Íslenskar fornritarannsóknir og þjóðarmenning 1780-1918

Alþjóðlegt þriggja ára rannsóknarverkefni, sem ber heitið Íslenskar fornritarannsóknir og þjóðar­menning 1780-1918, hefur aðsetur í Reykjavíkurakademíunni. Því var hleypt af stokkunum í júní 2014. Það er fjármagnað af Rannsóknasjóði í vörslu Rannís. Verkefnisstjórar eru þeir Clarence E. Glad (c_glad@yahoo.com) og Gylfi Gunnlaugsson (gylfigun@centrum.is), en aðrir þátttakendur eru Matthew J. Driscoll, Kaupmannahöfn, Gottskálk Jensson, Kaup­mannahöfn, Jon Gunnar Jør­gensen, Oslo, Annette Lassen, Kaupmannahöfn, Julia Zernack, Frankfurt am Main, Simon Halink, Groningen, og Hjalti Snær Ægisson, Reykjavík.

            Í þessu verkefni verða störf þeirra íslensku fræðimanna rannsökuð, sem fengust við útgáfu á og skrif um íslensk fornrit / norrænar fornbókmenntir á árunum 1780-1918, með tilliti til þeirra þjóðernishugmynda sem þar koma fram. Lögð verður áhersla á sjálfstæði hinnar þjóðernislegu orðræðu þessara fræðimanna gagnvart þeirri pólitísku orðræðu, sem fylgdi sjálfstæðisbaráttunni. Orðræða þeirra verður skoðuð sem hluti af alþjóðlegri umræðu um hinn íslenska / norræna menningararf og þjóðarmenningu almennt. Ein birtingarmynd þessarar umræðu var togstreita Íslendinga við aðrar þjóðir um „eignarhald“ á þessum arfi eða ákveðnum hlutum hans. Á sama tíma voru íslensku fræðimennirnir í víðtæku samstarfi við erlenda starfsbræður sína. Þetta samstarf og umgjörð þess verður athugað sérstaklega. Loks verður lögð áhersla á að kanna tengsl orðræðu hinna íslensku fræðimanna við viðtöku grísk-rómverskrar arfleiðar. Rannsóknin mun skila mikilvægum upplýsingum um mótun sjálfsmyndar Íslendinga á umbrotatímum, auk þess að hafa almennt menningarsögulegt gildi.