1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Frettabref Cost Coimbra Mai 2012

Frettabref Cost Coimbra Mai 2012

by | 24. May, 2012 | Fréttir

 

COST IS 1007 INVESTIGATING CULTURAL SUSTAINABILITY

PLACING CULTURE IN SUSTAINABLE DEVELOPMENT: POLICIES, STRATEGIES AND PROCESSES

cost.png

 

Dagana 14.-16. maí var haldin ráðstefna á vegum COST IS 1007 Investigating Cultural Sustainability í Centro de Estudos Socialis (CES), University of Coimbra í Portúgal, en það er alþjóðlegt rannsóknanet um þátt menningar í sjálfbærri þróun. Ráðstefnan, var sú þriðja í röðinni af átta, og var að hluta opin almenningi en einnig fóru fram lokaðir vinnufundir. Alls sóttu 53 manns ráðstefnuna frá 27 löndum. Fyrir Íslands hönd sóttu Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur og Gunnþóra Ólafsdóttir landfræðingur í ReykjavíkurAkademíunni ráðstefnuna.

Eftirtöldum fræðimönnum var boðið sérstaklega á ráðstefnuna til að kynna rannsóknir sínar: (1) Dr. Yrjö Haila prófessor í umhverfisstefnu við háskólann í Tampere í Finnlandi fjallaði um vandamálið sem mannkynið stendur frammi fyrir að þurfa að tileinka sér nýjan hugsunarhátt og lífsstíl til að mæta hinni óumflýjanlegu kröfu um líf í takt við sjálfbæra þróun; (2) Dr. Catherine Driscoll, dósent í kynja- og menningarfræðum við háskólann í Sydney, kynnti niðurstöður rannsóknarhóps um menningarlega sjálfbærni í þremur áströlskum smábæjum; (3) M. Sharon Jeannotte rannsakandi og dr. Caroline Andrew framkvæmdastjóri Miðstöðvar um stjórnsýslufræði við háskólann í Ottawa, Kanada sögðu frá árangri tilraunaverkefnis um að taka tillit til menningar í opinberum áætlunum og stefnum um sjálfbæra þróun kanadískra bæja og borga; og (4) Dr. Keiko Nowacka ráðgjafi í menningarmálum hjá UNESCO kynnti tilraunaverkefni á vegum stofnunarinnar um að vernda og efla margbreytileika í menningarlegri tjáningu. Verkefnið mælir umfang og þátt menningar í einstökum ríkjum og notar það sem viðmið um hvaða stefnubreytingu þarf að taka til að ríki þróist á jákvæðan hátt.

Ein málstofa var tileiknuð mögulegu hlutverki listamanna í sjálfbærri þróun. Í pallborði sátu portúgalski fiðlusnillingurinn José Valenta og myndlistar- og tónlistarmaðurinn dr. António Olaio og fjölluðu um mögulegt vald listamanna til að opna augu fólks gagnvart mikilvægum málefnum. Báðir lýstu yfir áhuga á að taka þátt í verkefnum sem gætu stuðlað að sjálfbærri þróun. Þriðji þátttakandinn var félagsfræðingurinn dr. Claudia Carvalho sem kynnti vel heppnað tilraunaverkefni hóps leiklistarmanna sem var fenginn til að vekja athygli heimamanna á merkilegri sögu Coimbra. Verkefnið tengist ákveðnum borgarhluta sem hefur hnignað mjög á undanförnum árum og heimamenn eru á góðri leið með að yfirgefa. Markmið verkefnisins var að auðga menningarvitund fólksins sem í Coimbra býr og starfar og vekja athygli á menningarverðmætum sem tengjast sögunni en eru ekki nægilega vel nýtt, virt eða vernduð.

Tvö markmið voru leiðarljós lokuðu vinnufundanna. Annars vegar að upplýsa og fá yfirlit um samspil menningar og sjálfbærrar þróunar í stefnu allra þátttökuríkja rannsóknanetsins og hins vegar að stofna litla rannsóknaklasa innan netsins um ólíka þætti sem tengjast menningarlegri sjálfbærni. Stofnun rannsóknaklasa gekk eftir en ekki tókst að fá yfirlit yfir hvernig menningunni er gerð skil í opinberri stefnumótun um sjálfbæra þróun í þátttökuríkjunum enda er slík samantekt gríðarlega yfirgripsmikið og tímafrekt verk. Sólveig og Gunnþóra gerðu framvindu verkefnisins á íslenskri grund skil í stuttu erindi. Á síðustu 6 mánuðum hefur íslenski COST-hópurinn (a) kynnt sér stefnumörkun Íslands um sjálfbæra þróun, (b) vakið athygli á rannsóknanetinu í hinum íslenska fræðaheimi og hvatt til rannsókna á hlutverki menningar í sjálfbærri þróun, (c) haldið vinnufundi með áhugasömum sérfræðingum frá Stofnun Sæmundar fróða, Rannsókasetri Háskólans á Hornafirði og Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands með samstarf og samvinnu í huga, m.a. að hvetja til þátttöku nemenda og þróun á verkefnum á doktors- og mastersstigi, (d) hafið undirbúning samstarfsverkefnis með Háskólanum á Bifröst, Háskóla Íslands og ReykjavíkurAkademíunni um vinnustofu kennara og námsskipuleggjenda haustið 2012 sem hefur að markmiði að þróa nám á mastersstigi sem fléttar menningu og sjálfbærni inn í meistaranám í hugvísindum og menningarstjórnunarfræðum, (e) komið að yfirstandandi endurskoðun menningarstefnu Reykjavíkurborgar með tilliti til menningarlegrar sjálfbærni, (f) tekið að sér að rannsaka hvort og hvernig menning, sjálfbær þróun og/eða menningarleg sjálfbærni endurspeglast í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2012 sem og í stefnu einstakra sviða borgarinnar.

Nánari upplýsingar um COST verkefnið IS 1007 Investigating Cultural Sustainability er að finna á vefsíðu rannsóknanetsins http://www.culturalsustainability.eu/