1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » DigiPower verkefnið óskar eftir samstarfsaðilum

DigiPower verkefnið óskar eftir samstarfsaðilum

by | 14. Feb, 2017 | Fréttir

DigiPowerFöstudaginn 17. febrúar kl. 13:30 mun ReykjavíkurAkademían halda kynningarfund um Erasmus+ samstarfsverkefnið DigiPower (www.digipower.akademia.is). Lengra heiti verkefnisins er ,,Digital Storytelling – Empowerment through cultural integration”.

Kynningin fer fram í húsakynnum ReykjavíkurAkademíunnar við Þórunnartún 2.

Markmið samstarfsverkefnisins DigiPower er að kanna hvort og þá hvernig þróa megi og aðlaga aðferð stafrænna sagna svo hún henti í kennslu og í starfi með fullorðnu fólki með sérþarfir. Samtals taka sjö lönd þátt í verkefninu. ReykjavíkurAkademían leitar því eftir samstarfsaðilum sem hafa áhuga á að taka þátt í vinnustofum á Ítalíu (dagana 21.- 27. maí) annars vegar og hins vegar í Slóveníu (dagana 18. – 22. september). Við erum að leita að fylgdarmönnum með reynslu í að kenna/starfa með fullorðnum einstaklingum með þroskaskerðingu og/eða kenna/starfa með einstaklingum sem eru utangarðs í samfélaginu.

Samstarfsverkefninu fylgir fjármagn upp í ferðir og uppihald.

Til undirbúnings vinnustofunum á Ítalíu og í Slóveníu mun Setur stafrænna sagna í ReykjavíkurAkademíunni standa fyrir námskeiði fyrir fylgdarmennina í notkun á aðferð stafrænna sagna með 2ja-3ja daga vinnustofu í lok mars. Við stefnum síðan að annarri vinnustofu með skjólstæðingum og aðstoðarmönnum í apríl. Allir eru að sjálfsögðu velkomnir á kynninguna þann 17. febrúar. Námskeiðið í lok mars er – svo lengi sem húsrúm leyfir – einnig opið fagfólki þó það hafi ekki hugsað sér að taka þátt í vinnustofum á Ítalíu og í Slóveníu. Stafrænar sögur (digital storytelling) er aðferð til að setja stutta sögu með eigin rödd á stafrænt form. Aðferðin legur aðaláherslu að sagan komist til skila og stafrænu þættirnir yfirtaka hana ekki. Í vinnustofum er byrjað á æfingum í að segja sögur, síðan er unnið handrit, það tekið upp á hljóðrás sem er síðan notuð í klippiforriti til að setja inn myndir og fleira. Í lok vinnustofunnar er svo komin stutt stafræn saga sem fólk getur notað eins og því lystir.

Sjá nánar um stafrænar sögur með því að smella á þessa slóð: StoryCenter