1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Doktorsvörn akademónsins Eiríks Bergmanns

Doktorsvörn akademónsins Eiríks Bergmanns

by | 24. Jun, 2009 | Fréttir

Mánudaginn 22. júní s.l. varði Eiríkur Bergmann doktorsritgerð sína ,,Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar” – Áhrif þjóðernishugmynda á Evrópustefnu íslenskra stjórnvald. Andmælendur voru dr. Rasmus Gjedssö Bertelsen, gegnir rannsóknarstöðu við Harvard Kennedy School of Government og dr. Maria Elvira Mendez Pinedo, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.Ágrip af ritgerðinni
Í rannsókninni er spurt hvers vegna Íslendingar kusu að tengjast Evrópusamrunanum í gegnum Evrópska efnahagssvæðið (EES) og Schengen-landamærasamstarfið en ekki með fullri aðild að Evrópusambandinu. Rannsóknin nær fram til maí 2009. Tekið er til skoðunar hvort skýri betur þessa afstöðu íslenskra stjórnmálamanna, efnahagslegir hagsmunir eða hugmyndir um fullveldi þjóðarinnar.

Rannsókninni er skipt í þrjá hluta. Fyrst er fjallað um þá kenningarlegu umræðu sem fram hefur farið um tengsl ríkja við Evrópusamrunann, í öðrum hluta eru tengsl Íslands við Evrópusamrunann til skoðunar og í þeim þriðja er orðræða íslenskra stjórnmálamanna um þátttöku í evrópsku samstarfi greind í þremur afmörkuðum umræðulotum: Fyrst í aðdraganga EFTA-aðildar (1970), síðan í aðdraganda EES-aðildar (1994) og að lokum afmarkað tímabil þegar rætt var um hugsanlega inngöngu í ESB (2000 til 2003).

Rannsakað er hvort og þá hvernig orðræða og arfleið sjálfstæðisbaráttunnar hefur haft áhrif á Evrópustefnu íslenskra stjórnvalda. Í efnahagslegu tilliti hafa íslensk stjórnvöld hins vegar álíka þörf og stjórnvöld annars staðar í Evrópu til að taka þátt í samrunaþróuninni, og kann þetta að skýra veru Íslands í EES sem veitir Íslendingum aðild að innri markaði ESB en um leið samþykktu íslensk stjórnvöld að lúta reglum ESB í samstarfinu. Þessi togstreita, á milli efnahagslegra hagsmuna og hugmynda um fullveldi íslensku þjóðarinnar, hefur síðan framkallað eins konar rof á milli orðræðunnar um hina frjálsu og fullvalda íslensku þjóð og þess raunveruleika sem blasir við í samstarfinu.

Leiðbeinandi var dr. Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor. Í doktorsnefnd sátu dr. Guðmundur Hálfdanarson, sagnfræðiprófessor, og dr. Guðmundur Alfreðsson, lagaprófessor.

 

Sjá nánar á heimasíðu Háskóla Íslands