(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Hipp, hipp húrra! AkureyrarAkademían 15 ára

Hipp, hipp húrra! AkureyrarAkademían 15 ára

by | 28. okt, 2021 | Fréttir

Aðalheiður Steingrímsdóttir framkvæmdastjóri RA

Aðalheiður Steingrímsdóttir framkvæmdastjóri AkAk

Á þessu ári eru 15 ár liðin frá því Félag sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi var stofnað árið 2006. Átta árum síðar tók AkureyrarAkademían (AkAk) við rekstri og starfsemi þess.

Hlutverk AkAk er að starfrækja fræða- og menningarsetur með starfsaðstöðu fyrir háskólanema og þá sem sinna fræði- og ritstörfum og að skapa brú milli fræða og samfélags með miðlun og samstarfi við almenning, fyrirtæki, stofnanir og opinbera aðila. Starfsemi AkAk hefur gefið háskólanemum og þeim sem vinna að fræði- og ritstörfum á Akureyri tækifæri til menntunar og sköpunar á heimaslóðum og þverfaglegt samfélag einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn hefur skapað frjótt samtal og umhverfi sem hefur auðgað mannlíf og menningarstarf á Norðurlandi.

Í tilefni af 15 ára afmæli AkAk var gefin út skýrsla sem Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur tók saman um verkefni sem einstaklingar unnu að á þeim tíma er þeir voru með vinnuaðstöðu hjá AkureyrarAkademíunni. Skýrslan ber heitið Sköpun akademóna. Skýrsla um verkefni og viðburði 2006-2021 og þar kemur fram að tæplega 100 einstaklingar hafi haft vinnuaðstöðu hjá AkAk, flestir þeirra í námi við innlenda og erlenda háskóla og hinn hlutinn fjölbreyttur hópur vísinda-, fræði- og listamanna sem og frumkvöðla, og eru það tæplega 50 greinar eða fræðisvið sem akademónar hafa lagt stund á. Á þessum tíma hefur AkAk staðið fyrir ríflega 150 viðburðum þar sem lögð hefur verið áhersla á að tengja saman ólíka hópa og að virkja almenning til þátttöku.

ReykjavíkurAkademían óskar systurstofnun sinni innilega til hamingju með starfsafmælið.