1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Árni Finnsson, Á milli Glasgow og Sharm El-Sheik – upptaka

Árni Finnsson, Á milli Glasgow og Sharm El-Sheik – upptaka

by | 3. Mar, 2022 | Fréttir, Fyrirlestrarröð RA, Upptökur, Viðburðir RA

Árni Finnsson í pontuFimmtudaginn 3. mars steig Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands á stokk í Dagsbrún, fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar um niðurstöður Loftslagsráðstefnunnar í Glasgow (COP26) sl. haust og hvers má vænta af næsta fundi sem verður haldinn í nóvember nk. í Sharm El-Sheik (COP27).

Hér er hægt að nálgast upptöku af fyrirlestrinum.

Útdráttur
Loftslagsráðstefnan í Glasgow (COP26) sl. haust skilaði árangri en alls ekki nógu miklum. Landsframlög aðildarríkja Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna um samdrátt í losun gróðurhúsaslofttegunda duga ekki til að takmarka hækkun hitastigs jarðar við 1,5°C. Einnig vantar upp á að iðnríkin standi við gefin fyrirheit um 100 milljarða dollara framlag árlega ári frá 2020 til  aðstoðar þróunarríkjum sem standa illa að vígi gagnvart sífellt alvarlegri afleiðingum loftslagsbreytinga. En, til að bregðast við ónógum aðgerðum samþykktu aðildarríkin að kalla eftir uppfærslu landsframlaga aðildarríkjanna strax á þessu ári og síðan á hverju ári eftir það í stað þess að bíða til 2025 líkt og segir í Parísarsamningnum.

Næsti fundur aðildarríkja Loftslagssamningsins (COP27) verður haldinn í Sharm El-Sheik í Egyptalandi í nóvember og getur ráðið úrslitum um trúverðugleika Parísarsamningsins. Tekst mannkyni að takmarka hækkun hitastigs jarðar við 1,5°C? Ný skýrsla Milliríkjanefndar Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna gæti breytt gangi samningaviðræðna um alþjóðlegar aðgerðir til að stöðva losun gróðurhúsalofttegunda.

Hvar stendur Ísland í þessari baráttu?

Um fyrirlesarann

Árni Finnsson býr yfir djúpri þekkingu á náttúrvernd og loftslagsmálum enda hefur hann um áratugaskeið leitt baráttu fyrir náttúruvernd á Íslandi og m.a. verið fulltrúi Náttúruverndarsamtaka Íslands á Loftslagsþingum Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1999. Árni situr í Loftslagsráði f.h. frjálsra félagasamtaka og hefur starfað sem ráðgjafi á því sviði, jafnt innanlands og utan.