1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Efling þekkingarsamfélags? Umsögn um tillögu til þingsályktunar

Efling þekkingarsamfélags? Umsögn um tillögu til þingsályktunar

by | 28. Mar, 2023 | Fréttir, Opinber umræða, Umhverfi rannsókna, Útgáfa RA

ReykjavíkurAkademían skilaði nýverið umrsögn í samráðsgögn stjórnvalda um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til að efla þekkingarsamfélagið á Ísland til ársins 2025. Í umsögn stofnunarinnar er athyglinni einkum beint að þeim þáttum tillögunnar sem snúa að hug- og félagsvísindum og mikilvægi þess að undanskilja þau ekki við mótun opinberrar stefnu um eflingu þekkingarsamfélags.

Þekking, hugvit og nýsköpun eru hornsteinar allra vísinda og að í því felist pólitískur ómöguleiki að ætla að skilgreina eða miðstýra jafn fljótandi hugtökum eða ákveða fyrirfram hvaðan úr ranni vísindanna bestu hugmyndirnar munu koma, hverjir raungera þær, hvernig og hvar.

Í tillögunni er þung áhersla á hagnýtingu þekkingar og athyglinni beint að svokölluðum STEAM-greinum og horft fram hjá mikilvægi hug- og félagsvísinda sem í því samhengi gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja að innleiðing nýrrar þekkingar og tækni gangi hratt og vel fyrir sig. Auk þess þurfa frumkvöðlar að búa yfir víðsýni, tungumálaþekkingu, ályktunarhæfni, gagnrýnni hugsun, skilningi á samfélaginu og sögu þess og að vera meðvitaðir um lög og siðfræði og búa yfir getu til að horfa fram í tímann. Allir þessir eiginleikar þroskast við ástundun hug- og félagsvísinda.

ReykjavíkurAkademían er reiðubúin að koma að fyrirhugaðri árlegri endurskoðun á hinum stefnumótandi aðgerðum til eflingar þekkingarsamfélaginum og telur að í þeim áformum liggi góður skilningur á því hversu mikilvægt það er að vera „á tánum“ þegar fengist er við jafn kvik hugtök og þekkingu og samfélagslegt mikilvægi í óvissri framtíð.

Hér er hægt að lesa umsögn ReykjavíkurAkademíunnar í heild sinni.