1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Nýr fræðimaður: Stefán Jökulsson

Nýr fræðimaður: Stefán Jökulsson

by | 2. Nov, 2023 | Fréttir

Stefán JökulssonStefán hefur unnið við grunnskólakennslu, dagskrárgerð í útvarpi, hugmyndavinnu og  textagerð, þýðingar, hljóðfæraleik, rannsóknir og ritstörf. 

Hann var til dæmis fyrsti ritstjóri Nýrra menntamála, fagtímarits Hins íslenska kennarafélags og Kennarasambands Íslands, og sem lektor í HÍ setti hann á laggirnar fyrstu námskeiðin um miðlalæsi á vettvangi kennaramenntunar hérlendis. Hann var jafnframt höfundur rits sem stjórnvöld gáfu út í tengslum við nýja námskrá árið 2012. Í því fjallaði hann um læsi í víðum skilningi sem einn af grunnþáttum menntunar.

Stefán lærði útvarpsdagskrárgerð hjá BBC í London árið 1985 og öðlaðist þar réttindi sem kennari á því sviði og ráðgjafi varðandi stjórn og rekstur útvarpsstöðva. Hann lauk svo MA prófi í miðlunar- og boðskiptafræðum (Leicester háskóla, Englandi, árið 2000) og rannsóknartengdu MA námi í félagsfræði (Háskólanum á Akureyri, 2023) þar sem viðfangsefnið var andlegt líf (spirituality), skilgreiningar og álitamál á því sviði.

Síðara MA námið tengdist meðal annars andlegu lífi eldri borgara og hefur Stefán fylgt þeim þræði eftir með námskeiðum og fyrirlestrum, til dæmis hjá U3A, háskóla þriðja æviskeiðsins, og á félagsmiðstöðvum eldri borgara.