1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga

Umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga

by | 14. Apr, 2009 | Fréttir, Opinber umræða

8. apríl síðastliðinn gerði ReykjavíkurAkademían athugasemd við heilsíðuauglýsingu þingmanna Sjálfstæðisflokksins þar sem vitnað er í allmargar umsagnir fræðimanna og sérfræðinga um frumvarp um breytingar á stjórnarskrá. Í auglýsingunni eru meðal annars tilgreindar þrjár málsgreinar þar sem vitnað er til ReykjavíkurAkademíunnar. Heldur illa tókst þó til. Í fyrstu málsgreinininni var orðalagi lítillega breytt, önnur málsgreinin var tekin úr samhengi og þriðja málsgreinin var einfaldlega ekki tekin úr umsögn ReykjavíkurAkademíunna.  Hér má lesa umsögnina í heild sinni.

Efni: Umsögn ReykjavíkurAkademíunnar (RA) um frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 385. mál Alþingis.

Stjórn RA þakkar fyrir tækifæri til að gera athugasemdir við frumvarp til stjórnskipunarlaga. Tíminn er þó allt of naumur til að taka saman vandaðar efnislegar athugasemdir með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hér innanhúss.
Hins vegar fagnar RA tímabærri umræðu um lýðræði og stjórnarskrá. Lýðræði er ekki sjálfgefið. Það verður að vera í stöðugri endurskoðun svo grunnhugmyndir þess séu sem virkastar. RA hefur verulegar efasemdir um þau frumvarpsdrög um stjórnlagaþing sem fylgja frumvarpinu og vill benda á eftirfarandi:

1. Þær raddir hafa verið áberandi að valdi hafi verið misbeitt hér á landi undanfarin ár. Hafi sannleikskorn verið í þeirri umræðu gæti það stefnt lýðræðinu í hættu. Það er líka hættumerki þegar stjórnmálamenn vísa stöðugt í formreglur lýðræðisins þegar þeir réttlæta umdeildar ákvarðanir. Í fræðaheiminum hefur verið rætt um þöggun, að menn hafi haldið aftur af sér í samfélagsumræðu af ótta við valdið. Sjálfstætt fræðasamfélag eins og ReykjavíkurAkademían þrífst ekki til lengdar nema raunverulegt lýðræði ríki, án slíkrar þöggunar.
2. Undanfarna áratugi hafa þróast í alþjóðlegu fræðasamfélagi aðferðir til að greina og afhjúpa vald í samfélaginu, misbeitingu þess og hættur sem stafa þar af. Einnig hefur farið fram mikil fræðileg umræða um lýðræði, inntak þess og hlutverk, sem og hverskonar mannréttindi. Því er lífsnauðsynlegt að vinna við nýja stjórnarskrá hvíli á víðtækum þekkingargrunni en ekki einungis lögfræði og stjórnmálafræði. Önnur fræðasvið verða að eiga sterka rödd þegar rætt er um það inntak sem mestu máli skiptir. Í störfum stjórnlagaþings verður að vera lifandi samræða milli þeirra fulltrúa almennings sem sitja þingið og fræðimanna sem geta aukið og dýpkað skilning manna á lýðræði og inntaki þess. Slík aðkoma fræðasamfélagsins gæti orðið heillavænlegri en sú íhlutun Alþingis um störf stjórnlagaþingsins sem virðist gert ráð fyrir í 4. gr. frumvarpsins
Til að auka vægi víðtækrar fræðiþekkingar til stuðnings við fyrirhugað stjórnlagaþing svo það nái tilætluðum markmiðum býður ReykjavíkurAkademían fram krafta sína við gerð þess frumvarps sem drög hafa verið lögð að.

Fyrir hönd ReykjavíkurAkademíunnar

________________________
Viðar Hreinsson
Framkvæmdastjóri RA