Síðasta Öndvegisfóður vetrarins

Að þessu sinni var það Kristinn Ágúst Friðfinnsson sem var með erindið:

Menningarmunur. Athugun á mismuni tilfinningaviðbragða í deilum um forræði og umgengni eftir skilnaði, annars vegar múslímskra karlamanna og hins vegar karlmanna sem fæðst hafa inn í íslenska menningu og trú.

 

Fyrirlesturinn fjallar um rannsókn sem hann gerði nýlega með djúpviðtölum við fulltrúa þessara hópa. Þau orð sem fram komu voru kóðuð og síðan kortlögð. Fram kom töluverður mismunur, sem að sumu leyti kom á óvart en studdi á sama tíma tilgátur og kenningar um efnið.

 

 Niðurstöðurnar notar Kristinn í meistararitgerð sem hann er að vinna að og mun leggja fram við Kaupmannahafnarháskóla. Þar hefur hann verið í námi í sáttamiðlun. Hluti þess náms fjallar um átakafræði.

Varðveisla og mótun menningararfs: Áhrif Kvæðamannafélagsins Iðunnar á rímnahefðina.

ragnheidurolafs

Í Öndvegisfóðri dagsins var það Dr. Ragnheiður Ólafsdóttir sem fjallaði um áhrif kvæðamannafélags Iðunnar á rímnahefðina.

Fyrirlesturinn er byggður á doktorsritgerð Ragnheiðar og fjallar um félagsleg og
tónlistarleg áhrif Kvæðamannafélagsins Iðunnar á rímnahefðina. Kvæðamannafélagið
Iðunn var stofnað í Reykjavík 1929, ári áður en Alþingishátíðin var haldin á
Þingvöllum. Getum er leitt að því að stofnun Iðunnar hafi komið til vegna áhrifa
umræðna í dagblöðum og manna á meðal um væntanlega Alþingishátíð, en einnig
vegna þess að landsbyggðarfólkinu sem stóð að Iðunni hafi þótt kveðskaparhefðin
mikilvægur hluti af því að vera Íslendingur og viljað hefja kveðskap til vegs og
virðingar í borgarsamfélagi samtímans. Stofnfélagar Iðunnar voru allflestir aðfluttir,
margir úr Vestur-Húnavatnssýslu og þar á meðal fjögur systkin sem voru mjög
áhrifamikil innan félagsins. Iðunn skipti kveðskaparhefðinni í tvennt, vísur og
rímnalög. Nefnd starfaði fyrir hvort efni um sig, en hafði ólíku að sinna. Vísnanefndin
safnaði öllum vísum sem félagar létu frá sér, meðan rímnalaganefndin sá um að
‘bjarga’ þeim rímnalögum sem félagarnir kunnu. Vísnagerð var álitin sjálfsögð og
voru félagar hvattir til að yrkja, en þeir sem vildu leika sér með rímnalögin fengu á
baukinn, sérstaklega þeir sem vildu kveða við undirleik hljóðfæra. Til grundvallar
tónlistarhluta rannsóknarinnar liggja bók Kvæðamannafélagsins, Silfurplötur Iðunnar
(2004) og rímnakaflinn í Íslenzkum þjóðlögum (1906-1909) eftir Bjarna Þorsteinsson,
þessar tvær aðalheimildir um stemmur sem til eru á prenti. Fjallað verður um þann
mun sem er á bókunum tveimur og helstu niðurstöður rannsóknarinnar.

Read more ...

Um Kristí krossburð

mordur

Í Öndvegisfóðri þann 30. apríl kynnti Mörður Árnason 92. útgáfu Pássíusálmanna sem bókaforlagið Crymogea gaf út fyrir skömmu. Kynningin fór þannig fram að eftir stuttan formála var lesinn 30. passíusálmur, Um krossburð Kristí, og fjallað um einstök atriði og efni í sálmunum öllum inn í milli versanna. Minnst var á útgáfusögu sálmanna og stað þeirra í íslenskum og alþjóðlegum bókmenntum, máli þeirra, brag, stíl, hugmyndalegum einkennum og heimsmynd svo sem kostur var út frá einstökum versum eða versahópum. Að lokum var spurt og svarað. Lesarar voru Viðar Hreinsson, Þorleifur Hauksson, Ingunn Ásdísardóttir og Páll Valsson.

