1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » ReykjavíkurAkademían – áfangasigur

ReykjavíkurAkademían – áfangasigur

by | 18. Mar, 2011 | Fréttir

undirskrift_minni.jpg

Í gær, 17. mars 2011 undirrituðu Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Sólveig Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar nýjan styrktarsamning ráðuneytisins við RA. Samningurinn felur í sér að ráðuneytið muni beita sér fyrir a.m.k. 16 milljóna króna árlegu framlagi til RA. Samningurinn gildir út árið 2013. Eins og kemur fram í fréttatilkynningu ráðuneytisins er um er að ræða tímamótasamning í sögu ReykjavíkurAkademíunnar sem nú hefur starfað í 14 ár en stígur nú nýtt skref sem miðstöð rannsókna og fræða.

Hlutverk ReykjavíkurAkademíunnar er samkvæmt hinum nýja samningi að vera rannsóknarstofnun og nýsköpunarmiðstöð í menningar, hug- og félagsvísindum sem veitir sjálfstætt starfandi fræðimönnum starfsaðstöðu, er vettvangur fjölfaglegs samstarfs fræðimanna og hefur staðið fyrir fyrirlestrum, málþingum og umræðufundum sem tengjast rannsóknaverkefnum fræðimanna og stúdenta innan RA. Sérstök áhersla verður lögð á að veita háskólastúdentum í framhaldsnámi hérlendis sem erlendis aðstoð og aðstöðu eftir föngum og einnig að veita samstarfsfélögum RA ráðgjöf og upplýsingar um fjármögnunarmöguleika, styrkumsóknir, rekstur rannsóknaverkefna, samstarfsmöguleika við fræðimenn innanlands sem utan.

Hinn 1. maí næstkomandi tekur nýr húsaleigusamningur RA gildi. Samkvæmt honum mun RA leigja áfram töluverðan hluta af núverandi húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar á fjórðu og fimmtu hæð í JL-húsinu við Hringbraut 121. Samkomusalur RA verður því hér eftir sem hingað til kraumandi pottur gagnrýninnar og skapandi uppfræðslu, umræðu og skoðanaskipta.