dr. Sigurður
Gylfi
Magnússon

Miðstöð einsögurannsókna


Center for Microhistorical Research
at
The Reykjavik Academy
Hringbraut 121, 107 Reykjavík, Iceland
microhistory.org

Dr. Sigurður Gylfi Magnússon (Chair)
sigm@akademia.is
www.akademia.is/sigm
(+ 354) 562-2989 (work); 847-1190 (mobile)

Miðstöð einsögurannsókna (Me) er rannsóknarstofnun í ReykjavíkurAkademíunni. Forstöðumaður hennar er dr. Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur og forgangsmaður einsögunnar á Íslandi. Hlutverk Miðstöðvar einsögurannsókna er að standa að sjálfstæðum rannsóknum á sviði einsögu, miðla og gefa út fræðiverk þar sem aðferðir einsögunnar eru nýttar, stuðla að grunnrannsóknum á fjölbreyttum tegundum persónulegra heimilda í handritum ásamt því að vinna að þróun aðferða- og hugmyndafræði einsögunnar í framtíðinni. Mikilvægur hlekkur í starfi Me eru samskipti við erlenda fræðimenn sem hafa lagt stund á einsögurannsóknir og stefnt er að því að Me verði alþjóðlegur vettvangur fyrir einsögurannsóknir. Slíka miðstöð er hvergi að finna í heiminum. Í því skyni mun Me starfrækja gagnagrunn og alþjóðlega heimasíðu microhistory.org undir stjórn þeirra Davíð Ólafssonar sagnfræðings og Sigurðar Gylfa Magnússonar þar sem hægt verður að finna upplýsingar um alla þætti einsögurannsókna og kennslu á þessu sviði.

Meginmarkmið:

 • Að stuðla að vinnslu rannsóknarverkefna sem nýta sér aðferðir og hugmyndafræði einsögunnar, einkum á sviði íslenskrar félagssögu með áherslu á alþýðumenningu síðari alda.
 • Að hrinda í framkvæmd stóru rannsóknarverkefni sem felst í söfnun og greiningu persónulegra heimilda í samvinnu við handritasöfn í landinu. Þetta verkefni mun verða ein af kjölfestunum í starfi Me og undirstaða fyrir frekari rannsóknir með aðferðum einsögunnar. Verkefnið er viðamikið og krefst sérfræðiþekkingar þeirra sem unnið hafa með persónulegar heimildir.
 • Að gefa út verk sem teljast til einsögurannsókna í formi bóka, tímaritsgreina og með stafrænni miðlun.
 • Að þróa áfram aðferðir einsögunnar og halda uppi gagnrýnni umfjöllun um aðferðir og hugmyndafræði hennar, bæði innanlands og erlendis.
 • Að vinna að mótun alþjóðlegrar heimasíðu microhistory.org sem verður vettvangur fyrir einsögurannsóknir í heiminum. Heimasíðunni og gagnagrunninum er jafnframt ætlað að vera upplýsingaveita fyrir þessar tegundir rannsókna og stökkpallur íslenska einsöguskólans út í heim.
 • Að halda stóra alþjóðlega ráðstefnu á Íslandi sumarið 2005 um einsögu sem mun bera heitið Microhistory at the Crossroads. Hún verður unnin í samvinnu við Fulbright-stofnunina í Bandaríkjunum og á Íslandi, Carnegie Mellon University og verkefnið Hugmyndir á 21. öld (H21) sem er röð rannsóknarstefna á vegum ReykjavíkurAkademíunnar.
 • Að taka saman efni sem er vel til þess fallið að nýta til kennslu á öllum skólastigum, en einsagan er einstaklega heppileg aðferð við kennslu. Mikið starf er óunnið á þessu sviði.
 • Að hanna námskeið á háskólastigi þar sem áherslan er lögð á aðferðir einsögunnar með það í huga að bjóða slíkt efni bæði íslenskum og erlendum háskólastofnunum á veraldarvefnum.
 • Að byggja upp nýja alþjóðlega námsbraut á doktorsstigi í samvinnu við erlenda háskóla þar sem boðið verður upp á samfellt nám meðal annars á veraldarvefnum með doktorsritgerð sem lokamarkmið.
 • Að stuðla að því að ungt og efnilegt fræðafólk fái tækifæri til að vinna að einsögurannsóknum í framtíðinni með útgáfu í huga. Me er ætlað að verða öflug stuðningsstofnun fyrir yngsta hóp fræðimanna hér á landi.

Starfsemi og skrifstofa Miðstöðvar einsögurannsóka eru í ReykjavíkurAkademíunni með tengsl við innlenda og erlenda fræðimenn. Me verður ætlað það hlutverk að verða sannkölluð miðstöð rannsókna og fræða og mun leitast við að gegna ríku þjónustuhlutverki bæði hér á landi og á alþjóðlegum vettvangi. Með því er ætlunin að efla sóknarfærin fyrir íslenska fræðimenn á þessu sviði bæði í sambandi við fjármagn og rannsóknir.

