(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Undirritun samnings um varðveislu Bókasafns Dagsbrúnar

Undirritun samnings um varðveislu Bókasafns Dagsbrúnar

by | 3. maí, 2021 | Fréttir

Undirritun samnings um Bókasafn Dagsbrúnar 2021-2023

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir framkvæmdastjóri RA undirrita samninginn í Bókasafni Dagsbrúnar, Þórunnartúni 2.

Á síðasta degi aprílmánaðar var undirritaður nýr samningur  Eflingar – stéttarfélags og ReykjavíkurAkademíunnar um varðveislu og rekstur Bókasafns Dagsbrúnar til næstu þriggja ára. ReykjavíkurAkademían hefur verið vörsluaðili Bókasafns Dagsbrúnar frá árinu 2003 en saga safnsins nær allt aftur til ársins 1956. 26. janúar það ár, á 50 ára afmæli Verkamannafélagsins Dagsbrúnar gaf Guðrún Pálsdóttir, ekkja Héðins Valdimarssonar fv. formanns Dagsbrúnar og fyrsta formanns Sósíalistaflokksins, félaginu bókasafn þeirra hjóna til minningar um Héðin.

Bókasafn Dagsbrúnar er sérfræðisafn, vísinda- og rannsóknarsafn um íslenska verkalýðshreyfingu og vinnumarkað, það eina sinnar tegundar á landinu. Þá er safnið almennt fræðibókasafn í hug-, hag- og félagsvísindum og handbókasafn fyrir ReykjavíkurAkademíuna. Bókasafnið er staðsett í nýjum húsakynnum á 1. hæð í Þórunnartúni 2. Þar er góð vinnuaðstaða fyrir þá sem rannsaka þróun verkalýðshreyfingar, velferðarkerfis og íslensks atvinnulífs auk þess sem mögulegt er að fá leigða þar tímabundna vinnuaðstöðu.

Meðal markmiða samstarfsaðilanna er að efla safnkostinn með markvissri söfnun og grisjun, að uppfæra vefsíðu safnsins þannig að hún nýtist sem upplýsingabrunnur um heimildir og rannsóknir á sögu og þróun íslenskrar verkalýðshreyfingar og atvinnulífs og að hugað verði að nýjungum í rekstri bókasafna, svo sem rafrænum aðgangi að gagnasöfnum og opnum aðgangi.

Nú á vordögum kom út Stefna Bókasafns Dagsbrúnar 2021-2023 þar sem markmið samstarfsaðilanna eru undirstrikuð. Fljótlega tekur ný fagstjórn safnsins til starfa auk þess sem unnið er að því að ráða til starfa bókasafns- og upplýsingafræðing.

Nánari upplýsingar um safnið og opnunartíma þess veitir Ingibjörg Hjartardóttir umsjónarmaður safnsins í netfanginu bokasafn@akademia.is