsingin er í lit. Á henni er mynd af einstakingi að fletta dagbók.
Lengd: 1/3 af síðu.
Staðsetning: Bls. 43 í Morgunblaðinu.
Hönnun: Auglýsingastofan Ydda.
Auglýsendur: Íslandspóstur kostaði auglýsinguna. Auk “logos" frá Íslandspósti eru á auglýsingunni “logo" frá Landsbókasafni, Þjóðminjasafni og Mál og menningu.

Mál og menning, Laugavegi, 9.-25. október 1998
Staðsetning: Útstillingargluggi Máls og menningar við Laugaveg.
Hönnun/umsjón: Sigrún Sigurðardóttir og Ástríður sem er starfsmaður Máls og menningar.
Lýsing: Veggspjöldum átaksins var stillt út í gluggann. Auk þess var 1/3 gluggans tekinn undir útstillingar á dagbókum, 1/3 undir útstillingar á skáldverkum og fræðiritum sem byggðust á notkun dagbóka og 1/3 undir eldri heimildir, t.d. tvö bréf frá fjórða áratug aldarinnar, gamla bankabók, gamalt skrín og gamlar bækur.

Mál og menning, Síðumúla, 15. október - 1. nóvember 1998
Staðsetning: Útstillingargluggi Máls og menningar í Síðumúla.
Lýsing: Veggspjöldum átaksins er stillt út í gluggann ásamt dagbókum af ýmsu dagi.

Fimmtán Kaffihús í Reykjavík og Hafnarfirði
Staðsetning: Mokka við Skólavörðustíg, Grái Kötturinn við Hverfisgötu, Svarta Kaffi við Laugaveg, Lóuhreiður við Laugaveg, Te og Kaffi við Laugaveg, Tíu dropar við Laugaveg, Súfistinn við Laugaveg, Grandrokk við Klapparstíg, Ljóti Andarunginn í Lækjargötu, Kaffi Frank í Lækjargötu, Kaffi París við Austurvöll, Geysir kakóbar við Vesturgötu, Kaffistofa FS í aðalbyggingu Háskóla Íslands, Kaffistofan í Þjóðarbókhlöðunni, Súfistinn í Hafnarfirði.
Lýsing: Átján dagbókum, merktar átakinu, var dreift á fimmtán kaffihús. Í bókunum er að finna ávarp til kaffihúsagesta og þeir eru beðnir um að rita hugsanir sínar í dagbækurnar.
Umsjón: Sigrún Sigurðardóttir.
Auglýsendur: Mál og menning kostaði gerð dagbókanna.


Sýningar

Sýning á gömlum dagbókum, 15. október - 1. nóvember 1998
Staðsetning: Andyri Þjóðarbókhlöðu.
Umsjón: Davíð Ólafsson.
Uppsetning: Davíð Ólafsson og Sigurður Gylfi Magnússon.
Lýsing: Fimm sýningarkössum var raðað upp í andyri Þjóðarbókhlöðu. Í þeim fyrsta er að finna dagbækur Finnboga Bernódussonar og Árna Þorvaldssonar. Í öðrum kassa er að finna dagbækur Ingibargar Hóseasdóttur, Tómasar Jónssonar, Björns Gunnlaugssonar, Jóns Jónssonar eldri og Jóns Jónssonar yngri. Í þriðja kassanum er að finna innsiglaðan böggul sem hefur að geyma heimildir frá Erlendi í Unuhúsi. Í sama kassa eru dagbækur Sighvats Borgfirðings Grímssonar og skrifpúlt hans. Í fjórða kassanum eru að finna dagbækur feðganna Davíðs Guðmundssonar, Ólafs Davíðssonar og Guðmundar Davíðssonar. Í fimmta kassanum eru að finna dagbækur Þórbergs Þórðarsonar, Jónasar Hallgrímssonar og Magnúsar Hj. Magnússonar. Þar er einnig handrit að verki Matthíasar Johannessen um Jónas Hallgrímsson.

Sýning á möguleikum dagbókarinnar
Staðsetning: Kaffihús Súfistans við Laugarveg.
Umsjón: Sigrún Sigurðardóttir.
Uppsetning: Vignir Jóhannsson.
Lýsing: Sex einstaklingar tóku þátt í sýningunni. Fékk hver fyrir sig að velja á milli tveggja ólíkra forma (tveggja stærða og tveggja lita til að nýta í bakgrunn). Hverjum þátttakanda var síðan falið að nýta sér þá möguleika sem dagbókarformið býður upp á. Þeir sem tóku þátt í sýningunni voru: Thor Vilhjálmsson, Ragna Garðarsdóttir, Sigrún Sigurðardóttir, Auður Jónsdóttir, Hallgrímur Helgason og Svanur Kristbergsson.


