1. Forsíða
  2.  » 
  3. Útgáfa RA
  4.  » 
  5. Bækur
  6.  » Íslensk menning: Skáldið í skriftinni

Íslensk menning: Skáldið í skriftinni

by | 2. Jul, 2004 | Bækur, Fréttir, Ritraðir RA, Útgáfa RA

Íslensk menning III
Skáldið í skriftinni. Snorri Sturluson og Egils saga (2004)
Torfi H. Tulinius

Hvers vegna var Egils saga samin og hvaða þýðingu hafði hún í huga lesenda á 13. öld? Hver er Egill og hvernig endurspeglar lýsingin á honum atburði í lífi Snorra Sturlusonar, líklegs höfundar sögunnar? Hér glímir Torfi H. Tulinius við þessar og fleiri hliðstæðar spurningar og leggur fram óvænta lausn á þeirri ráðgátu sem Egils saga óneitanlega er. Það gerir hann með hugvitssamlegri rannsókn á byggingu sögunnar og innihaldi, sem helgast af nýjum skilningi á eðli íslenskrar menningar á Sturlungaöld og tengslum hennar við evrópska miðaldamenningu. Torfi sýnir fram á að Egils saga sé gegnsýrð kaþólskum viðhorfum og þar að auki mun persónulegra verk en áður hefur verið talið. Snorri hafi með sögunni viljað bæta fyrir þær syndir sem hann drýgði í deilum sínum við Sighvat bróður sinn og Sturlu son hans. Hann hafi séð hlutskipti sitt og Egils í ljósi sögu Gamla testamentisins af Davíð konungi. Allir þrír hafi misst frumburð sinni og túlkað það sem refsingu fyrir að hafa lagt á ráð um dauða sinna nánustu keppinauta. Er Egla e.t.v. pólitískt uppgjör Snorra Sturlusonar?

Torfi H. Tulinius dregur fram fjölmargar hliðstæður á milli lýsingarinnar á Agli Skallagrímssyni og ævi Snorra og setur fram ögrandi tilgátur um þær ástæður sem Snorri kann að hafa haft fyrir ritun verksins.

Torfi er prófesor í frönsku og miðaldabókmenntum við Háskóla Íslands og hefur sent frá sér fjölmargar ritsmíðar um fornsögurnar. Þessi fyrsta bók hans um efnið á íslensku hefur ekki aðeins þýðingu fyrir skilning okkar á Egils sögu heldur Íslendingasögum sem bókmenntagrein, enda er hér á ferðinni læsileg og spennandi fræðibók sem bregður óvæntri birtu á Eglu sem eins af stórvirkjum íslenskrar bókmenntasögu.

Skáldið í skriftinni er þriðja bókin í ritröðinni Íslensk menning sem ReykjavíkurAkademían og Hið íslenska bókmenntafélag standa að.
Kápuhönnun annaðist Snæbjörn Arngrímsson.

Íslensk menning er röð veigamikilla fræðirita sem fjalla um ýmsar hliðar sögu og menningar. Ritröðin er gefin út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags og ReykjavíkurAkademíunnar.
Ritstjórar Adolf Friðriksson og Þorleifur Hauksson

Sveinn Yngvi Egilsson, Arfur og umbylting. Rannsókn á íslenskri rómantík. (1999). Bókin fæst hjá Bóksölu stúdenta. Smelltu hér.
Guðmundur Hálfdanarson, Íslenska þjóðríkið – uppruni og endimörk. (2001) Bókin fæst hjá Bóksölu stúdenta. Smelltu hér.
Torfi H. Tulinius, Skáldið í skrifstinni. Snorri Sturluson og Egils saga (2004) Bókin fæst hjá Bóksölu stúdenta. Smelltu hér

 

__________________________________________________________________________________________________________________________

Þessi texti er tekinn saman af Önnu Þorbjörgu Þorgrímsdóttur, 2. júlí 2024 meðal annars á grunni eftirfarandi heimilda:

Vefsafn.is, afrit af vef ReykjavíkurAkademíunnar, www.akademia.is, 10. desember 2007.
Vefsafn.is, afrit af vef ReykjavíkurAkademíunnar, www.akademia.is, 25. nóvember 2009