1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Fréttatilkynning – bandarískur styrkur til rannsóknahóps um umhverfissögu sem tengdur er ReykjavíkurAkademíunni.

Fréttatilkynning – bandarískur styrkur til rannsóknahóps um umhverfissögu sem tengdur er ReykjavíkurAkademíunni.

by | 6. Oct, 2014 | Fréttir

Fréttatilkynning – bandarískur styrkur til rannsóknahóps um umhverfissögu sem tengdur er ReykjavíkurAkademíunni (RA)

arnidanielMegan HicksraggaAstrid Ogilvieseravidar

Fimm manna rannsóknarhópur undir forystu Astrid Ogilvie sagnfræðings við Boulder háskóla í Colorado og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri og Ragnhildar Sigurðardóttur vistfræðings við ReykjavíkurAkademíuna fékk nýverið myndarlegan forverkefnisstyrk úr EAGER-prógrammi bandaríska vísindasjóðsins, NSF (National Science Foundation). Sjóðurinn er einn sá virtasti í heimi vísinda og fræða. Auk Astrid og Ragnhildar taka þátt í verkefninu Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur við RA, Megan Hicks fornleifafræðingur við CUNY (The City University of New York) og Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur við RA.

Verkefnið er þverfaglegt og snýst um að rannsaka samspil manns og umhverfis í Mývatnssveit á tímabilinu 1700-1950. Miklar rannsóknir hafa farið fram á sviðum fornleifafræði og fornvistfræði umhverfis Mývatn á undanförnum árum en þær hafa einkum beinst að landnámi og búsetu á miðöldum. Þessar rannsóknir hafa að verulegu leyti verið fjármagnaðar af NSF. Miklar rannsóknir hafa einnig verið gerðar á fornleifum tímabilsins 1700-1950 við Mývatn, en hugmyndin með verkefninu er að tengja þekkingu á fornleifum við þekkingu sem geymd er í skjölum, ritverkum og öðrum heimildum á sviði hefðbundinna hug- og félagsvísinda.

Verkefnið felur í sér miklar aðferðafræðilegar og vísindalegar nýjungar, einkum á sviði umhverfishugvísinda, sem eru einn mikilvægasti vaxtarbroddur fræðasamfélagsins um þessar mundir. Markvisst verður unnið að því aðbyggja upp samræðu milli ólíkra greina: fornvistfræði, fornveðurfræði, fornleifafræði, umhverfissögu og bókmenntasögu í því skyni að samþætta margvíslega þekkingu. Slíkt þverfaglegt samstarf er afar mikilvægt og hefur í för með sér þekkingarleg margfeldisáhrif.

Styrkurinn og myndun rannsóknarhópsins er mikilvægt skref fyrir ReykjavíkurAkademíuna, sem stöðugt er að sækja í sig veðrið á fræðasviðinu. Ýmis rannsóknar- og útgáfuverkefni hafa verið í gangi og eru í undirbúningi í ReykjavíkurAkademíunni, t.d. á sviði íslenskra fræða, umhverfissögu og sögu félagshreyfinga, svo eitthvað sé nefnt.

Nánari upplýsingar veita Astrid Ogilvie: s 846 4145, astrid.ogilvie@unak.is og

Ragnhildur Sigurðardóttir s 862 3423, raga@nett.is