Sjálfstæðiskennimið í kreppu.

 

Hugmyndin um framfarir hefur verið yfirgrípandi kennimið í sögukennslu sl. öld, hvort heldur sem er mannkynssögu eða þjóðarsögu. Stór þáttur í  þessu kennimiði er þjóðríkishugmyndin. Þar er gert ráð fyrir línulegri þróun sem hefst með upphafi siðmenningar og stefnir að eflingu (evrópska) þjóðríkisins. Þetta kennimið barst til Íslands í upphafi 20. aldar og aðlagaðist því viðfangsefni sem heitast brann á íslenskum sagnfræðingum og skólamönnum, það er sjálfstæðisbaráttunni.  Í erindinu er fjallað um það sem kalla má sjálfstæðiskennimiðið í Íslandssögukennslu, en það er sá túlkunarrammi sem borið hefur uppi alla meginatburðarás Íslandsögunnar frá landnámi til bankahrunsins. Kennimiðið hefur verið ráðandi og haldið sagnfræðingum, sögukennurum, nemendum og almenningi innan ákveðins túlkunarramma. Sem dæmi um birtingarform á sjálfstæðiskennimiðinu er fjallað um siðaskiptin í Evrópu og á Íslandi í kennslubókum. Í erindinu eru færð rök fyrir því að sjálfstæðiskennimiðið sé í kreppu. Einnig er spurt um hvað gæti komið í staðinn.
FaLang translation system by Faboba