1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Tengsl – hreyfanleiki – heimsmynd, 9.nóv

Tengsl – hreyfanleiki – heimsmynd, 9.nóv

by | 2. Nov, 2010 | Fréttir

meccakaaba.jpg

 

Fyrirlestrarröð Mannfræðifélags Íslands, Tengsl – hreyfanleiki – heimsmynd, heldur áfram í ReykjavíkurAkademíunni þriðjudaginn 9. nóvember kl. 20:00. Kristján Þór Sigurðsson, doktorsnemi í mannfræði við Háskóla Íslands mun flytja erindið

 

„Yfir á beinu brautina: Íslendingar sem taka íslamstrú.“

 

Í fyrirlestrinum mun Kristján fjalla um “etníska” Íslendinga sem hafa tekið íslamtrú. Trúskipti af þessu tagi hafa átt sér stað í að minnsta kosti fjörutíu ár og er þessi hópur nokkuð fjölbreyttur. Til að byrja með gerðust Íslendingar múslimar vegna hjúskapar (voru konur þar í meirihluta) en í seinni tíð hefur aukist að einstaklingar (oft ungt fólk) hafa tekið íslamstrú af öðrum ástæðum – augljóslega af trúarlegum en einnig af pólitískum ástæðum (t.d. sem samsömun við ýmsa kúgaða hópa í heiminum). Rannsóknin er að miklu leyti byggð á viðtölum við múslímska Íslendinga af báðum kynjum, ýmsum aldri, mismunandi menntunarstigi og þjóðfélagstöðu. Litið verður á þennan hóp sem eins konar jaðarfyrirbæri í félagslegum og menningarlegum skilningi, sem tengilið á milli tveggja (eða fleiri) heima og sýnt fram á að sú brúarbygging gengur misjafnlega vel. Athygli verður beint að þeim breytingum sem verða í samskiptum þessara nýju múslima við félagslegt net sitt sem og samfélagið í víðara samhengi. Litið verður á mismunandi hátt og ástæður fyrir því að Íslendingar taka íslamtrú og þá breytingu sem verður á heimssýn og lífsháttum þessara einstaklinga. Síðan verður þetta fyrirbæri borið saman við samskonar trúskipti í nokkrum nágrannalöndum okkar.

Allir velkomnir!