1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Kveðja ReykjavíkurAkademíunnar: Björn S. Stefánsson (1937-2023)

Kveðja ReykjavíkurAkademíunnar: Björn S. Stefánsson (1937-2023)

by | 20. Jun, 2023 | Fréttir

Björn S. StefánssonOkkar kæri félagi, Björn S. Stefánsson búnaðarhagfræðingur og forstöðumaður Lýðræðissetursins andaðist á Landspítalanum 31. maí síðastliðinn.

Björn starfaði við ReykjavíkurAkademíuna allt frá upphafsárunum í JL húsinu og fram á síðasta dag. Rannsóknir hans á kosningum og lýðræði eru afar merkilegar og hafa vakið athygli víða erlendis. Hér má fræðast nánar um starfsferil  Björns. Á komandi vetri fyrirhugar ReykjavíkurAkademían að halda málþingið Björnsmál Stefánssonar og lyfta þar fram rannsóknum hans og ræða hagnýtingu – raðvals og sjóðvals – þeirra kosningaaðferða sem Björn þróaði í þeim tilgangi að gera fólki mögulegt að leiða mál til lykta á farsælan hátt. Nú hörmum við að Björn verði ekki með okkur þá.

Útför Björns fór fram frá Háteigskirkju 19. júní en þann dag hefði Björn orðið 86 ára gamall.

 

 

Kveðja frá ReykjavíkurAkademíunni:

Sumt fólk er. Hvort sem það er á staðnum eða ekki. Allt frá fyrstu árum ReykjavíkurAkademíunnar hefur Björn Stefánsson haft þar skrifstofu og návist hans  var næstum áþreifanleg, hvort sem hann var á staðnum eða ekki. Á skrifstofu sinni rak hann Lýðræðissetrið þar sem hann gerði rannsóknir á úrslitum kosninga út frá kenningum sínum um sjóðval og raðval sem vöktu athygli víða erlendis, þótt íslenskir stjórnmálamenn hafi látið sér fátt um finnast. Löngum stundum sat fræðimaðurinn þar inni við rannsóknir sínar, og við hin sáum hann kannski bara þegar hann kom og fór.

Nema þegar hann kom fram til að ná sér í kaffi. Þá settist hann við borðið í kaffistofunni með kaffi með mikilli mjólk út í, sat álútur og dýfði mjólkurkexi eða kringlubita í kaffið upp á gamla móðinn. Sem var ekki skrýtið því Björn var jú orðinn eldgamall. Stundum náðist hann í spjall og þá lifnaði yfir honum og hann miðlaði af öllum þeim hafsjó af fróðleik sem hann bjó yfir, hvort sem var um menn eða málefni, ný eða gömul. Það var sama hvar borið var niður, alls staðar var Björn vel heima. Í spurningakeppni á jólahlaðborði sigraði hans lið með yfirburðum.

Björn lenti í hremmingum síðastliðið haust, slasaðist nokkuð og var frá um tíma. En strax og hann mögulega gat var hann mættur aftur og öll dáðumst við að seiglu hans og staðfestu og vorum viss um að hann ætti enn langt eftir ólifað. Því miður varð sú ekki raunin og við munum sakna hans.

Um nokkurt skeið hefur ReykjavíkurAkademían haft í bígerð að halda ráðstefnu honum og fræðastarfi hans til heiðurs en kóvid kom í veg fyrir að af því yrði þar til nú fyrir skömmu að ákveðið var að Björnsmál, ráðstefna um fræðaferil hans og kenningar, verði haldin á næstkomandi vetri. Björn var snortinn og glaður yfir þessum áætlunum. Nú er ljóst að Björn verður ekki viðstaddur í eigin persónu en hann verður áreiðanlega með okkur í anda  og fylgist með úr sumarlandinu.

ReykjavíkurAkademían sendir aðstandendum Björns samúðarkveðjur.

Lilja Hjartardóttir formaður RA

Minningarorðin birtust í Morgunblaðinu, 19. júní 2023.