(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Málstofa um greinasafnið Old Norse-Icelandic Philology and National Identity – Upptökur

Málstofa um greinasafnið Old Norse-Icelandic Philology and National Identity – Upptökur

by | 17. maí, 2022 | Fréttir, Málþing og raðir, Upptökur, Viðburðir RA

Í dag, 17. maí 2022, var haldin málstofa um greinasafnið Old Norse-Icelandic Philology and National Identity in the Long Nineteenth Century sem nýlega kom út hjá hollenska forlaginu Brill sem 28. bindi ritraðarinnar National Cultivation of Culture.

Old Norse-Icelandic Philology and National Identity byggir í meginatriðum á rannsókn­arverkefninu Íslenskar fornritarann­sóknir og þjóðarmenning 1780-1918 sem hlaut verkefnisstyrk úr Rannsóknasjóði árið 2014. Auk ítarlegs inn­gangs, inni­heldur ritið tólf ritgerðir sem fjalla um þjóðernisleg viðhorf hóps fræðimanna, einkum íslenskra sem stunduðu rannsóknir og útgáfur á nor­ræn­um forn­bókmenntum á hinu tilgreinda tímabili. Ristjórar  verksins eru Gylfi Gunnlaugsson og Clarence E. Glad.

Málstofan hófst á stuttu erindi Gylfa Gunnlaugssonar um grunnforsendur og helstu niðurstöður rannsóknaverkefnisins.

Næst steig í pontu dr. Bragi Þorgrímur Ólafsson og flutti erindi undir yfirskriftinni Fornbókmenntir, textafræði og þjóðríkismyndun. Mat Braga Þorgríms er að Old Norse-Icelandic Philology and National Identity sé mikilvægt innlegg í rannsóknir síðustu ára á birtingarmyndum menningarlegrar þjóðernishyggju á Íslandi sem lengi hefur staðið í skugga rannsókna á pólitískum og lagalegum hliðum sjálfstæðisbaráttunnar. Hann sagði ritið varpa fersku ljósi á útgáfusögu íslenskra fræða og að helstu styrkleikar þess séu að þar sé:

  • útgáfa íslenskra fornbókmennta sett í samnorrænt samhengi og um leið undirstrikuð rík tengsl milli fræðimannana
  • Ítarleg umfjöllun um sögu og mikilvægi útgáfa fornnorrænna rita sem í dag eru fágætar og lítið þekktar enda hafi fáir fræðimenn haldið þeim á lofti
  • Ítarleg og gagnrýnin umfjöllun um störf fræðimannana sem einkenndust af vísindahyggju fremur en þjóðernishyggju eins og oft er haldið fram.

Þá flutti Guðmundur Hálfdanarson prófessor erindið Fornnorrænar bókmenntir og þjóðerni og ræddi meðal annars mikilvægi fornbókmennta við mótun íslensks þjóðernis á 19. öld. Bæði sem undirstöðu stolts og heiðurs Íslendinga sjálfra og sem framlag til samnorræns menningararfs. Að mati Guðmundar gengur spurningin, Hverra menningararfur eru handritin? sem rauður þráður í gegnum bókina og að þar sýnist sitt hverjum, Norðmönnum, Dönum og Íslendingum. Þá taldi Guðmundur að mikilvægi ritsins fælist meðal annars í því að þar er tekin af mikilli alvöru og í samhengi við sögulegt baksvið og hugmyndafræði 19. aldar íslenska umræðan um fornbókmenntirnar. Hana hefði skort í öðrum nýlega útkomnum ritum ritraðarinnar National Cultivation of Culture. Að síðustu sagði Guðmundur ritið hið glæsilegasta og að rannsóknirnar þar að baki nýstálegar. Sem dæmi nefndi hann að rannsóknir Jóns Sigurðssonar væru þar settar í stærra vísindalegra samhengi en gert hefur verið fram að þessu.

Síðastur á mælendaskránni var Jón Karl Helgason prófessor en hann fjallað um greinasafnið undir yfirskriftinni ReykjavíkurAkademían og Study Platform on Interlocking Nationalisms. Í erindinu skoðaði Jón Karl rannsóknir síðustu 25 ára á þjóðernishyggju í Evrópu með sömu gleraugum og notuð eru í Old Norse_Icelandic Philology and National Identity til þess að rannsaka útgáfusögu norrænna fornbókmennta og tengsl milli fræðimannana á 19. öld. Niðurstaða Jóns Karls var sú að þær rannsóknir sem fram hafa farið við ReykjavíkurAkademíuna, Háskóla Íslands og í Amsterdam tengjast allar í gegnum Joep Leerssen aðalritstjóri ritraðarinnar National Cultivation of Culture en Joep hefur byggt upp víðtæk tengslanet allflestra rannsakenda þjóðernishyggju á hinni löngu 19. öld. Að mati Jóns Karls felst gildi ritsins meðal annars í því hversu vel og ítarlega tengslanet fræðimannanna á 19. öld er kortlagt og hversu stór tímaramminn er.

Að loknum framsöguerindum fóru fram umræður. Dr. Ingunn Ásdísardóttir þjóðfræðingur stýrði fundinum af mikilli röggsemi. Upptökur frá málstofunni eru aðgengilegar á Vimoe-síðu ReykjavíkurAkademíunnar.

Svipmyndir af málstofunni má sjá hér fyrir neðan og minnt er á að greinsafnið fæst bæði í prentaðri gerð og sem rafbók.