Handrit afhent í tilefni af Degi dagbókarinnar

Ögmundur Helgason
forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns tók saman


 • 1. - 12. október. Ólafur Elímundarson, cand.mag., fyrrv. bankastarfsmaður, afhenti kvæðabók föðurafa síns, Ögmundar Jóhannessonar, í Einarslóni og á Hellissandi, ásamt fleira efni, er honum tengist. Handritið var í eigu Jóhannesar Ögmundssonar og síðar sonar hans Ögmundar, en varðveitt hjá Elímundi og síðan Ólafi, sem afhenti það að beiðni frænda síns. - Einnig fylgir tölvuútskrift af þessu efni.
 • 2. - 14. október. Ólafur Elímundarson (sjá hér næst á undan) afhenti bréf frá Ólafi Sigurðssyni skipstjóra til konu sinnar, Christine. Er Ólafur afhendandi systursonur Ólafs skipstjóra.


 • 3. - 15. október. Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsætisráðherra, afhenti dagbók tengdaföður síns, Guðmundar Gíslasonar skólastjóra, 1920-21, sem Edda kona hans hefur varðveitt.


 • 4. - 15. október. Friðrik G. Gunnarsson afhenti fyrir hönd föður síns, Gunnars J. Friðrikssonar, formanns Vinnuveitendasambandsins, ýmis gögn Einars Ásmundssonar alþingismanns í Nesi, afa hans. Hafði Guðrún Magnússon sendiherrafrú varðveitt þessi gögn. Þar er meðal annars dag- og minnisbók og bréf til Einars á síðustu árum hans.


 • 5. - 15. október. Ásta S. Reynis afhenti dagbækur, samtíningsbækur og bréfasafn Þórðar Þórðarsonar Grunnvíkings frá því um og eftir síðustu aldamót. Kona Þórðar, Sólveig Jónsdóttir, hafði varðveitt þessi gögn, en síðan sonur þeirra, Indriði, og loks Ásta.


 • 6. - 15. október. Ólafur Engilbertsson leiktjaldahönnuður afhenti fimm skáldsögur (eina óheila) eftir langafa sinn, Rögnvald Guðmundsson á Uppsölum í Seyðisfirði eystra. Fram til þessa hefur Halldóra Daníelsdóttir, móðursystir afhendanda, varðveitt handritin.


 • 7. - 15. október. Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari afhenti dag- og færslubækur Páls Árnasonar lögregluþjóns í Reykjavík, 11 að tölu, frá árabilinu 1904-30.


 • 8. - 15. október. Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur afhenti dagbækur ömmu sinnar, Jóhönnu Sigríðar Arnfinnsdóttur, en þær hafði geymt Matthías Eggertsson, faðir hennar. Bækurnar eru 15 að tölu og ná yfir tímabilið 1930-65.


 • 9. - 15. október. Annadís Gréta Rúdólfsdóttir félagssálfræðingur afhenti tvær dagbækur, sem hún ritaði sem barn, 1974-75.


 • 10. - 15. október. Svavar Hávarðsson sagnfræðingur afhenti dagbækur, sem hann ritaði á bernskuárum sínum, 1978 og 1981-82.


 • 11. - 15. október. Svavar Jóhannesson verkamaður í Kópavogi afhenti dagbækur konu sinnar Hallfríðar Böðvarsdóttur frá Hrútsstöðum í Dalasýslu frá því upp úr 1980.


 • 12. - 15. október. Margrét Halldórsdóttir afhenti úr fórum Margrétar Sigurjónsdóttur æskuminningar föður hennar, Sigurjóns Gunnarssonar verkamanns og bílstjóra í Hafnarfirði.


 • 13. - 15. október. Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur afhenti fyrir hönd föður síns, Magnúsar Helgasonar forstjóra, efnahagsreikningabók 1908-21 og efnahagsbók 1922-32, fyrirtækisins Helgi Magnússon og Co í Reykjavík.


 • 14. - 15. október. Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur afhenti bréfasafn föðursystur sinnar, Katrínar Helgadóttur skólastjóra Húsmæðraskóla Reykjavíkur.


