(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Aðgerðir til eflingar þekkingarsam­félagi á Íslandi til ársins 2025 – umsögn ReykjavíkurAkademíunnar

Aðgerðir til eflingar þekkingarsam­félagi á Íslandi til ársins 2025 – umsögn ReykjavíkurAkademíunnar

by | 12. maí, 2023 | Fréttir, Umhverfi rannsókna, Útgáfa RA

Allsherjar- og menntamálanefnd hefur þessa dagana til umsagnar þingályktunartillögu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur  háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025. (Þingskjal 1530 – 982. Mál. 153. Löggjafarþing 2022-2023.)

Í umsögn ReykjavíkurAkademíunnar komu fram ábendingar við aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi byggðar á hagsmunum fræðafólks sem starfar sjálfstætt að rannsóknum og þekkingarmiðlun á sviði hug- og félagsvísinda.

Það er álit ReykjavíkurAkademíunnar að almennt hvílir þekkingarstefnan á víðum og almennum hugtökum og að því er mikilvægt að tryggja að stefnan og þær aðgerðirnar sem á henni hvíla nái til alls háskóla- og vísindastarfs, einnig hug- og félagsvísinda.
Sama má segja um þær aðgerðir sem varða nýsköpun og hugverkavernd. Þar er mikilvægt að hafa í huga að virkni og hagræn áhrif af starfsemi einstaklinga og fyrirtækja á sviði hug- og félagsvísinda er veruleg enda þótt að hún sé minni og fangist verr upp í hagtölum en starfsemi stórra fyrirtækja á öðrum fræðasviðum.

 

Aðgerðaáætluninni er skipt í þrjú meginsvið:

1. Aðgerðir sem styðji markmið í háskóla- og vísindastarfi
2. Aðgerðir sem styðji við markmið í nýsköpun og hugverkaiðnaði
3. Aðgerðir sem styðji við markmið í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi.

ReykjavíkurAkademían hvetur til þess að skiptin verði endurskoðuð, sérstaklega er mikilvægt að búa til tengingu á milli aðgerðaráætlunar 1 og aðgerðaráætlunar 2 og brúa þannig bilið sem er í dag á milli rannsókna og þekkingarmiðlunar innan og utan háskólanna.
Í þeim anda leggur ReykjavíkurAkademían til nýja aðgerð sem þannig myndi brúa bilið á milli rannsókna og vísindastarfa fræðafólks sem starfar innan og utan háskólana.

Auka aðgengi að opinberu fjármagni fyrir rannsakendur sem sinna áhugadrifnum rannsóknum og þekkingamiðlun utan háskólana.

Ávinningur af auknu aðgengi fræðafólks að opinberu fjármagni yrði verulegur. Sem dæmi má nefna:

    • skapar ungu fólki tækifæri til að virkja hugvit og þekkingu í þágu samfélagsins,
    • fjölgar störfum óháð búsetu
    • eykur arð einstaklinga og samfélagsins af fjárfestingu í menntun,
    • stækkar þekkingarbanka samfélagsins sem myndar grunn menntun og sjálfsþroska þjóðarinnar og er grunnur fjölbreyttrar nýsköpunar þriðja aðila
    • aukin sóknar fræðafólks í erlenda rannsóknasjóði
    • bætir möguleika háskólanna á að ráða starfsfólk til rannsókna og þekkingarmiðlunar með víðtæka og fjölbreytta reynslu, hæfni og þekkingu.

Þá leggur ReykjavíkurAkademían til að gerð verði eftirfarandi viðbót við aðgerð 1.6:

Nýtt Vísinda og nýsköpunarráð hugi sérstaklega að því að veita fjármagni úr opinberum rannsóknasjóðum til rannsóknar og nýsköpunar á sviði hug- og félagsvísinda, jafnt innan sem utan háskólanna.

og að lokum er lagt til að bætt verði við aðgerðaáætlunina nýrri aðgerð sem er ætlað að styrkja sérstaklega stöðu hug- og félagsvísinda innan háskólasamfélagsins:

Átak í að styðja við þverfaglegt hlutverk hug- og félagsvísinda innan vísindasamfélagsins meðal annars með eflingu gagnrýnnar hugsunar og hæfni til greiningar samfélagslegra vandamála og innleiðingu nýrra tæknilausna.

Rökin að baka eru meðal annars þau að aðgerðin hvílir á aukinni áherslu Evrópusambandsins á að hug- og félagsvísindi séu samþætt betur en nú er gert við aðrar vísindagreinar háskólanna. Áherslan byggir á þeirri staðreynd að hug- og félagsvísindi auðvelda innleiðingu tækninýjunga og -lausna. Þá mun aukin samþætting auka samkeppnishæfni íslenskra vísindamanna í harðri alþjóðlegri samkeppni um fjármagn úr samkeppnissjóðum enda hvetur Evrópusambandið í vaxandi mæli til þverfaglerar samvinnu vísindafólks óháð viðfangsefnum rannsóknar og fræðasviðum þátttakenda.

Að lokumfangar ReykjavíkurAkademían sem fulltrúi fræðafólks sem starfar að rannsóknum og þekkingarmiðlun utan háskólanna þeim áformum að hagaðilum þekkingarsamfélagsins á Íslandi komi að árlegri endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar í tengslum við undirbúning fjármálaáætlunar og fjárlaga.

Hér má lesa umsögn ReykjavíkurAkademíunnar í heild sinni.