Undantekning frá átakahefðinni? Íslenskar minnihlutastjórnir 20. aldar. 

Átakahefð íslenskra stjórnmála er tíðum tengd við þá viðleitni stjórnmálaflokkanna að mynda skýrt afmarkaðan þingmeirihluta að baki samsteypustjórnum, ólíkt minnihlutastjórnunum sem síðasta mannsaldur hafa verið algengt fyrirbæri í norrænum grannlöndum. Þessi tenging gefur tilefni til að athuga undantekningarnar, þ.e. þau tímabil þegar ekki sátu meirihlutastjórnir, og athuga hvort þá gæti síður átakahefðarinnar.

Rætt verður um minnihlutastjórnir, afmörkun hugtaksins, fjölda þeirra og flokkun. Einkum verður þó athugað hversu harðsnúinn þingmeirihluti hafi staðið að baki minnihlutastjórnunum ef saman eru taldir stjórnarflokkar og stuðningsflokkar þeirra. Til marks um það er bæði sameiginleg afstaða til þingmála, m.a. í nefndum, og samstaða í kosningum á þingi, m.a. kjöri þingforseta, nefndakjöri og kjöri til efri deildar. Jafnframt er spurt hvort stjórnarandstaða hafi haft meira svigrúm til áhrifa þegar minnihlutastjórn sat að völdum eða hvort einstakar minnihlutastjórnir skeri sig úr að þessu leyti.

 

Uppsprettur sögunnar - heimurinn.

Fyrirlesari leitar svara við tveimur spurningum:

Fyrst (örstutt): Hvaða tækifæri felast í því fyrir söguna sem skólagrein að hafa undir endilanga sögu mannkynsins um víða veröld, frekar en takmarka sig við hið nálæga í tíma og rúmi?

Síðan (ögn nánar): Hvaða tilefni gefur „hnattvæðing" yfirstandandi áratuga til að hverfa frá hefðbundinni „mannkynssögu" (þ.e. línulegri atburða- og þróunarsögu vestræns samfélags, vestrænnar menningar og vestrænnar yfirdrottnunar) að svokallaðri „heimssögu" (þar sem minna fer fyrir samfelldri þróun eða löngum atburðarásum en fremur er leitað margvíslegra dæma um samanburð, samskipti og gagnkvæm áhrif ólíkra menningarsvæða - án þess sjónarhóllinn sé endilega bundinn því vestræna)?

Tilefnin má um sumt kalla jákvæð - þ.e. að heimssagan rími best við heiminn eins og við kynnumst honum í samtímanum, þar sem fjarlægir heimshlutar eiga margvísleg samskipti og deila brýnum úrlausnarefnum eins og heimsfriði, þróun og sjálfbærni. En einnig neikvæð, þ.e. að sögukennslan megi ekki spegla hugmyndir um forræði Vesturlanda sem ekki teljast lengur frambærilegar.

 

FaLang translation system by Faboba