1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Sjálfsmyndir Íslendinga á 20. öld

Sjálfsmyndir Íslendinga á 20. öld

by | 16. Mar, 2009 | Fréttir

Miðvikudaginn 18. mars, frá klukkan kl. 20:00-22:00, flytja Marion Lerner, Júlíana Gottskálksdóttir og Hallfríður Þórarinsdóttir fyrirlestra um Sjálfsmyndir Íslendinga á 20. öld. Fyrirlestrarnir eru hluti af fyrirlestraröð Ínor verkefnisins. Guðmundur Hálfdanarson fer með athugasemdir og viðbrögð en fundarstjóri er Ólöf Gerður Sigfúsdóttir.


Júlíana Gottskálksdóttir, listfræðingur: Í minningu landnema í norðri. Í erindinu verður sjónum beint að standmyndum af landnemum á norðurslóð og hugmyndum manna á ofanverðri 19. öld og fyrstu áratugum 20. aldar um táknrænt hlutverk þeirra.
Fjallað verður um hugmynd Sigurður Guðmundssonar málara um styttu af Ingólfi og hún sett í víðara hugmyndasögulegt samhengi sem og hvaða augum menn litu hlutverk hennar hér á landi. Í framhaldi verður fjallað um opinbera umræðu um Ingólfsmynd Einars Jónssonar þar sem menn deildu um túlkun listamannsins og fram kom ákveðin sýn á í hverju hið norræna  birtist.
Að síðustu verður fjallað um það verkefni Einars að móta mynd af Þorfinni karlsefni, fyrsta landnema Ameríku, eins og það var orðað, og á hvern hátt sú söguskoðun lýsir viðhorfum til þess sem telst vera saga og hverjir hafi lagt á ráðin. Einnig verður fjallað um viðtökur verksins vestan hafs.

Marion Lerner, menningar- og þýðingafræðingur: „Norðrið“ og leitin að sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar í upphafi 20. aldar.
Þegar Ferðafélag Íslands var stofnað 1927 tóku forystumenn þess virkan þátt í orðræðu tímans. Þeir litu svo á að með stofnun FÍ væri komin til sögu áhrifamikið „félag allra landsmanna“. Í erindinu verður beint sjónum að því hvaða ímynd af íslenskri náttúru þeir drógu upp, hvernig frekar óljósar hugmyndir um „norðrið“ tengdust þessari ímynd og hvaða afleiðingar það hafði fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar. Á stofnfundi FÍ talaði Björn Ólafsson um það að erlendar þjóðir mættu ekki halda að á Íslandi byggi „hálfvillt þjóð í óbyggilegu landi“. Hvað var það sem hann vísaði til með þessu? Hvers konar sjálfsmynd má lesa úr orðum sem þessum?

Hallfríður Þórarinsdóttir, mannfræðingur:
Enskunotkun hjá íslenskum fyrirtækjum, ofurtrú á eigin hæfni eða ógn við íslenskt mál?

Nánari upplýsingar fást á heimasíðu Ínor verkefnisins www.inor.is