Yfirlýsing forstöðumanns:

Frá árinu 1985 hef ég unnið með ýmsar tegundir persónulegra heimilda og birt niðurstöður rannsókna minna hér á landi og erlendis. Persónulegar heimildir eru flóknar og fjölþættar sögulegar heimildir sem erfitt getur verið að nýta við rannsóknir í hugvísindunum. Til þess að ná tökum á margbreytilegri gerð þeirra og umfangi hefur mér farnast best að leita á náðir einsögunnar. Á síðasta áratug hefur einsagan verið í mótun meðal nokkurs hóps fræðimanna hér á landi og í dag er hægt að ræða um sérstakan íslenskan einsöguskóla. Hann markast af tilraunum fræðimanna til að beita persónulegum heimildum við sagnfræðirannsóknir á frjóan og uppbyggilegan hátt. Af þessum ástæðum hefur áhugi minn einkum beinst að hugmyndalegri uppbyggingu sagnfræðirannsókna og þar hef ég gert tilraun til að hafa áhrif á þróun og stefnu einsögurannsókna í heiminum í dag með markvissum hætti. Vegna þessa þróunarstarfs íslenska einsöguskólans tel ég nú vera lag til að takast á við stærri og flóknari verkefni á sviði sagnfræði og hafa þannig jákvæð áhrif á framgang fræðanna hér á landi og erlendis.

Verkefni Me:

Rannóknarverkefni sem verið hefur í vinnslu hjá Me á undanförnum árum og snýr að úttekt á aðferða- og hugmyndafræði sagnfræðinnar. Það ber heitið Félagssögurannsóknir á nýrri öld - Aðferðir og hugmyndir. Reiknað er með að það verði tilbúið til útgáfu á næstu misserum og komi út á íslensku. Þessi endurskoðun á aðferðum í sagnfræði verður einnig birt í fagtímaritum hér á landi og erlendis. Sjá til dæmis grein í Journal of Social History (spring 2006).

Rannsóknarverkefni sem nefnist Einsögurannsóknir - merking og möguleikar og er yfirgrips mikil könnun á stöðu einsögurannsókna í heiminum í dag sem er styrkt af Rannís. Rannsóknin verður gefin út á bók á ensku á næstu árum.

Söfnun og greining persónulegra heimilda er rannsóknarverkefni sem er ætlað að styrkja til muna allan aðgang fræðimanna í framtíðinni að þessum fjölbreytta heimildaflokki. Á handritasöfnum er að finna mikið magn persónulegra heimilda sem nýtast afar illa vegna þess að skráning einkaskjala er takmörkuð. Með markvissu átaki má gjörbreyta aðgengi fræðimanna að þessum heimildaflokkum og stuðla um leið að greiningu þeirra með aðferðum einsögunnar. Annar þáttur þessa verkefnis er söfnun munnlegra heimilda í samvinnu við þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands. Verkefnið er mannfrekt en niðurstaða þess kemur til með að auðvelda fræðimönnum hér á landi störf þeirra til muna og auka líkur á að persónulegar heimildir verða nýttar við vísindarannsóknir.

Útgáfustefna: Miðstöð einsögurannsókna byggist á þeirri hugsjón að halda uppi markvissri umræðu um hugvísindi með miðlun efnis á margvíslegan hátt; að halda uppi samfelldri rökræðu um nýjar strauma og stefnur í sagnfræði á opinberum vettvangi. Í því sambandi verður efni komið á framfræði í gegnum tvær ólíkar ritraðir. Í fyrsta lagi Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar sem bæði telst til heimildaútgáfu og gefur einnig út almenn höfundarverk. Úgáfan var stofnuð árið 1997 og hefur verið gefin út í samstarfi við Háskólaútgáfunar og ritstjóra (Davíðs Ólafssonar, Más Jónssonar og Sigurðar Gylfa Magnússonar). Í öðru lagi er það Nafnlausa ritröðin sem alfarið er á vegum Me. Fyrsta bókin í þeim flokki kom út árið 1998 og nefndist Einsagan - ólíkar leiðir. Átta ritgerðir og eitt myndlistarverk í ritstjórn Erlu Huldu Halldórsdóttur og Sigurðar Gylfa Magnússonar. Gert er ráð fyrir að á næstu árum komi ein bók út á ári og að þær verða bæði unnar af reyndum einsögufræðingum og einnig ungu fræðafólki. Nú þegar hefur Miðstöð einsögurannsóknar gefið út eftirfarandi verk:

 • Sigurður Gylfi Magnússon, Snöggir blettir (Reykjavík: Miðstöð einsögurannsókna og Ljósmyndasafn Reykjavíkur, 2004).
 • Sigurður Gylfi Magnússon, Fortíðardraumar. Sjálfsbókmenntir á Íslandi. Gestaritstjóri Guðmundur Hálfdanarson. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 9 (Reykjavík: Háskólaútgáfan í samráði við Miðstöð einsögurannsókna, 2004).
 • Sigurður Gylfi Magnússon, Sjálfssögur. Minni, minningar og saga. Gestaritstjóri Soffía Auður Birgisdóttir. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 11 (Reykjavík: Háskólaútgáfan í samráði við Miðstöð einsögurannsókna, 2005).
 • Loks kemur út vorið 2006 ritgerðasafnið Frá endurskoðun til upplausnar í ritstjórn Hilmu Gunnarsdóttur, Jóns Þórs Péturssonar og Sigurðar Gylfa Magnússonar og Me stendur að í samvinnu við RA.

Fleiri bækur eru í smíðum sem munu birtast á næstu árum.

microhistory.org er fræðilegur vettvangur á veraldarvefnum sem er unninn í samvinnu við fjölmarga innlenda og erlenda aðila. Kostnaðurinn við rekstur og uppsetningu þessa vefjar er umtalsverður. Búast má við að mikill tími starfsmanna Me muni fara í mótun þessa grunnþáttar í starfi miðstöðvarinnar. Þarna verður stefnt að því að fram fari kennsla í alþjóðlegu samhengi undir formerkjum einsögunnar og þar verði meðal annars unnið með alþjóðlegum doktorsnemum sem hafa sérhæft sig á þessu sviði. Davíð Ólafsson sagnfræðingur mun hafa umsjón með þessum vef í samstarfi við Sigurð Gylfa Magnússon.

Alþjóðleg ráðstefna hefur verið í undirbúningi undir heitinu Microhistory at the Crossroads. Óvíst er hvenær af henni getur orðið en hún er á dagskrá Me. Verkefnið er bæði mjög kostnaðarsamt og tímafrekt. Í sambandi við þessa ráðstefnu hafa nú þegar tekist samningar við heimsþekkt fagtímarit í Bandaríkjunum sem heitir Journal of Social History um að það verði með sérstaka útgáfu í tilefni af þessari ráðstefnu. Ráðstefnuhald almennt um einsögu verður snar þáttur í starfi Me. Fyrsta ráðstefna sem Me stóð fyrir var um hina frægu konu Veru Hertzsch og nefndist: "Vera Hertzsch og hreinsanirnar miklu" sem var haldið í Þjóðarbókhöðu 15. mars 2003.

Þýðingar nokkurra lykilverka einsögunnar í heiminum eru á dagskrá Me. Framundan er þýðing á hinni heimþekktu bók Carlo Ginzburg, Osturinn og ormarnir og er hún væntanleg til útgáfu á næstu árum í Lærdómsritaröð Hins íslenska bókmenntafélags.

Fyrirlestra verða haldnir með reglulegu millibili á vegum Me í ReykjavíkurAkademíunni. Lögð verður áhersla á að fá sem flesta fræðimenn til að tala um nýja strauma í hugvísindum hvort sem það tengist einsögunni beint eða óbeint.

Einsagan og þróun hennar:

Ítalskir sagnfræðingar hófu tilraunir með aðferðafræði sagnfræðinnar fyrir rúmum tuttugu árum sem síðar voru kenndar við einsöguna. Fremstir í flokki voru fræðimenn á borð við þá Carlo Ginzburg, Giovanni Levi, Guido Ruggiero og Edward Muir sem allir tileinkuðu sér róttæka hugmyndafræði einsögunnar. Eitt megineinkenni hennar var að hún gekk í berhögg við viðurkenndar vinnuaðferðir félagssögumanna á áttunda og níunda áratug tuttugustu aldar. Fræðitilraunir nokkurra þýskra sagnfræðinga hafa og mjög sveigst í sömu átt og þá undir heitinu Alltagsgeschichte, eða hversdags saga. Hið sama er að segja af hópi fræðimanna í Bandaríkjunum sem og í hinum gömlu menningarríkjum Vestur-Evrópu; hópum saman hafa þeir flykkt sér undir merki hinnar nýju menningarsögu sem sver sig í ætt við einsöguna. Vegur einsögunnar hefur vaxið jafnt og þétt og á síðustu tíu árum hefur hún hlotið verðskuldaða athygli í fræðaheiminum. Nú um stundir má telja hana með framsæknustu aðferðum innan hugvísindanna sem enn er í mikilli gerjun.