Alþjóðavæðing heilbrigðisþjónustu

ingimar

Í Öndvegisfóðri þann 9. apríl síðastliðinn fjallaði Ingimar Einarsson um alþjóðavæðingu heilbrigðiþjónustu.

Heilbrigðisstofnanir á Íslandi hafa þegar hafið innreið sína á alþjóðlegan heilbrigðismarkað þó í litlum mæli sé. Nokkrir tugir sjúklinga frá Grænlandi og Færeyjum njóta þjónustu Landspítalans á ári hverju og hluti viðskiptavina augnlæknastöðva, tæknifrjóvgunar-stöðvarinnar ART Medica og psoriasissjúklinga Bláa Lónsins er af erlendu bergi brotninn. Enn sem komið er leita sennilega fleiri íslenskir sjúklingar sér eiginlegrar læknisþjónustu erlendis en erlendir sjúklingar sem koma hingað í slíkum erindagjörðum.

Áform hafa verið uppi um að bjóða erlendum borgurum upp á meiri heilbrigðisþjónustu hér á landi og hefur einkum verið rætt um liðskiptaaðgerðir, offituaðgerðir og endurhæfingu. Bandarískir ráðgjafar telja að íslensk heilbrigðisþjónusta eigi helst möguleika á því að hasla sér völl á sviðum sem státa af góðum árangri, s.s. hjartalækningum og bæklunarlækningum.

Í fyrirlestrinum var m.a. fjallað um hvort forsendur séu fyrir því að ráðast í að byggja upp heilbrigðisþjónustu í tilteknum sérgreinum fyrir erlenda borgara. Ekki er útilokað að slíkt megi gera á löngum tíma, en víst er að þjónusta af þessu tagi verður að uppfylla ýtrustu gæðakröfur og eiga sér bakhjarl í þeirri heilbrigðisþjónustu sem fyrir er í landinu.

Íslenskar fornritarannsóknir og þjóðarmenning 1780-1918

ondvegisfodur

Í Öndvegisfóðri dagsins fjölluðu þeir Gylfi Gunnlaugsson og Clarence E. Glad um rannsóknarverkefni sitt, en það er alþjóðlegt þriggja ára rannsóknarverkefni, sem ber heitið Íslenskar fornritarannsóknirog þjóðar­menning 1780-1918, hefur aðsetur í Reykjavíkurakademíunni. Því var hleypt af stokkunum í júní 2014. Það er fjármagnað af Rannsóknasjóði í vörslu Rannís. Verkefnisstjórar eru þeir Clarence E. Glad og Gylfi Gunnlaugsson, en aðrir þátttakendur eru Matthew J. Driscoll, Kaupmannahöfn, Gottskálk Jensson, Kaup­mannahöfn, Jon Gunnar Jør­gensen, Oslo, Annette Lassen, Kaupmannahöfn, Julia Zernack, Frankfurt am Main, Simon Halink, Groningen, og Hjalti Snær Ægisson, Reykjavík.

 

Í þessu verkefni verða störf þeirra íslensku fræðimanna rannsökuð, sem fengust við útgáfu á og skrif um íslensk fornrit / norrænar fornbókmenntir á árunum 1780-1918, með tilliti til þeirra þjóðernishugmynda sem þar koma fram. Lögð verður áhersla á sjálfstæði hinnar þjóðernislegu orðræðu þessara fræðimanna gagnvart þeirri pólitísku orðræðu, sem fylgdi sjálfstæðisbaráttunni. Orðræða þeirra verður skoðuð sem hluti af alþjóðlegri umræðu um hinn íslenska / norræna menningararf og þjóðarmenningu almennt. Ein birtingarmynd þessarar umræðu var togstreita Íslendinga við aðrar þjóðir um „eignarhald“ á þessum arfi eða ákveðnum hlutum hans. Á sama tíma voru íslensku fræðimennirnir í víðtæku samstarfi við erlenda starfsbræður sína. Þetta samstarf og umgjörð þess verður athugað sérstaklega. Loks verður lögð áhersla á að kanna tengsl orðræðu hinna íslensku fræðimanna við viðtöku grísk-rómverskrar arfleiðar. Rannsóknin mun skila mikilvægum upplýsingum um mótun sjálfsmyndar Íslendinga á umbrotatímum, auk þess að hafa almennt menningarsögulegt gildi.

FaLang translation system by Faboba