Hér heilsast skipin

Þriðja Öndvegisfóður vetrarins var haldið fimmtudaginn 17. október. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur sagði frá tveggja binda verki um sögu Faxaflóahafna sem hann hefur unnið að undanfarin misseri og væntanlegt er í nóvember næstkomandi. Verkið heitir Hér heilsast skipin og er samið í tilefni af því að nú eru 100 ár liðin frá upphafi hafnargerðar í Reykjavík. Guðjón greindi frá vinnu sinni við verkið en það nær ekki einungis til Reykjavíkurhafnar heldur hafna frá upphafi á öllu svæði fyrirtækisins Faxaflóahafna og allt til landnámsaldar. Einnig greindi Guðjón frá því að margvíslegri hafnartengdri starfsemi sé gerð skil í verkinu, svo sem skipafélögum, slippum, vélsmiðjum, heildverslun og fleira.

 

 

Rótaflækja: Náttúran á 17. öld, Jón lærði og handritin.

Annað Öndvegisfóður vetrarins var haldið miðvikudaginn 2. október. Það var Viðar Hreinsson neftóbaksfræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni sem sagði frá Jóni Guðmundssyni lærða (1574-1658) og tilraunum sínum til að flétta saman í eitt rótaflækt (rísómískt) verk litríkri ævi Jóns, hugmyndum hans, náttúruskyni og -skilningi 17. aldar og þúsund ára hugmyndasögulegum bakgrunni verka hans. Verkefnið er styrkt af Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar stofnanda Hagkaups, Launasjóði fræðiritahöfunda, Hagþenki og Starfslaunasjóði sjálfstætt starfandi fræðimanna. Viðar lofaði því að hvorki yrði talað um hjátrú né hindurvitni í væntanlegri bók sem stefnt er að því að líti dagsins ljós á næsta ári, haustið 2014.

 

 

 

Ég datt um stein

Fyrsta Öndvegisfóður vetrarins var haldið fimmtudaginn 5. september. Sólveig Ólafsdóttir framkvæmdarstjóri ReykjavíkurAkademíunnar reið á vaðið, en hún kynnti litla rannsókn sem hún er að vinna að í frítíma sínum á minningarmarki, litlum legsteini sem grafinn var fram í dagsljósið í Hólavallagarði nú í sumar. Með aðstoð ættfræðigagnagrunnsins Íslendingabókar og öðrum heimildum er gerð tilraun til að ættfæra steininn og þann einstakling sem steinninn var settur til minningar um auk næstu nágranna í garðinum. Verkefnið er stutt á veg komið og verður betur kynnt síðar.

 

FaLang translation system by Faboba