Select a contact:
Guðjón Friðriksson
Sagnfræði
Address:
Nesvegur 55
107
Reykjavík
Phone:
5621486
Mobile:
6941556
Send an Email
(optional)
Miscellaneous Information:

 

Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík og á tvær eldri systur, Sesselju og Sigrúnu. Foreldrar okkar voru Friðrik Guðjónsson (1897-1964) trésmiður og Sigríður Vigfúsdóttir (1908-1964) húsmóðir. Ég lauk stúdentsprófi frá MR árið 1965 og BA-prófi í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1970. Á háskólaárum var ég meðal annars í stúdentaráði og ritsstjórn Mímis, blaðs stúdenta í íslenskum fræðum. Eftir námið var ég fyrst fastráðinn kennari í Gagnfræðaskólanum við Laugalæk á árunum 1970-1972 og síðan íslenskukennari í Menntaskólanum á Ísafirði 1972-1975. Á Ísafirði var ég um hríð í menningarráði Ísafjarðar og í ritnefnd tímaritsins Hljóðabungu.
Úr kennslu lá leiðin í blaðamennsku og var ég blaðamaður á Þjóðviljanum 1976-1985, þar af ritstjóri Sunnudagsblaðs Þjóðviljans 1980-1984.
Árið 1985 var ég ráðinn af Reykjavíkurborg sem einn af ritstjórum Sögu Reykjavíkur og gegndi því starfi til 1991. Eftir það hef ég verið sjálfstætt starfandi rithöfundur og sagnfræðingur. Af og til hef ég auk þess séð um dagskrárgerð í útvarpi, sjónvarpi og leikhúsi, fengist nokkuð við stundakennslu í Háskóla Íslands og annast leiðsögn um götur Reykjavíkur og Kaupmannahafnar.
Ég hef setið í stjórn nokkurra félaga, svo sem fyrstu stjórn Íbúasamtaka Vesturbæjar 1977-1978, í stjórn Torfusamtakanna frá 1985, þar af formaður þeirra í mörg ár, í stjórn Minja og sögu frá stofnun 1988, í stjórn Rithöfundasambands Íslands 1996-2002 og Minjaverndar 1999-2000.
Fyrir utan fjölmargar greinar sagnfræðilegs eðlis í blöð, tímarit og bækur liggja eftir mig eftirfarandi bækur:

 

1. Forsetakjör 1980. Rv. 1980 (endurútgefin endurbætt 1981 undir nafninu Vigdís forseti).
2. Togarasaga Magnúsar Runólfssonar (endurminningar). Rv. 1983.
3. Á tímum friðar og ófriðar. Heimildaljósmyndir Skafta Guðjónssonar. Rv. 1983.
4. Reykjavík bernsku minnar (endurminningar 19 Reykvíkinga). Rv. 1985.
5. Með sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni. Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu 1. Rv. 1991.
6. Bærinn vaknar. Saga Reykjavíkur 1870-1940. Fyrri hluti. Rv. 1991.
7. Dómsmálaráðherrann. Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu 2. Rv. 1992.
8. Ljónið öskrar. Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu 3. Rv. 1993.
9. Bærinn vaknar. Saga Reykjavíkur 1870-1940. Síðari hluti. Rv. 1994.
10. Indæla Reykjavík. 6 gönguleiðir um Þingholt og sunnanvert Skólavörðuholt. Rv. 1995.
11. Indæla Reykjavík. 6 gönguleiðir um gamla Vesturbæinn. Rv. 1996.
12. Einar Benediktsson. Ævisaga 1. Rv. 1997.
13. Einar Benediktsson. Ævisaga 2. Rv. 1999.
14. Einar Benediktsson. Ævisaga 3. Rv. 2000.
15. Nýjustu fréttir! Saga fjölmiðlunar á Íslandi frá upphafi til vorra daga. Rv. 2000.
16. Jón Sigurðsson. Ævisaga 1. Rv. 2002.
17. Jón Sigurðsson. Ævisaga 2. Rv.2003.
18. Ég elska þig stormur. Ævisaga Hannesar Hafsteins. Rv. 2005.
19. Saga af forseta. Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Rv. 2008.

 

Ég hef fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf. Árið 1985 fékk ég Móðurmálsverðlaun Björns Jónssonar fyrir “ljóðrænan stíl og mannlífsmyndir” í blaðamennsku. Sex sinnum hef ég verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og þrisvar fengið þau; 1991 fyrir fyrra bindi af Sögu Reykjavíkur 1870-1940, 1997 fyrir fyrsta bindi af ævisögu Einars Benediktssonar og 2003 fyrir seinna bindi af ævisögu Jóns Sigurðssonar. Þá fékk ég verðlaun úr Menningarsjóði VISA 1999 fyrir “lofsverðan árangur og starf á sviði ritlistar”, sérstaka viðurkenningu úr Bókasafnssjóði 2002 og verðlaun Jóns Sigurðssonar í fyrsta skipti sem þau voru veitt 2008.

 

Kona mín er Hildur kjartansdóttir móttökufulltrúi Reykjavíkurborgar. Dætur mínar eru Védís Guðjónsdóttir fiskeldisfræðingur, starfsmaður Landbúnaðarháskólans og Úlfhildur Guðjónsdóttir hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum en fóstursonur Atli Knútsson MBA, starfsmaður McKinsey í Kaupmannahöfn. Eigum við hjónin fimm barnabörn: Eyrúnu Aradóttur, Egil Arason, Hrafn Arason, Halldór Andra Atlason og Val Björn Atlason.

FaLang translation system by Faboba