Umsókn um vinnuaðstöðu

Af óviðráðanlegum ástæðum þá virkar ekki að senda inn umsóknir um félagsaðild og/eða vinnuaðstöðu hjá ReykjavíkurAkademíunni. Unnið er að lagfæringu en á meðan er áhugasömum bent á að hafa beint samband við skrifstofuna í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.eða í síma 562 8565.

 

 

HIT – Heroes of Inclusion and Transformation (HIT – hetjur inngildingar og umbreytingar)

HIT kortNýlokið er sex þjóða Erasmus+ verkefni sem ReykjavíkurAkademían tók þátt í. Verkefnið heitir HIT – Heroes of Inclusion and Transformation (HIT – hetjur inngildingar og umbreytingar) og snýst um að aðlaga þekkta aðferð, The Hero´s Journey eða hetjuferðina, að skapandi og valdeflandi vinnu með jaðarsettum hópum. PDF af enskri útgáfu ritsins Among Heroes and Demons er HÉR en PDF af íslensku þýðingunni, Af hetjum og hindrunarmeisturumer HÉR

Bókakvöld um sagnfræði

bokakvold.jpg

Bókakvöld um sagnfræði verður haldið miðvikudagskvöldið 3. apríl kl. 20:00 í sal ReykjavíkurAkademíunnar í Þórunnartúni 2, 4. hæð. 

Þar verður fjallað og spjallað um fimm spennandi sagnfræðiverk sem komu út á liðnu ári. Bókakvöldið er skipulagt í samvinnu Sagnfræðingafélags Íslands, tímaritsins Sögu, Sögufélags og ReykjavíkurAkademíunnar.

Dagskráin verður sem hér segir:

Kristín Ástgeirsdóttir fjallar um bók Báru Baldursdóttur og Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur, Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi (Hið íslenska bókmenntafélag)

Hjalti Hugason fjallar um bók Sverris Jakobssonar, Kristur. Saga hugmyndar (Hið íslenska bókmenntafélag)

Þorgerður H. Þorvaldsdóttir fjallar um bók Kristínar Svövu Tómasdóttur, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar (Sögufélag)

Kaffihlé

Guðný Hallgrímsdóttir fjallar um bók Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur, Skúli fógeti. Faðir Reykjavíkur – saga frá 18. öld (JPV)

Ragnheiður Kristjánsdóttir fjallar um bók Gunnars Þórs Bjarnasonar, Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 2018 (Sögufélag)

Allt sagnfræðiáhugafólk er hvatt til að fjölmenna á bókakvöldið.

Dagsbrúnarfyrirlesturinn: Svanur Kristjánsson, í dag kl. 12.05

image.pngReykjavíkurAkademían minnir á Dagsbrúnarfyrirlesturinn í dag, fimmtudaginn 7. mars kl. 12.05-13.00  í fundarsal Eflingar á 4. hæð í Guðrúnartúni 1.

Að þessu sinni flytur Svanur Kristjánsson stjórnmálafræðingur og prófessor emeritus fyrirlestur undir yfirskriftinni Róttæk og öflug verkalýðshreyfing eða gönuhlaup nýrrar forystu?  
 
 

Nánar um fyrirlesturinn:


Frá Þjóðarsátt 1990 ríkti umtalsverð sátt um starfsemi íslenskra verkalýðsfélaga. Sú sátt er núna í uppnámi. Á opinberum vettvangi eru sagðar tvær sögur:

1.      Íslenskt verkafólk er að rísa upp og kasta af sér hlekkjum lágra launa, forstjóravalds og fjandsamlegs ríkisvalds sem fyrst og síðast gætir hagsmuna þeirra ríku og voldugu. Ný forysta mun leiða sókn íslensks verkalýðs til nýs þjóðfélags þar sem hagur vinnandi fólks, kvenna sem karla, er í öndvegi. Verkföll þjóna tviþættum tilgangi: Knýja atvinnurekendur til að ganga að sanngjörnum kröfum verkafólks og eru vinnandi fólki til valdeflingar og baráttugleði.

