1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Nýr samningur undirritaður

Nýr samningur undirritaður

by | 3. Apr, 2014 | Fréttir

Undirritun Reykjavíkurakademían 00612

Í gær, miðvikudaginn 5. febrúar, skrifuðu Illugi Gunnarsson, ráðherra mennta- og menningarmála og Sólveig Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar undir þriggja ára styrktarsamning mennta- og menningarmálaráðuneytisins við ReykjavíkurAkademíuna. Í samningnum kemur fram að RA sé rannsóknar- og nýsköpunarstofnun í menningar-, hug- og félagsvísindum sem eigi að veita vísindamönnum í sjálfstæðum rannsóknum starfsaðstöðu og rannsóknarþjónustu. Markhópur RA er auk þess fræða- og fagfélög, menningar- og fræðastofnanir, sem og smáfyrirtæki sem byggja starfsemi sína á rannsóknum og miðlun þeirra. Sérstök áhersla er lögð á að veita ungum vísindamönnum í rannsóknartengdu framhaldsnámi innanlands sem utan aðstoð og aðstöðu eftir föngum. Meginmarkmið samningsins er að efla formlegan vettvang fyrir sjálfstæðar rannsóknir og nýsköpun með rekstri á öflugri rannsóknarstofnun og menningarmiðstöð, virkja og tengja saman þann mannafla sem stundar sjálfstæðar rannsóknir og hvetja til fjölfaglegs samstarfs milli einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja, þekkingasetra, háskóla, annarra mennta-, menningar- og fræðastofnana innanlands sem utan og stuðla að fræðilegri og gagnrýninni samfélagsumræðu.

Við undirritun samningsins milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og ReykjavíkurAkademíunnar í gær bundust aðilar fastmælum um að standa sameiginlega að málþingi á hausti komanda um stöðu sjálfstæðra rannsókna á Íslandi og gildi þeirra fyrir menningu okkar og samfélag. Jafnframt bindur ReykjavíkurAkademían miklar vonur við að henni auðnist, með atbeina hins opinbera, að efla rannsóknastarf sjálfstætt starfandi vísindafólks enn frekar á komandi árum og styrkja það formlega og óformlega stoðkerfi sem hún býður félögum sínum og öðrum skjólstæðingum upp á.

Hér má nálgast samning RA við menntamálaráðuneytið fyrir árin 2014-2016.