(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Gammablossar 4. mars

Gammablossar 4. mars

by | 2. mar, 2009 | Fréttir, Fyrirlestrarröð RA, Viðburðir RA

Miðvikudaginn 4. mars flytur Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson fyrirlesturinn „Ísland er ekki líkt tunglinu: Hugleiðingar um þjálfun tunglfara á Íslandi.“ Í fyrirlestrinum verður sagt stuttlega frá tveimur ferðalögum bandarískrageimfara og geimfaraefna, sumra þeirra síðar tunglfara, um hálendi Íslands í júlí 1965 og 1967, einkum ferðalögum upp í Dyngjufjöll og Öskju en einnig í Jökulheima. Sagt verður frá aðferðum við þjálfun væntanlegra tunglfara, áhuga íslenskra dagblaða á þessum atburðum og upplifun þeirra Íslendinga sem með þeim fóru. Auk samtíma frásagna íslenskra dagblaða og viðtala við nokkra af þeim Íslendingum sem voru með í ferðalögunum er byggt á erlendum heimildum og viðtali við einn af tólf tunglförum og er aðalheiti fyrirlestursins úr því viðtali. Fyrirlesturinn hefst stundvíslega klukkan 12.05 og stendur til 13.00. Allir velkomnir.

Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson er prófessor við hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Hann hefur bakkalár- og kandídatspróf, hvorttveggja í sagnfræði, frá Háskóla Íslands og doktorspróf í menntunarfræðum frá Wisconsinháskóla í Madison. Ingólfur starfaði sem landvörður í nokkur sumur á síðari hluta 9. áratugar síðustu aldar. Frá árinu 2000 hefur hann verið formaður SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi og situr nú í svæðisráði norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.