 • 15. - 15. október. Jón Þórarinsson afhenti tónlistargögn Markúsar Kristjánssonar tónskálds, sem Gunnlaugur Snædal prófessor færði honum til eignar fyrir um það bil tveimur áratugum.


 • 16. - 16. október. Sigríður Kristjánsdóttir læknaritari afhenti 3 dagbækur frá táningsaldri, 1984-90 (eiga að vera lokaðar til 2038), og pennavinabréf frá unglingum í ýmsum löndum.


 • 17. - 16. október. Séra Ragnar Fjalar Lárusson afhenti dagbók móðurföður síns, Björns Jónssonar, prófasts á Miklabæ í Skagafirði, yfir árið 1906.


 • 18. - 16. október. Björn Jóhannsson afhenti sjóferðadagbækur föður síns, Jóhanns Sigurbjörnssonar, og fleira efni frá um 1930 og fram undir þennan dag, samtals 23 bækur.


 • 19. - 16. október. Sigríður Þorgrímsdóttir sagnfræðingur afhenti fyrir hönd föður síns, Þorgríms Starra Björgvinssonar, og systkina sinna ýmis gögn er varða rithöfundarferil konu hans, Jakobínu Sigurðardóttur, handrit, bréfasafn, útgáfusamninga og fleira.


 • 20. - 16. október. Sesselja Þórðardóttir, Pálssonar bónda í Sauðanesi á Ásum í A.-Hún. afhenti dagbók afa síns, Páls Jónssonar í Sauðanesi, yfir tímabilið 1917-22, og einnig ljósrit af dagbók frá 1910, sem ekki er vitað hvar muni niður komin, ásamt tölvuútskrift.


 • 21. - 16. október. Guðmundur Guðni Guðmundsson kennari og rithöfundur afhenti eigin gögn, meðal annars annála sem hann hefur tekið saman frá landnámsöld.


 • 22. - 17. október. Sigrún Jónsdóttir spænskunemi afhenti bréfasafn móður sinnar, Sigríðar Steingrímsdóttur kaupkonu, og foreldra hennar, Steingríms Björnssonar gjaldkera í Landsbankanum og konu hans Emilíu K. Bjarnadóttur.


 • 23. - 17. október. Margrét Gunnarsdóttir afhenti fyrir hönd Margrétar og Ingibjargar Þorsteinsdætra dagbóka- og bréfasafn Ara Brynjólfssonar alþingismanns á Þverhamri í Breiðdal. Anna Kristín Aradóttir hafði varðveitt þessi gögn, en Margrét og Ingibjörg eru dætur hennar.


 • 24. - 19. október. Borghild Jónsson hjúkrunarkona afhenti nokkur viðbótargögn, námsskýrslur og fleira, sem varða mann hennar, Björn Jónsson skólastjóra (sbr. Aðfangabók 8. maí 1981 og 8. apríl 1992).


 • 25. - 19. október. Svala Magnúsdóttir afhenti eftirfarandi gögn föður síns, Magnúsar V. Jóhannessonar skipasmiðs: Ferðadagbók frá skipasmíðaferð til Kolding í Danmörku 1917, gögn barnastúkunnar Unnar í Reykjavík og fleira.


 • 26. - 19. október. Einar Bragi Sigurðsson skáld afhenti reikningabók og tvær dagbækur séra Jóhanns Þorkelssonar dómkirkjuprests frá árunum 1896-1908 og 1929-36. Þessar bækur fann Einar í kjallara húss þess, sem hann keypti og býr í við Suðurgötu hér í borg.


 • 27. - 19. október. Ögmundur Frímannsson símamaður afhenti vinnudagbækur móðurbróður síns, Guðlaugs Narfasonar verkamanns í Reykjavík 1937-42, alls fjórar bækur, auk umslags með lausum miðum.


 • 28. - 19. október. Guðsteinn Þengilsson læknir afhenti dagbækur sínar frá árunum 1941-66.


 • 29. - 19. október. Kristinn Snæland farmaður og leigubílstjóri afhenti fjórar sjóferðabækur á Mælifelli 1980-83.

 • 30. - 20. október. Anna Guðmundsdóttir húsmæðraskólakennari afhenti 29 dagbækur sínar frá námsárunum í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og jafnframt kennsluárum í sama skóla, 1958-98.


 • 31. - 20. október. Guðrún Bjarnadóttir menntaskólakennari afhenti uppskriftir Rögnvalds Hjartarsonar úr Ólafsdalsskóla 1896, en hann var föðurfaðir hennar.


