BASICS – VERKEFNIÐ

Basic Bibliodrama

Íslendingar og Tyrkir á vinnustofa BASICS verkefnisins í Reykjavík.

Á árunum 2011-2013 tók ReykjavíkurAkademían ásamt stofnunum og samtökum frá fimm öðrum löndum þátt í Grundtvig fullorðinsfræðsluverkefni Evrópusambandsins. Verkefnið hét BASICS – bibliodrama as a way of intercultural learning for adults eða: Söguspuni sem aðferð við millimenningarnám fullorðinna.

Markmiðið var að efla millimenningarsamræðu með aðferð söguspunans. Því var stjórnað af Teatr Grodzki, Bielsko Biala í Póllandi en aðrir þátttakendur voru Egyházfórum í Ungverjalandi, Kocaeli University Institute of Health Sciences í Tyrklandi og Elijah Interfaith Institute í Ísrael.

Söguspuni, betur þekktur sem biblíódrama

Hérlendis var nafn aðferðarinnar sem unnið var með í verkefninu þýtt sem söguspuni en nafnið biblíódrama fesist þó í sessi og verður eftirleiðis notað. Biblio- vísar til bókar eða sögu og -drama þýðir framkvæmd en í stuttu máli má segja að með biblíódrama-aðferðinni séu fornir trúartextar „framkvæmdir“ í því skyni að hjálpa okkur nútímafólkinu að spegla okkur sjálf og samtímann í fornum, djúpvitrum ritum. Um miðja síðustu öld varð aðferðin til um svipað leyti í Mið-Evrópu og í gyðingasöfnuðum Bandaríkjanna. Hún er í anda rúmensk-bandaríska geðlæknisins og félagsvísindafrömuðarins Jacob L. Moreno (1889-1974) og aðferða hans, félagsörvunar (sociometry) og psychodrama (þekkt undir því heiti hérlendis sem útleggst „afhöfn sálar“). Afbrigði biblíódrama, svokallað bibliolog, má rekja til gyðinglegrar hefðar, midrash, sem leitar túlkunar á textum með aðferðum lista og skapandi samtala handan hins ritaða orðs.

Máttur listanna
Basic Bibliodrama

Trúðar í hugleiðslu á vinnustofu BASICS.

Orðið millimening er þýðing á enska orðinu interculture og merkir það sem gerist í samskiptum milli menningarheima. Verkefnið var innblásið af Hvítbók Evrópuráðsins um millimenningu frá árinu 2008 en þar er lögð áhersla á að umburðarlyndi og fjölhyggja skipti meira máli en nokkru sinni fyrr. Markmið verkefnisins var að efla með aðferðum biblíódrama millimenningarlega samræðu byggða á trúarbrögðum en í „menningarlegri sköpunargáfu er að finna umtalsverða möguleika til að auka virðingu fyrir hinu framandi. Listir er enn fremur leikvangur þversagna og táknræns ágreinings og þær veita svigrúm fyrir einstaklingsbundna tjáningu, gagnrýna sjálfsíhugun og miðlun. Eðli þeirra er þannig að fara yfir landamæri og tengjast og tala beint við tilfinningar fólks“ (Orð og gjörð, 2012).

Þrenn stærstu trúarbrögð Evrópu

Fulltrúar þriggja stærstu trúarbragða álfunnar tóku þátt í verkefninu; kristni, íslam og gyðingsdóms. Reyndar komu fulltrúar gyðingsdómsins frá Ísrael en sækja má þátttakendur Evrópuverkefna út fyrir álfuna hafi þeir yfirburðaþekkingu á efninu eins og fulltrúar Elihjah Interfaith Institure í Jerúsamlem höfðu. Fulltrúar íslam voru sálfræðingar við heilbrigðisháskólann í Kocaeli, Tyrklandi, en Íslendingar ásamt Pólverjum komu með kristna sýn inn í verkefnið.

Í hópi þessara þjóða og í vinnu hópanna heima fyrir voru sögur tengdar trúarbrögðunum skoðaðar, ræddar og „framkvæmdar“ með skapandi aðferðum. Áhrif verkefnisins voru mikil, einkum í löndum þar sem fólk af ólíkum trúarbrögðum höfðu aldrei áður dvalið í sama herberginu, en einnig hjá okkur sem vorum á þessum tíma að taka fyrstu skrefin inn í fjölmenningarsamfélagið.

Hópurinn þróaði og skrifaði í sameiningu kennsluefnið The Word and The Act – Bibliodrama in intercultural dialogue: Orð og gjörð – Biblíódrama sem aðferð í fjölmenningarfræðslu fullorðinna.

Hafið samband

Björg Árnadóttir tók þátt í verkefninu fyrir hönd ReykjavíkurAkademíunnar og auk hennar Halldór Reynisson á Biskupsskrifstofu og Sigurlaug Hreinsdóttir, heimspekikennari. Fimm aðrir Íslendingar sóttu vinnustofur erlendis og rúmlega hundrað manns sóttu vinnustofur hérlendis.

Biblíódramaaðferðin hefur legið í dvala þótt þekkingin sem varð til í BASICS verkefninu hafi haft áhrif á síðari verkefni Akademíunnar á sviði valdeflandi sköpunar. Björg Árnadóttir hefur þó haldið nokkur námskeið undir áhrifum biblíódrama og auk þess fengið styrk til að halda biblíódrama vinnustofur í Svíþjóð þar sem viðfangsefnið var sótt í norræna goðafræði og íslenskar fornsögur.

Áhugasamir um biblíódramaaðferðina hafi samband við Björgu Árnadóttur (bjorg [hja] stilvopnid.is) eða í síma 8996917.

Stafræn saga Bjargar Árnadóttur (frá 2014) um reynslu af biblíódrama í millimenningarstarfi:

https://vimeo.com/75598439?fbclid=IwAR1J-V4SsvmJ_dmn_UZjtAozWWUhMC_gxAB2KNfT-ITRUCi04MtX6rRx9CQ

Um biblíódrama (2014):

http://www.teatrgrodzki.pl/book/slowo-i-dzialanie-bibliodrama-w-dialogu-miedzykulturowym/