Helstu einkenni einsögunnar:

 • Rannsóknareiningar sem eru undir smásjánni eru mun minni en tíðkast í öðrum félagssögurannsóknum.
 • Staða einstaklingsins í sagnfræðirannsóknum er gert hátt undir höfði og leitast er við að leiða fram viðhorf hans til samfélagsbyggingarinnar.
 • Eðlilegar undantekningar (normal exception) er hugtak sem einsögumenn leggja áherslu á að vinna með en það snýst um að rannsaka þá sem eru á einhvern hátt óvenjulegir eða hafa bundið bagga sína öðrum hnútum en samferðamennirnir.
 • Aðferð um sönnunarstefnu (the evidential paradigm) byggir á þeirri trú að þegar unnið er með smáar rannsóknareiningar verði hin svonefnda "vísindalega rannsóknaraðferð" að víkja fyrir óljósum vísbendingum sem gætu leitt til lausnar á rannsóknargátunni. Þá gefst tækifæri til að bera sama lík fyrirbæri sem koma út ólíku umhverfi.
 • Afhjúpun óformlegra merkja og ímynda sem eru óháðar valdastofnunum samfélagsins.
 • Áhersla á hlutverk frásagnarinnar við rannsókn, vinnslu og framsetningu sagnfræðilegs efnis.
 • Áhersla á að tengja rannsóknareininguna við stærri heildir (contextualization).

Hér hafa verið nefnd nokkur helstu atriði sem einkennt hafa einsögurannsóknir á síðari árum. Flest leika þau lykilhlutverk við einsögurannsóknir og hafa mótað viðfangsefni fræðimanna sem hafa leitað í smiðju þessarar hugmyndafræði víða um heim.

Íslenski einsöguskólinn hefur einkum lagt áherslu á að beita aðferðum einsögunnar við notkun persónulegra heimilda í rannsóknum. Í því samanbandi hefur verið unnið að útgáfu persónulegra heimilda í bókaflokknum Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar, en nú þegar hafa verið gefnar út á annan tug bóka í þeim flokki og fleiri eru í smíðum. Unnið hefur verið ákveðið þróunarstarf sem hefur stefnt einsögurannsóknum hér á landi í aðra átt en þær hafa ratað annars staðar í heiminum. Aðferðir hluta íslenska einsöguskólans hafa verið umdeildar bæði hér heima og erlendis.

Einvæðing sögunnar er nýtt afbrigði einsögunnar. Hún er marviss gagnrýni á hefðbundnar einsögurannsóknir og felst í þeirri einföldu aðgerð að skera á tengslin við stórsögurnar (grand narrative) sem búa yfir þeim eiginleikum að stjórna niðurstöðum rannsókna í hugvísindum. Þetta þýðir í raun að rannsóknareiningin er ekki sett í tengsl við stærri heildir. Einvæðing sögunnar gengur út á það að fræðimaðurinn einbeiti sér að þeim rannsóknareiningum sem eru til meðferðar og geri tilraun til að draga fram öll þau tákn og merkingar sem þar er að finna. Einvæðingarferlinu er hér teflt fram sem leið sem líkleg er til að gefa umheiminum tækifæri til að hugsa um fortíðina á frjóan hátt. "Aðferð um sönnunarstefnu" er hér beitt af meiri ákafa en tíðast er í öðrum einsögurannsóknum.

Einsögurannsóknir í meðförum íslenska einsöguskólans er í mikilli gerjun um þessar mundir og má búast við að hart verði deilt um þær leiðir sem efstar verða á baugi á þeim vettvangi. Miðstöð einsögurannsókna er ætlað að skapa kjöraðstæður fyrir þetta gróskumikla starf og safna saman öllum þeim sem áhuga hafa á að vinna undir merkjum hennar til fræðilegrar samdrykkju í framtíðinni.

In English:

The Center for Microhistorical Research is an independent research institute at the Reykjavik Academy. The chair is Dr. Sigurdur Gylfi Magnusson who has championed the use of microhistorical methods in Iceland for the last ten years.

The Center for Microhistorical Research will focus on independent research using microhistory methods, publications and distribution of microhistorical monographs and articles, research on different kinds of personal sources which have been collected by manuscript departments around the island for the last 150 years, and to develop an new methodology and conceptual framework for microhistorical research in the future. The Center promises to be an important link to the outside world of microhistorians and the goal is to become an alternative for scholarly debates. At the same time, it will also emerge as a center for international information about research, teaching and meetings related to microhistory. This kind of center is nowhere to be found in the world today. The Center runes an international database and a home page which containes informations about microhistory. The name of the webpage is microhistory.org and it is sponsored by the Center for microhistorical Research.

TENGLAR:
microhistory.org
ReykjavíkurAkademían English webpage
© 2006 - Sigurður Gylfi Magnússon