(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » „Nú átti auðvitað að slátra mér“ Franskir sjómenn í endurminningum Reykvíkinga á 20. öld

„Nú átti auðvitað að slátra mér“ Franskir sjómenn í endurminningum Reykvíkinga á 20. öld

by | 4. okt, 2019 | Fréttir, Fyrirlestrarröð RA, Viðburðir RA

Íris Ellenberger sagnfræðingurÍris Ellenberger heldur opinn fyrirlestur í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar 4.hæð í Þórunnartúni 10. október 2019 kl. 12.00 Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Við aldamótin 1900 var Reykjavík hafnarborg í vexti sem tók árlega á móti ólíkum hópum fólks sem komu til bæjarins, ýmist til að setjast þar að eða stalda við tímabundið. Einn þessara hópa voru franskir sjómenn sem dvöldu í bænum, flestir aðeins í nokkra sólarhringa á fardögum á sumrin. Þó kom fyrir að strandaðir og veikir sjómenn byggju í bænum um mánaða skeið. Franskur spítali reis í Reykjavík en þar voru einnig franskar verslanir og aðrir innviðir til að þjónusta hópinn. Franskir sjómenn settu því óneitanlega svip sinn á bæinn sem breyttist í „franskt fiskiþorp“ nokkra daga á ári, að sögn Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar. Því skal ekki undra að franskir sjómenn komi gjarna við sögu þegar Reykjavík við aldamótin 1900 er lýst í endurminningum, sagnaþáttum og öðru sögulegu efni.

Í erindinu verður lesið í lýsingar af kynnum Reykvíkinga við franska sjómenn á tímabilinu 1890–1920, eins og þær birtast í endurminningum sem ritaðar eru um 1950 og síðar. Helstu einkenni lýsinganna verða skoðuð og fjallað um helstu þemun sem í þeim birtast. Þá verður spurt hvað hægt sé að lesa í þær um reykvískt samfélag við aldamótin 1900, með áherslu á að leiða í ljós hvernig Frakkar mótuðu bæinn í félagi við aðra samfélagshópa. Þá verður einnig fjallað um endurminningarnar sem vitnisburð um minninguna af frönsku sjómönnunum og spurt hvaða hlutverki hún gæti hafa gegnt á ritunartímanum, þegar franskir sjómenn voru löngu hættir að leggja leið sína til Íslands.

Íris Ellenberger er sagnfræðingur og lektor í Deild faggreinakennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún hefur stundað rannsóknir á sviði hinsegin sögu, sögu fólksflutninga og þvermenningarlegrar sögu. Á síðustu árum hefur hún skoðað hvernig þverþjóðlegur hreyfanleiki fólks, varnings og hugmynda mótaði staðbundið samfélag Reykjavík á árunum 1890–1920 og hefur birt greinar úr þeirri rannsókn í Sögu og Women‘s History Review. Hún rannsakar um þessar mundir hlut franskra sjómanna og annarra franskra borgara í þessari mótun.