 Róttæk og öflug verkalýðshreyfing verður að veruleika.

 

2.      Lífskjör á Íslandi eru almennt mjög góð. Verkalýðsbarátta er hins vegar átumein í þjóðfélaginu; skapar sundrungu í stað samheldni. “Vinnuveitendur” eru drifkraftur hagvaxtar; kaup og kjör “launþega” ætti að miðast við greiðslugetu atvinnuveganna. Verkalýðsfélög eiga ekki hafa nein afskipti af stjórnmálum eða þjóðmálum yfirleitt.

Nýtt forystufólk verkalýðsfélaganna eru ofstækisfullir grillufangarar fastir í úreltum hugmyndum um stéttabaráttu og sósíalisma sem ætíð leiða til fátæktar og örbirgðar.

Verkföll eru úrelt baráttutæki.

Gönuhlaup nýrrar verkalýðsforystu mun leiða hörmungar yfir íslenskt verkafólk og þjóðfélagið allt.

Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir sögulegum uppruna frásagnanna tveggja. Tekið skal fram að fyrirlesari er ekki aðdáandi þeirrar söguskoðunar að sannleikurinn sé ætíð afstæður. Því verður reynt að meta fræðilega stöðu og framtíðarhorfur íslenskrar verkalýðshreyfingar á umbrotatímum.

Svanur Kristjánsson er fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og fræðimaður við ReykjavikurAkademíuna. Meðal verka hans um íslenska verkalýðshreyfingu og verkalýðsflokka eru: Íslensk verkalýðshreyfing 1920-1930 (1976); “Kommúnistahreyfingin á Íslandi: Þjóðlegir verkalýðssinnar eða handbendi Stalíns ?” Saga (1984); “Hin ósæta verkalýðshreyfing”. Þjóðlíf (1986).

 

Dagsbrúnarfyrirlesturinn er haldinn í samvinnu ReykjavíkurAkademíunnar, Bókasafns Dagsbrúnar og Eflingar-stéttarfélags. 

Í öndvegi: Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur, Lestur af pappír og skjá.

Í dag, fimmtudaginn 17. janúar kl. 12.05, flytur Dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur fyrirlesturinn Lestur af pappír og skjá, í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar, Þórunnartúni 2, 4 hæð.
haukur5des2018-.jpg
 
Í fyrirlestrinum fer Haukur yfir nýjar rannsóknarniðurstöður um samanburð lesmiðla og áhrif snjalltækja á lestur og einbeitingu og er m.a. minnst á niðurstöður rannsókna bandarísku prófessoranna Naomi Baron frá 2015 og alveg nýjar rannsóknir Maryanne Wolf sem vakið hafa mikla athygli. Þá verður kynnt niðurstaða rannsóknar um stöðu þessara lesmiðla hér á landi, sem framkvæmd var af Félagsvísindastofnun HÍ og Haukur vann úr og birti grein um í vorhefti Skírnis 2018. Rannsóknin var framlag Íslands til evrópska verkefnisins e-read og styrkt af Innanríkisráðuneytinu og Menntamálaráðuneytinu. Niðurstöður hennar sýna hversu mikið er lesið af hvorum miðli af ólíku lesefni og tengja lestur aldri, kyni og fleiri lýðfræðilegum breytum og gefa skemmtilega innsýn í yfirstandandi þróun.
 
Haukur Arnþórsson er sjálfstætt starfandi fræðimaður við ReykjavíkurAkademíuna. Hann átti áður aldarfjórðungs feril í upplýsingatæknigeiranum og rannsakar ekki síst samfélagsleg áhrif upplýsingatækni. Hann hefur verið virkur í rannsóknarstarfsemi á vegum ESB og sat í haust sem leið viðamikla ráðstefnu á vegum e-read verkefnisins, sem einmitt fjallaði um lestur og snjalltæki.  
 
Fyrirlesturinn fer fram i fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar, Þórunnartúni 2, 4 hæð og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
 
Verið velkomin!
 
FaLang translation system by Faboba