 • 32. - 21. október. Alma Elísabet Arason afhenti bréfaskipti Guðrúnar Björnsdóttur Arason, síðast á Sauðárkróki, við systur sínar, Sigrúnu (kaupmannsfrú Laxdal) og Kristínu (fyrsta fulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum) og fleiri.


 • 33. - 26. október. Komu í pósti - án nokkurrar meðfylgjandi bendingar - tvö ljóð í eiginhandarriti Jóns Helgasonar prófessors í Kaupmannahöfn.


 • 34. - 27. október. Sveinn Indriðason garðyrkjufræðingur afhenti veðurdagbók frá hluta árs 1944 og dagbók yfir verknám í Garðyrkjuskóla Íslands 1951-53.


 • 35. - 28. október. Sigrún Sigurðardóttir sagnfræðingur afhenti fyrir hönd föður síns, Sigurðar Ingvarssonar deildarstjóra hjá Flugleiðum, "Dagbók fyrir verknám á Hvanneyri 1952-53". Einnig var afhent bréfasafn Sigfríðar Tómasdóttur, móður Ingvars.


 • 36. - 28. október. Vigdís Jónsdóttir á Selfossi sendi í pósti "Vinnubók í snyrtingu" frá námskeiði sem haldið var skömmu eftir 1960.


 • 37. - 29. október. Ólafur Jón Ólafsson fulltrúi afhenti dagbók frá 1870-71, er verið hafði í eigu föður hans, Ólafs Helgasonar læknis, en óvíst er hver ritað hefur [Björn Jónsson ritstjóri?].


 • 38. - 2. nóvember. Skúli Halldórsson tónskáld afhenti handrit af 15 kammerverkum. (Sjá einnig 28. ágúst).


 • 39. - 6. nóvember. Thorvaldsens-konur afhentu frumrit af jólamerkinu í ár.


 • 40. - 12. nóvember. Keyptar af Sigríði Helgadóttur fornbókasala nótur Þórarins Guðmundssonar að lagi hans "Dísa".


 • 41. - 13. nóvember. Dóra Thoroddsen bókavörður afhenti Huldu, kvæðaskrínu Framtíðarmanna í M.R. 1923-25, Sváfni, blað gagnfræðadeildar M.R. 1919-23 og félagatal Hins Íslenzka stúdentafélags 1913-17, og 1924-29. Þessar bækur höfðu legið í Bústaðaútibúi Borgarbókasafns.

 • 42. - 16. nóvember. Lilja Árnadóttir afhenti úr Þjóðminjasafni trékistu, sem í er seðlasafn Páls Þorkelssonar gullsmiðs, einkum með málsháttum.

 • 43. - 18. nóvember. Böðvar Kvaran afhenti stórfólíant, sem í eru tvö bindi af Sýslumannaævum Boga Benediktssonar í Flatey, uppskrifaðar og auknar af Friðrik Eggerts 1836 og 1838.

 • 44. - 18. nóvember. Sigríður Kristjánsdóttir læknaritari afhenti fjórtán dagbækur í tveimur kössum, í framhaldi af þeim sem bárust 16. október. Hvíla sömu kvaðir á þessum bókum og hinum fyrri.

 • 45. - 19. nóvember. Ólafía Sigurðardóttir meinatæknir á Selfossi afhenti gjörðabók Kvenfélags Stokkseyrar 1923-30. Hún afhenti einnig gögn Guðrúnar Sigurðardóttur og Andrésar Ólafssonar, langömmu og langafa hennar í kvenlegg, sem bjuggu í Beinateig á Stokkseyri.

 • 46. - 20. nóvember. Sigríður og Rúnar Guðmannsbörn afhentu akstursbækur föður síns, Guðmanns Hannessonar bifreiðarstjóra í Reykjavík.

 • 47. - 23. nóvember. Lúðvík Kristjánsson afhenti afrit af eigin bréfum, en þeim hefur hann haldið saman frá 1964.

 • 48. - 30. nóvember. Svanur Jóhannesson prentari afhenti ljóð eftir föður sinn, Jóhannes úr Kötlum, er hann orti til konu sinnar á fyrstu jólum eftir fæðingu sonarins og lítið kvæðakver, sem hann orti og gaf Margrétu Gísladóttur í Hjarðarholti í Dölum árið 1910.


 • 49. - 2. desember. Matthías Johannessen ritstjóri afhenti vélrit að kvæðinu um Stubb eftir Tómas Guðmundsson með handskrifuðum breytingum.


