(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fyrirlestrarröð RA
  4.  » Þorgerðarmál

Þorgerðarmál

Þorgerðarmál H. Þorvaldsdóttur

 

Þ o r g e r ð a r m á l

til minningar um dr. Þorgerði H. Þorvaldsdóttur, sagn- og kynjafræðing, sjálfstætt-starfandi

fræðimann í ReykjavíkurAkademíunni og sérfræðing

hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands

haldið í Dagsbrún, sal ReykjavíkurAkademíunnar, Þórunnartúni 2,

laugardaginn 12. febrúar 2022

kl. 13.00 – 16.00

Á Þorgerðarmálum er ljósi varpað á framlag dr. Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur, sagn- og kynjafræðings til fræðilegrar og samfélagslegrar umræðu og kynntar nýjar áherslur í þeim málaflokkum sem hún brann fyrir.  Þar á meðal má nefna jafnrétti í víðum skilningi, kynjaða menningu og kynjaímyndir. Ennfremur orðræður og hugmyndir sem tengjast „ótrúlegri fegurð íslenskra kvenna“, „hinu jafnrétta norðri“, útvíkkun jafnréttishugtaksins, takmörkum kosningaréttarins, ímyndum rakara- og hárgreiðslustofa og líkamsbyltingum kvenna.

Málþinginu verður streymt í gegnum Facebooksíðu ReykjavíkurAkademíunnar. Einnig verður hægt að nálgast upptöku af fyrirlestrum. Vegna aðstæðna í samfélaginu eru þátttakendur vinsamlegast beðnir um að skrá sig með því að fylla út eyðublað. (kemur síðar)

Skipuleggjendur Þorgerðarmála eru þær Bára Baldursdóttir sagnfræðingur og Lilja Hjartardóttir stjórnmálafræðingur.


 

Dagskrá

Dr. Ingunn Ásdísardóttir, þjóðfræðingur og formaður ReykjavíkurAkademíunnar ses. setur málþingið

Dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands.  Listin að kafa til botns og fljúga hátt í senn

Dr. Guðný Gústafsdóttir, kynjafræðingur og verkefnisstjóri Félagsvísindastofnunar við Háskóla Íslands. Í fótspor Fjallkonunnar

Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands.  Konur, klæðnaður og vald. Íslenskar konur í buxum að fornu og nýju

Lilja Hjartardóttir, stjórnmálafræðingur í ReykjavíkurAkademíunni. Konur á markaði  

Hlé með léttum veitingum

Linda Vilhjálmsdóttir, rithöfundur flytur fjallkonuljóðið úr ljóðabókinni Smáa letrið

Björg Hjartardóttir, kynja- og fjölmenningarfræðingur og kennari við Menntaskólann við Sund.  Ferðasaga Margrétar

Dr. Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.  Sagnfræðin, femínisminn og fortíðin

Dr. Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.  Kvenleg atkvæði, kynjuð rými og líkamleg borgararéttindi

 Dr. Irma J. Erlingsdóttir, prófessor við Mála- og menningardeild, forstöðumaður RIKK GRÓ GEST og verkefnisstjóri EDDU við Háskóla Íslands.  Afbygging sem aðferð. Lestur Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur á íslenskum kynjaveruleika

Fundarstjóri: Dr. Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, dósent við Háskólann á Bifröst og formaður félags ReykjavíkurAkademíunnar

 


 

Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir

Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir (9. maí 1968 – 25. júlí 2020), sagn- og kynjafræðingur og sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni   lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Akureyri 1988 og BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1995. MA prófi í kynjafræðum og femínískum kenningum frá The New School of Social Research í New York lauk hún 1998 og doktorsprófi í kynjafræðum frá Háskóla Íslands 2012. Frá 2006–2007 var Þorgerður Marie Curie styrkþegi við Tema Genus við Linköping háskóla í Svíþjóð.

Þorgerður gekk til liðs við ReykjavíkurAkademíuna árið 1999. Þar vann hún  að fjölbreyttum rannsóknarverkefnum, ein og í samstarfi við aðra, eins og Homosexuality, Criminal Justice and Criminal Discourse in Scandinavia 1864-2000 og í öndvegisverkefninu Ísland og ímyndir norðursins. Bókin Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi sem þær Bára Baldursdóttir sagnfræðingur skrifuðu kom út 2018 en hún er hluti af Safni til Iðnsögu Íslendinga.  Undanfarin ár vann Þorgerður ásamt öðrum að ritun á bókinni Konur sem kjósa. Aldarsaga í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna. Þá var hún sérfræðingur í verkefninu Í kjölfar kosningaréttar. Félags- og menningarsöguleg rannsókn á konum sem pólitískum gerendum 1915-2015 hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Að henni látinni kom út bókakaflinn Líkamsbyltingar og #MeToo í Fléttum V, ritröð RIKK.

Doktorsritgerð Þorgerðar From Gender Only to Equality for All. A Critical Examination of the Expansion of Equality Work in Iceland  fjallaði um útvíkkun jafnréttishugtaksins og hvernig jafnréttisorðræður og jafnréttisstarf hefur þróast og breyst frá því að snúast um jafnrétti kynjanna í það að sinna jafnrétti ýmissa minnihlutahópa og vinna gegn margþættri mismunun.

Rannsóknir Þorgerðar beindust því að jafnrétti í víðum skilningi,  kynjaðri menningu og kynjaímyndum á 20. og 21. öld. Þannig skoðaði hún orðræður og hugmyndir sem tengjast „ótrúlegri fegurð íslenskra kvenna“, „hinu jafnrétta norðri“, útvíkkun jafnréttishugtaksins, takmörkunum kosningaréttarins, ímyndum rakara- og hárgreiðslustofa og líkamsbyltingum kvenna.

Þorgerður var dóttir hjónanna Guðrúnar Bjarnadóttur og Þorvaldar H. Jónssonar á Guðrúnarstöðum í Vatnsdal og þar ólst Þorgerður upp ásamt systrum sínum. Eiginmaður hennar var Ágúst Ásgeirsson og stjúpsonur Ingimundur Ágústsson.