ReykjavíkurAkademían og Reykjavíkurborg blása til ráðstefnu föstudaginn 17. nóvember næstkomandi um óleyfisbúsetu í atvinnuhúsnæði.
Skortur á leiguhúsnæði og hátt leiguverð veldur því að óhefðbundið búsetuform er vaxandi vandamál hérlendis. Talið er að hópur efnalítilla Íslendinga og erlent verkafólk búi við slíkar aðstæður.
Ráðstefnan er mikilvægur áfangi í umfangsmikilli úttekt RA á þessu vaxandi samfélagslega vandamáli. Helstu samstarfsaðilar RA og Reykjavíkurborgar í verkefninu eru Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Hagstofa Íslands, Þjóðskrá Íslands, Vinnumálastofnun, ASÍ, Starfsgreinasamband Íslands, Retor fræðsla ehf., ásamt mörgum fleiri.
Aðalfyrirlesari á ráðstefnunni er Gillian Young frá Newhaven Research í Skotlandi. Gillian er öflugur fræðimaður á sviði húsnæðismála og búsetu í óleyfilegu húsnæði, þá sérstaklega þegar kemur að búsetuskilyrðum erlends verkafólks.
Ráðstefnan verður haldin í sal Norræna hússins. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.
Sjá dagskrá
ReykjavíkurAkademían kynnir með stolti nýjan samstarfssamning við Reykjavíkurborg sem undirritaður var 29. september síðastliðinn. Markmið samningsins er að greina óleyfilega búsetu (þ.e. búsetu í atvinnuhúsnæði) í Reykjavík með áherslu á tilkomu hennar og birtingarmynd, aðbúnað og réttindi íbúa, m.a. með tilliti til mansals og réttinda verkafólks. ReykjavíkurAkademían hefur umsjón með verkefninu og hefur ráðið Jón Rúnar Sveinsson, félagsfræðing, í tímabundna stöðu verkefnisstjóra. Niðurstöður verða svo kynntar á ráðstefnu um óleyfilega búsetu föstudaginn 17. nóvember, kl. 13:00-17:00.
Dagskrá og efni ráðstefnunnar verða kynnt fljótlega á heimasíðu RA.