Norður: íslensk börn ímynda sér Norðrið.

ReykjavíkurAkademían og kanadíska háskólaútgáfan Presses de l'Université du Québec hafa gefið út bókina Norður: íslensk börn ímynda sér Norðrið.

nordur.jpg

Bókin kemur út á þremur tungumálum í ritröðinni Imagoborealis, sem er ætlað er varpa ljósi á og túlka hinar margvíslegu táknmyndir Norðursins, vetrarins og Norðurheimskautsins.

Ritstjórar eru Daniel Chartier og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, sem skrifa formála. Meginuppistaða bókarinnar eru einstaklega lífleg og falleg myndverk íslenskra barna og unglinga sem ímynda sér "Norðrið". Myndverkin voru unnin í Myndlistaskóla Reykjavíkur í tengslum við ráðstefnuna Images of the North, sem ReykjavíkurAkademían stóð fyrir árið 2006.

Á bakhlið bókarinnar segir: "Sérhver hinna ímynduðu heima sem hér finnast næra þekkingu okkar á táknkerfi Norðursins og þröngvar okkur til að íhuga hversu margbrotið og óáþreifanlegt hugtakið "Norðrið" er.

Fagnað verður útkomu bókarinnar með sýningu á myndverkunum í Þjóðminjasafninu föstudaginn 13. nóvember kl. 16.

 


Hugvekjur á aðventu

ReykjavíkurAkademían er samfélag sjálfstætt starfandi fræðimanna, rithöfunda og listamanna.

Nokkrir þeirra hafa fléttað saman alvöru fræðanna og gamansömum hugleiðingum, pakkað í jólapappír og bjóða nú skólum, fyrirtækjum og stofnunum á aðventunni. Hugvekjurnar eru 15-20 mínútna langar.

Read more ...

Gammablossar 23. október

Í Gammablossum föstudaginn 23. október flytur Böðvar Bjarki Pétursson, forstöðumaður Kvikmyndaskóla Íslands, fyrirlestur um Kvikmyndanám á háskólastigi. Fyrirlesturinn fer fram í hátíðarsal ReykjavíkurAkademíunnar og stendur yfir frá klukkan 12.05-13.00.

Read more ...

Sjálfsmynd þjóðar


Dagana 15.-16. nóvember nk. verður haldin ráðstefna í Skálholtsskóla undir yfirskriftinni Sjálfsmynd þjóðar. Ætlunin er að fjalla um þjóðarhugtakið, sjálfsskilning þjóðar og sjálfsmynd. Ætlunin er að líta til baka yfir farinn veg, en einnig horfa til nútíðar og ekki síður framtíðar. Reykjavíkurakademían, tímaritið Glíman og Skálholtsskóli hafa kallað saman þverfaglegt teymi sérfræðinga til að fjalla um málið út frá ólíkum sjónarhornum, m.a. frá sjónarhorni guðfræði, mannfræði, þjóðfræði, sagnfræði, lögfræði, bókmenntafræði, stjórnmálafræði og heimspeki.

Dagskráin hefst á sunnudag kl. 15.30 og henni lýkur um kaffileitið á mánudag. Allt áhugafólk er boðið velkomið. Fullt verð með gistingu og fæði er kr.: 10.500.-

Read more ...

Svartárkot: Hógvær innrás í stað útrásardrambs

Í Svartárkoti í Bárðardal er aðsetur verkefnis sem heitir Svartárkot, menning - náttúra og hófst haustið 2005, í samstarfi ReykjavíkurAkademíunar og ábúenda þar. Hugmyndin er að reisa í Svartárkoti rannsókna- og kennslusetur með sambúð manns og náttúru að meginviðfangsefni og halda alþjóðleg verkefni á háskólastigi. Meginmarkmið verkefnisins eru tvö: Annars vegar að byggja upp nýstárlegar og öflugar rannsóknir og kennslu þar sem íslensk viðfangsefni eru rannsökuð í alþjóðlegu ljósi og hins vegar að tengja setrið við aðra uppbyggingu í Bárðardal og Þingeyjarsveit, ekki síst í ljósi þess að svæðið hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár. Þar má nefna skólabúðir sem starfræktar eru í gamla skólahúsinu í Kiðagili, almenna ferðaþjónustu, svokallaða "jarðferðamennsku" (geotourism) sem verið er að byggja upp, megininngang að Vatnajökulsþjóðgarði, og uppbyggingu menntaferða, sem eru nátengdar fræðilegum viðfangsefnum setursins. Óhætt er að segja að í Svartárkoti fléttist saman hið staðbundna og hið hnattræna.

Read more ...

Upprisa Kistunnar

Menningar- og fræðavefritið Kistan gengur nú í endurnýjun lífdaga og í dag er fyrsti starfsdagur nýrrar Kistu. Við ríðum á vaðið með viðtali við leik- og söngkonuna Charlotte Gainsbourg, aðalleikkonu Antichrist, auk þess sem Þröstur Helgason tekur við kefli Kistulúðans þessa vikuna. Þessu til viðbótar verða ritdómar og ávarp nýs ritstjóra þennan fyrsta dag nývaknaðrar Kistu, en það verður þó aðeins byrjunin - það bíða fleiri greinar birtingar og enn fleiri eru í smíðum, það hefur sjaldan verið meiri þörf á aukinni menningar- og þjóðfélagsumræðu, vonandi bætum við þar einhverju við.

Read more ...

Lýðræði með raðvali og sjóðvali kemur út á spænsku

Bókaútgáfan Ediciones Gondo á Spáni hefur gert samning við Björn S. Stefánsson um að gefa út Democracia con elecciones de fila y elecciones de fondos, en svo nefnist Lýðræði með raðvali og sjóðvali á spænsku. Auk þess sem ritið verður prentað, verður það sett á netið og selt þar - vegna hins spænskumælandi heims, sagði í tilboði útgáfunnar. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Lýðræðissetursins http://www.abcd.is/
FaLang translation system by Faboba