(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Um stofnunina
  4.  » ReykjavíkurAkademían

ReykjavíkurAkademían

ReykjavíkurAkademían var stofnuð árið 1997 sem vettvangur og málsvari fræðafólks sem starfar sjálfstætt að rannsóknum og þekkingarmiðlun, einkum á sviði menningar, hug- og félagsvísinda. Í þeim tilgangi rekur stofnunin Miðstöð fræðafólks sem starfar utan háskólanna í Þórunnartúni 2. Þar er aðsetur fræðimanna, félagasamtaka og smærri fyrirtækja og þangað sækja félagar ReykjavíkurAkademíunnar fjölbreytta þjónustu.

Félag ReykjavíkurAkademíunnar, FRA er bakhjarl stofnunarinnar, styður við starfsemina og stendur vörð um hagsmuni hennar. Þá skipuleggur félagið viðburði sem efla samstöðu félaga innan húss sem utan.

 

Miðstöð fræðafólks sem starfar utan háskólanna

Miðstöð fræðafólks sem starfar utan háskólanna í Þórunnartúni 2 er vettvangur fjölfaglegra umræðna og samstarfs um fræðileg málefni samfélagsins í nútíð og fortíð. Þangað geta félagar sótt fjölbreytta þjónustu, nýtt aðstöðu til funda- og fyrirlestrahalds og tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum. Þar er alltaf heitt á könnunni og félagar velkomnir að líta við, spjalla og taka þátt í fjölbreyttu félagslífi.

Fræðafólkið okkar er veflægt félagatal, Þjónusta og þekking auðveldar leit að sérfræðingum á ákveðnu sviði og Erindi og birtingar dregur saman fjölbreyttar afurðir þeirra félaga sem hverju sinni starfa í Þórunnartúni sem spanna allt frá ritrýndum fræðigreinum til blaðagreina sem dýpkar samfélagsumræðuna.

 

Þjónusta við fræðafólkið

ReykjavíkurAkademían virkjar og tengir fræðafólk sem starfar að rannsóknum og þekkingarmiðlun utan háskólanna, hvetur til samstarfs, heldur utan um tölfræðiupplýsingar um starf og afurðir félagsfólks og er málsvari stéttarinnar gagnvart stjórnvöldum og vísindasamfélaginu.

Þjónusta Akademíunnar við félagana er margslungin, þverfagleg og einstaklingsbundin; auk fyrsta flokks vinnuaðstöðu, funda- og fyrirlestrarými með streymis- og upptökubúnaði má nefna: Rannsóknaþjónustu, Fræðafólkið okkar, veflægt félagatal og Þekkingu og þjónustu sem lyftir fram sérfræðiþekkingu og kunnáttu fræðafólksins.

Þú ert velkomin/n í okkar hóp.

 

Rannsóknir og rannsóknaþjónusta

Meginmarkmið ReykjavíkurAkademíunnar er að styðja við rannsóknir og þekkingarmiðlun fræðafólks sem starfar utan háskólanna. Stofnunin er bakhjarl fræðafólksins og býður upp á faglega umsýslu með verkefnum sem eru styrkt af innlendum og erlendum rannsóknarsjóðum.

Kjölfestan eru rannsóknir einstaklinga, menntaðir í helstu greinum hug- og félagsvísinda sem sjálfir afla fjármagns úr ýmsum rannsóknasjóðum.

Samstarf fræðimanna er vaxandi og innan Akademíunnar er auðvelt að byggja upp rannsóknarhópa og hvers konar vinnuhópa með litlum fyrirvara.

Rannsóknir stofnunarinnar beinast að því að skoða og miðla þekkingu á sögu stofnunarinnar, fræðafólkinu, fræðilegum bakgrunni, framlagi þess til rannsókna og nýsköpunar og mati á hagrænum áhrifum.

 

Þekkingarmiðlun

ReykjavíkurAkademían er hreyfiafl sem stendur fyrir gagnrýnni umræðu um samfélag og menningu og miðlar til samfélagsins niðurstöðum fræðilegra rannsókna.

Árlega eru haldnir opinberir fyrirlestrar, málþing og sýningar; ýmist að frumkvæði Akademíunnar sjálfrar eða í samstarfi við fræðafólk og innlendar og erlendar stofnanir, félög og fyrirtæki.

Útgáfa Akademíunnar stendur á gömlum merg; í dag er fyrst og fremst um að ræða ráðstefnurit og skýrslur sem tengjast stofnunni og því margþætta hlutverki sem hún gegnir gagnvart fræðasamfélaginu.