1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Fjölmiðlun í almannaþágu? Málþing 19. nóvember nk.

Fjölmiðlun í almannaþágu? Málþing 19. nóvember nk.

by | 19. Nov, 2016 | Fréttir, Málþing og raðir, Viðburðir RA

ReykjavíkurAkademían ses, ásamt samstarfsaðilum, vinnur að undirbúningi tveggja málþinga um fjölmiðlun í almannaþágu (e. Public Service Broadcasting). Hið fyrra verður 19. nóvember næstkomandi en hið síðara í byrjun árs 2017.

Með hugtakinu, fjölmiðlun í almannaþágu, er átt við fjölmiðlun sem miðar að því að vera til hagsbóta fyrir hinn almenna borgara en ekki til viðskiptalegs ávinnings fyrir eigendurna.  Þar sem fjölmiðlar eru  skilgreindir sem fjórða valdið í þjóðfélaginu þykir okkur í ReykjavíkurAkademíunni mikilvægt að staldra við og skoða hvort – og þá hvernig – fjölmiðlun í almannaþágu sé mikilvægur liður í lýðræðissamfélagi nútímans.

Markmiðið með málþingsröðinni er að skapa gagnrýna og fræðilega umræðu um málefnið þar sem helstu sjónarmið fái notið sín; umræðu sem horfir til framtíðar og er óháð hagsmunum þeirra fjölmiðla sem þegar eru starfandi. Til að gefa viðfangsefninu fræðilega breidd sem nær út fyrir smæð íslensks samfélags hafa verið kallaðir til fjórir fræðimenn sem sinna fjölmiðlarannsóknum við erlenda háskóla, þar af einn Íslendingur. Þau eru:

  • Dr. Michael Tracey, prófessor við Háskólann í Colorado
  • Dr. Gauti Sigþórsson, kennari í fjölmiðla- og boðskiptafræðum við Háskólann í Greenwich
  • Dr. Gunn Enli, prófessor í fjölmiðla- og boðskiptafræðum við Oslóarháskóla
  • Dr. Henrik Søndergaard, prófessor í fjölmiðlafræðum við Kaupmannahafnarháskóla.

Fræðimennirnir munu heiðra okkur á fyrra málþinginu, þann 19. nóvember með umfangsmiklum erindum um eðli og starfsemi fjölmiðlunar í almannaþágu um allan heim. Að erindunum loknum verður pallborðsumræða um viðfangsefnið þar sem fagfólk hérlendis, með sérþekkingu á viðfangsefninu, mun ræða afstöðu sína og svara fyrirspurnum úr sal.

Með niðurstöðu fyrra málþingsins í farteskinu mun seinni fundurinn (sem er áætlaður í febrúar 2017) beina sjónum sýnum að íslenskum fjölmiðlamarkaði sérstaklega. Þar verður farið ofan í saumana á stöðunni í dag og hvert við stefnum.

Stefnt er að því að málþingin verði ókeypis og að viðburðurinn verði aðgengilegur á netinu, annað hvort streymt beint eða hægt að hlusta eftir á.