(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Lög félags ReykjavíkurAkademíunnar

Lög félags ReykjavíkurAkademíunnar

by | 4. des, 2008 | Fréttir

Lög Félags ReykjavíkurAkademíunnar

Heiti og tilgangur

1. gr.
Félagið heitir Félag ReykjavíkurAkademíunnar. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Tilgangur félagsins er að styðja við starfsemi og standa vörð um hagsmuni ReykjavíkurAkademíunnar ses.

Félagar, aukafélagar og aðild lögpersóna

3. gr.
Félagar geta þeir orðið sem hafa atvinnu af fræði- og ritstörfum og listum.

Aðalfundur

4. gr.
Aðalfundur Félags ReykjavíkurAkademíunnar skal haldinn vor hvert, en reikningsár félagsins er almanaksárið. Til aðalfundar skal boðað skriflega meðal félagsmanna, með pósti eða rafpósti, með minnst viku fyrirvara og með opinberri tilkynningu í fjölmiðli.
Dagskrá aðalfundar er sem hér segir:
(1) Kosning embættismanna fundarins.
(2) Skýrsla stjórnar.
(3) Reikningar félagsins.
(4) Lagabreytingar. Tillögur að lagabreytingum skulu liggja frammi minnst viku fyrir aðalfund og kynntar félagsmönnum.
(5) Kjör formanns.
(6) Kjör fjögurra stjórnarmanna.
(7) Kosning í stjórn ReykjavíkurAkademíunnar ses.
(8) Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga.
(9) Ákvörðun félagsgjalda.
(10) Önnur mál.
Atkvæðisrétt á fundinum hafa félagsmenn sem viðstaddir eru og greitt hafa félagsgjald.

Stjórn Félags ReykjavíkurAkademíunnar.

5. gr.
Stjórn Félags ReykjavíkurAkademíunnar skipa fimm aðalmenn. Formaður er kosinn á aðalfundi en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkefnum eftir því sem við á hverju sinni, en ávallt skal hún velja úr sínum hópi ritara og gjaldkera er gegni störfum sínum til næsta aðalfundar.

6. gr.
Stjórn Félags ReykjavíkurAkademíunnar sér um fjárreiður félagsins, gerir fjárhagsáætlun í upphafi hvers starfsárs og gerir upp reikningsárið. Hún sér einnig til þess að haldið sé félagatal. Haldin er gjörðarbók stjórnarfunda og skulu viðstaddir stjórnarmenn staðfesta fundargerð með undirritun sinni.

7. gr.
Stjórn Félags ReykjavíkurAkademíunnar kemur fram fyrir hönd félagsins, hefur umboð félagsmanna til að fara með mál félagsins og fylgja eftir markmiðum þess.

Stefnumótun

8.gr.
Félag ReykjavíkurAkademíunnar skal vinna með stjórn ReykjavíkurAkademíunnar ses. að því að tryggja hag stofnunarinnar. Stjórn félagsins skal, í samráði við framkvæmdastjóra og stjórn RA ses, hafa frumkvæði að skipulagningu fræðilegra viðburða og verkefna innan vébanda ReykjavíkurAkademíunnar og í samstarfi við fræðafélög og aðrar stofnanir á sviði menningar og fræða. Félagið getur komið að kynningu stofnunarinnar, fjáröflun fyrir hana og til einstakra verkefna sem unnin eru á hennar vegum. Þá getur félagið staðið fyrir útgáfu fréttabréfs og annarri starfsemi sem má verða til að efla samstöðu félaga innan húss sem utan.

Almennur félagsfundur

9. gr.
Fari minnst 25 félagar í Félagi ReykjavíkurAkademíunnar fram á sérstakan félagsfund skal stjórn verða við því og boða til fundar með rafpósti og auglýsingu á heimasíðu, með minnst þriggja daga fyrirvara. Atkvæðisrétt á félagsfundi hafa félagar í Félagi ReykjavíkurAkademíunnar sem viðstaddir eru og greitt hafa félagsgjald. Ályktun almenns félagsfundar er bindandi fyrir stjórn greiði tveir þriðju hlutar fundarmanna henni atkvæði.

Breyting á lögum.

10. gr.
Lögum þessum er aðeins heimilt að breyta á aðalfundi, eða aukafundi, sem boða skal til með minnst viku fyrirvara, enda séu lagabreytingar auglýstar í fundarboði. Til lagabreytinga þarf tvo þriðju hluta gildra atkvæða.

Slit Félags ReykjavíkurAkademíunnar.

11. gr.
Félagi ReykjavíkurAkademíunnar verður aðeins slitið greiði tveir þriðju hlutar því atkvæði á tveimur löglega boðuðum félagsfundum, sem halda skal með eins mánaðar millibili og boðaðir skulu með minnst viku fyrirvara. Komi til slita Félags ReykjavíkurAkademíunnar skulu eignir hennar renna í þann sjóð eða þá sjóði til styrktar rannsóknum sem aðalfundur telur best sæma tilgangi félagsins.

Samþykkt á aðalfundi Félags ReykjavíkurAkademíunnar 30. apríl 2008.