1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Stúdentastofa ReykjavíkurAkademíunnar

Stúdentastofa ReykjavíkurAkademíunnar

by | 9. Sep, 2009 | Fréttir

Í haust mun ReykjavíkurAkademían bjóða háskólanemum í framhaldsnámi (meistara- eða doktorsnámi) í félags- og hugvísindum tímabundna vinnuaðstöðu í svonefndri Stúdentastofu í húsakynnum Akademíunnar að Hringbraut 121 í Reykjavík (sjá www.akademia.is). Nemendum gefst kostur á að sækja um 1-3 mánaða dvöl á tímabilinu frá 1. október til 31. desember 2009 sér að kostnaðarlausu fyrir utan 2.000 kr þjónustugjald á mánuði. Að þeim tíma liðnum gefst þeim kostur á að sækja um að leigja aðstöðu í ReykjavíkurAkademíunni á almennum kjörum. Ekki er gerð krafa um að nemendur séu að vinna að lokaritgerð.

Um er að ræða tilraunaverkefni sem standa mun frá miðjum september til áramóta. Í boði eru fimm skrifborð í stórri skrifstofu auk aðgangs að sameiginlegu rými akademíunnar; eldhúsi og kaffistofu, fundaherbergi og fyrirlestrasal. Þráðlaus nettenging er í húsinu, sem og ljósritunarvél og prentari auk þess sem bókasafn Dagsbrúnar er þar til afnota.

Þar að auki tækju styrkþegar virkan þátt í því lifandi og dýnamíska fræðasamfélagi sem RA er og hefðu því aðgang að fjölda fræðimanna, ungra jafnt sem þrautreyndra, á fjölmörgum sviðum hug- og félagsvísinda. Í upphafi dvalar er reiknað með að styrkþegar kynni verkefni sín fyrir fræðimönnum RA.

Umsóknir sendist ReykjavíkurAkademíunni, Hringbraut 121, 107 Reykjavík, eða í tölvupósti: ra@akademia.is. Ekki eru notuð sérstök eyðublöð en umsækjendur eru beðnir að tilgreina umsóknartíma, fræðasvið, viðfangsefni (stutt greinargerð), áætluð lok, aðalleiðbeinanda auk meðmæla og annars sem styrkt gæti umsóknina. Umsóknir skulu berast í síðasta lagi mánudaginn 21. september og mun niðurstaða úthlutunarnefndar liggja fyrir viku síðar.