 • 50. - 9. desember. Björn Ingvi Stefánsson, verkefnisstjóri í iðnaðarráðuneyti, afhenti leifar af ræðu- og bænasafni og fjögur bréf föðurföður síns, séra Björns Stefánssonar á Sandfelli í Öræfum.


 • 51. - 10. desember. Gyða Jóhannsdóttir afhenti gögn úr dánarbúi föður síns, Jóhanns Sæmundssonar læknis og alþingismanns.


 • 52. - 14. desember. Jón Kristinsson, forstöðumaður Dvalarheimilis aldraðra í Skjaldarvík, afhenti dagbækur sínar á timabilinu 1966-85.


 • 53. - 14. desember. Margrét Gísladóttir á Þjóðminjasafni afhenti bréf frá útlendingum til móðurföður síns, Sigurðar Jónssonar skólastjóra og bæjarfulltrúa í Reykjavík, en hann var stundum við leiðsögumannsstörf yfir sumartímann.


 • 54. - 18. desember. Páll Lýðsson í Litlu-Sandvík í Flóa afhenti átta síðustu sendibréfin, sem send voru Gesti Einarssyni á Hæli. Ágústa Einarsdóttir, systir Gests, bað Pál fyrir þessi bréf.


 • 55. - 28. desember. Svavar Sigmundsson forstöðumaður Örnefnastofnunar afhenti ungmennafélagsblaðið Viljann, 1922-34, úr Steingrímsfirði. Guðbrandur Magnússon á Siglufirði hafði komið blaðinu til Örnefnastofnunar.


 • 56. - 29. desember. Böðvar Guðmundsson sendi frá Nivå bréfasafn og fleiri gögn foreldra sinna og eldri ættmenna, meðal annars frá Vesturheimi. (Sameinist sams konar gögnum frá Sigurði, bróður hans.)


 • 57. - 8. janúar. Sótt til Gunnars J. Friðrikssonar, formanns Félags íslenskra iðnrekenda gögn föður hans, Friðriks Einarssonar iðnrekanda. Þar er meðal annars að finna ættargögn, svo sem Einars Ásmundssonar í Nesi í Aðaldal, föður Friðriks. (Sjá einnig 15. október).


 • 58. - 18. janúar. Sif Sigurðardóttir, systir Þorbjargar Leifs, afhenti, ásamt Árna Heimi Ingólfssyni, 17 möppukassa með ýmsum gögnum Jóns Leifs.


 • 59. - 18. janúar. Hallsteinn Sigurðsson myndhöggvari afhenti eftirfarandi gögn: dagbók frá 1982-99, ævisögudrög frá 1961-82, minningabrot um Hallstein Sveinsson, föðurbróður afhendanda, gestabækur frá eigin sýningum og fleira.


 • 60. - 2. febrúar. Ásta Valdimarsdóttir kennari afhenti nótnasöngbók, sem séra Sigtryggur Guðlaugsson á Núpi, afabróðir hennar, gerði og tileinkaði Ólöfu Sigtryggsdóttur, fyrri konu sinni. Þessa bók hafði Sigtryggur gefið Ólöfu Kristinsdóttur, bróðurdóttur sinni, sem bar nafn konu hans. Ólöf yngri dó barnlaus og gaf síðan Ástu, bróðurdóttur sinni, bókina.


 • 61. - 3. febrúar. Sigmundur Magnússon læknir og Guðbjörg Sigurgeirsdóttir afhentu handrit að óútgefinni þýðingu á Lorna Doone eftir R.G. Blackmore. Þetta handrit hafði verið í fórum Svanhildar, systur Guðbjargar, sennilega komið frá Sigurgeiri Sigurðssyni biskupi, föður þeirra. Svo er að sjá sem þýðingin sé eftir Jóhannes Eiríksson (1864-1948) í Winnipeg, en hann muni hafa sent hana hingað heim til að reyna að koma henni á prent.


 • 62. - 9. febrúar. Leifur Sveinsson lögfræðingur afhenti ferðadagbækur Elínar Magnúsdóttur, þriðju eiginkonu föður síns, Sveins Jónssonar í Völundi.


 • 63. - 10. febrúar. (Sibyl Urbancic afhenti ljósrit af doktorsritgerð föður síns, Vicors (Urbantschitsch - eins og nafnið var ritað þá - en frumritið er varðveitt í Háskóla-bókasafni Vínarborgar).
 • TENGLAR:
  microhistory.org
  ReykjavíkurAkademían English webpage
  © 2006 - Sigurður Gylfi Magnússon