(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Hversdagsvald: Matur, drykkur og ímyndir, miðvikudaginn 21. janúar

Hversdagsvald: Matur, drykkur og ímyndir, miðvikudaginn 21. janúar

by | 19. jan, 2009 | Fréttir

Miðvikudaginn 21. janúar flytja Hildigunnur Ólafsdóttir og Kristinn Schram fyrirlestra undir heitinu Hversdagsvald, matur, drykkur og ímyndir. Fyrirlestrarnir standa yfir frá klukkan 20.00-22.00 og eru hluti af fyrirlestraröð ÍNOR verkefnisins. Athugasemdir og viðbrögð eru í höndum Ármanns Jakobssonar og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir sér um fundarstjórn. Þjóðlegar veitingar verða veittar í fundarhléi.
Hildigunnur Ólafsdóttir, dr. í afbrotafræði, fjallar um vel þekktar ímyndir af áfengisneysluvenjum Íslendinga og tilhneiginguna til að skapa þeim
sérstöðu. Ennfremur verður rætt um hvernig þessar ímyndir hafa verið notaðar sem tæki til aðgreiningar þjóðfélagshópa, til að réttlæta nýja siði og í áfengistengdri ferðamennsku. Þá verður gerð grein fyrir því hvernig þær birtast í áfengispólitískri stefnumótun.

Með hliðsjón af rannsókum sínum meðal Íslendinga erlendis mun Kristinn Schram, þjóðfræðingur og forstöðumaður Þjóðfræðistofu, fjalla um það hvernig íslenskar matarhefðir eru iðkaðar og leiknar bæði á mannamótum og í fjölmiðlum. Varpað verður ljósi á það baksvið ímynda af framandi og sérvitri þjóð á norðurhjara sem viðhaldið er í hnattrænum fjölmiðlum og sögulegum skírskotunum. Sjónum verður beint að því hvernig Íslendingar hafa tekið þessar ímyndir í sínar hendur í þverþjóðlegum samskiptum. Tekin verða dæmi af samskiptum íslenskra námsmanna erlendis við heimamenn sem og útrásarvíkingana svokölluðu og þau skoðuð í ljósi hversdagslegrar valdabaráttu og íroníu.