REYKJAVÍKURAKADEMÍAN, sem stofnuð var í maí 1997 og er félagsskapur sjálfstætt starfandi fræðimanna, hefur fundið sér þak yfir höfuðið. Samtökin leigja skrifstofuhúsnæði í JL-húsinu við Hringbraut af fjármálaráðuneytinu en þar eiga allt að 25 manns að geta haft aðstöðu til fræðistarfa.

Samtök sjálfstætt starfandi fræðimanna

Reykjavíkurakademían í JL-húsið

REYKJAVÍKURAKADEMÍAN, sem stofnuð var í maí 1997 og er félagsskapur sjálfstætt starfandi fræðimanna, hefur fundið sér þak yfir höfuðið. Samtökin leigja skrifstofuhúsnæði í JL-húsinu við Hringbraut af fjármálaráðuneytinu en þar eiga allt að 25 manns að geta haft aðstöðu til fræðistarfa. Jón Karl Helgason, framkvæmdastjóri samtakanna, segir í samtali við Morgunblaðið að gerður hafi verið leigusamningur til eins árs en samtökin hafa notið velvildar hjá fjármálaráðuneytinu og styrkja frá Reykjavíkurborg. “Þetta ár verður eins konar tilraunatímabil til að sjá hvaða grundvöllur er undir starfsemi af þessu tagi.”

Jón Karl segir að hugmyndin á bak við opnun þessa húsnæðis sé svipuð og á bak við Tæknigarð á lóð Háskóla Íslands. “Stefnt er að því að þetta verði fræðimannagarður þar sem sjálfstætt starfandi fræðimenn geta leigt sér vinnuaðstöðu og verið í samfélagi við aðra fræðimenn. Þegar er kominn nokkur hópur fólks sem er að flytja inn í húsnæðið. Þetta eru einkum fræðimenn í félags- og hugvísindum, bókmenntafræðingar, sagnfræðingar, heimspekingar, félagssálfræðingar og fleiri. Með sameiningu fræðimanna af þessum sviðum undir einu þaki verður vonandi til þverfagleg sýn sem veitir okkur færi á að takast á við fjölbreytt og jafnvel nýstárleg fræðileg verkefni.”

Jón Karl sagði aðspurður að akademían ætti ekki að vera mótvægi við íslenskar háskólastofnanir heldur viðbót. “Það eru alltaf fleiri og fleiri hæfir fræðimenn sem ljúka langskólanámi, mun fleiri en komast að við kennslu og fræðistörf við hefðbundnar háskólastofnanir. Sumir þeirra sem ekki hafa fengið fasta kennara- eða rannsóknarstöðu hafa tekið þann kostinn að leggja fræðin á hilluna en við vonum að akademían verði vettvangur og hvati fyrir þetta fólk til þess að stunda sín fræði áfram og skapa sér sín eigin tækifæri.”