(354) 562 8565 ra@akademia.is

Prentsmiðja fólksins

Prentsmiðju fólksins hleypt af stokkunum í ReykjavíkurAkademíunni

föstudaginn 1. júní  kl. 15-17.
plti.jpg

Föstudaginn 1. júní verður rannsóknarverkefninu Prentsmiðja fólksins: Handrita- og bókmenning síðari alda formlega hleypt af stokkunum. Verkefnið er samstarf fræðimanna við ReykjavíkurAkademíuna, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Árnastofnun  í Kaupmannahöfn og hlaut það styrk úr Rannsóknasjóði til áranna 2012-2014. Verkefnastjóri er Dr. Matthew James Driscoll, forstöðumaður Árnastofnunar í Kaupmannahöfn.

Þrátt fyrir tilkomu prentverks á Íslandi um 1530 fóru bókmenning og miðlun texta meðal þjóðarinnar að miklu leyti fram í handrituðu formi. Markmið verkefnisins er að rannsaka framleiðslu, miðlun og viðtökur handritaðs efnis á prentöld, tengsl handrita við aðrar miðlunarleiðir, s.s. prent og munnlega miðlun, og gagnvirk áhrif miðils, texta og samfélags. Rannsóknarhópnum er ætlað að leggja fram mikilsvert framlag til nýs og vaxandi þverfaglegs sviðs innan hug- og félagsvísinda sem kenna má við handritarannsóknir síðari alda (16.-20. öld). Verkefninu er ætlað að draga fram og greina menningarlega auðlegð þess handritaða efnis sem varðveitt er frá tímabilinu 1530-1930 og ýta þannig undir endurskoðun á íslenskri menningarsögu. Innan ramma þess koma saman fjölmargar fræðigreinar og viðfangsefni s.s. bókmenntasaga, hugmyndasaga, málsaga, sjálfsbókmenntir, alþýðubókmenntir og þjóðlegur og staðbundinn fróðleikur. Í stuttri dagskrá sem haldin verður á sal ReykjavíkurAkdemíunnar að Hringbraut 121 milli kl. 15 og 17 verður verkefnið kynnt almennt og svo munu fjórir fræðimenn segja frá rannsóknarverkefnum sínum sem þegar eru hafin á þessu fyrsta starfsári. Að því loknu verður boðið upp á léttar veitingar.